Posts Tagged ‘Forsetakosningar’

Ég er til þess að gera mjög sáttur við núverandi forseta og það hefði þurft mikið að breytast til að ég íhugaði að kjósa einhvern annan fyrir næsta kjörtímabil.

En fyrir utan það og fyrir utan að það er sjálfsagt að taka þátt í kosningum.. þá gefa komandi forsetakosningar okkur ágætis tækifæri.

Mótframbjóðandi forsetans hefur tekið þátt í og staðið fyrir orðræðu og umræðu sem ég hef talsvert mikla skömm á, svo ekki sé meira sagt. Þetta virðist fylgja ákveðinni þróun víða í heiminum og frambjóðandinn virðist ætla að spila á sambærilegan hátt fáfræði kjósenda og tekist hefur annars staðar.

Þannig að þessar kosningar eru frábært tækifæri til að senda skýr skilaboð um að við viljum ekki sjá svona framboð.

Þá er tímabært að fara að velja hvaða frambjóðanda ég kýs sem forseta. Ég ætla að reyna að nálgast þetta þannig að ég skoði alla valkosti af hlutleysi.

Nokkrir frambjóðendur eru vissulega ansi ólíklegir eftir umræður síðustu vikna og það þarf eitthvað mikið að breytast til að ég skoði í fullri alvöru að þeir fái mitt atkvæði.

Ég er samt með nokkrar spurningar sem geta vonandi hjálpað mér að gera upp hug minn, kannski skrýtnar, jafnvel „gildishlaðnar“ og auðvitað á mínum forsendum… enda eru þetta mínar spurningar!

 1. Kemur þú til með að beita þér gegn því að sett verði ný stjórnarskrá? [mér er sama hvaða skoðun þú hefur á þörfinni á nýrri stjórnarskrá, þetta snýst um hvort þú myndir beita þér gegn málinu ef til kemur]
 2. Ertu í framboði vegna þess að þú gerir ráð fyrir að geta náð kosningu eða er eitthvert annað markmið með framboðinu? [ef þú ert að gera ráð fyrir að geta náð kosningu, kemur þú til með að halda framboðinu til streitu þó kannanir sýni að þetta sé útilokað?]
 3. Myndir þú verða við áskorun, segjum 25% kjósenda, um að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu – lögum sem þú er hjartanlega sammála og hafa verið samþykkt með góðum meirihluta á þingi? [nákvæmur fjöldi viðmiðunar er ekki aðalatriðið]
 4. Stefnir þú að því að láta leggja fram lagafrumvörp á Alþingi?
 5. Trúir þú að kona hafi fætt einstakling án líffræðilegs föðurs (meyfæðing) fyrir um tvö þúsund árum og að sá hinn sami hafi risið upp frá dauðum? [mér er sama um óljósar trúarskoðanir og mér er sama hvort þú tilheyrir trúfélagi, en þetta er mikilvægt]
 6. Geta trúarskoðanir réttlætt mannréttindabrot og/eða lögbrot að þínu viti?
 7. Dæmir þú heilu hópana – td. múslima, kristna og/eða gyðinga – eftir aðgerðum hlutfallslega fárra öfgamanna úr þeirra hópi? [kannski bara suma hópa?]

Ég læt þetta nægja vegna þess að mér finnast önnur atriði ekki skipta máli í þessu samhengi, jafnvel ekki atriði sem ég er mögulega hjartanlega sammála og finnast mikilvæg – en eiga einfaldlega ekki erindi á verksvið forseta.

Það getur oft verið erfitt að átta sig á hvað forsetaframbjóðendur meina raunverulega, þvi þó margt sem þeir segja hljómi ekki illa, þá er ekki ólíklegt að eitthvað annað búi að baki.

Mig grunar að minnsta kosti að það megi lesa nokkrar athugasemdir á eftirfarandi hátt:

 • það þarf að tryggja stöðugleika -> Dorrit getur ekki hugsað sér að hætta að mæta í kóngaveislur
 • keppinautarnir eru að setja met með því að gagnrýna aðra frambjóðendur -> ég þoli ekki að aðrir taki upp mína „taktík“
 • fólk þekkir kosti mína og galla -> ég treysti á gullfiskaminni kjósenda
 • ég misskildi spurninguna -> mér datt ekki í hug að það kæmist upp um mig
 • ég er fastur fyrir -> ég tek ekki rökum eða mark á upplýsingum sem mér henta ekki

Allt er betra en Óli

Posted: maí 6, 2016 in Umræða
Efnisorð:

Ég hef oft talað gegn því að fólk kjósi taktískt, einfaldlega vegna þess að ef það er gert þá endurspegla kosningarnar ekki vilja kjósenda, sem aftur er þá ekki mjög lýðræðislegt. Þetta er líka varasamt vegna „múgsefjunaráhrifa“, þeas. mögulega eru nægilega margir sem hafa ætlað sér að kjósa ákveðið framboð, en velja eitthvað annað vegna þess að þeir halda að enginn annar (eða of fáir) ætli sér að kjósa það framboð.

Auðvitað þarf betra kosningakerfi, kerfi sem leyfir kjósendum að velja samkvæmt eigin sannfæringu en nýta samt atkvæðið ef það dettur „dautt“. Það er önnur saga..

Ég er mjög lítið hrifinn að þeirri hugmynd að núverandi forseti sitji áfram. Ekki svo að skilja að hann hafi verið alslæmur, eins og flestir hefur hann átt sín jákvæðu augnablik.. þau neikvæðu hafa hins vegar verið fleiri, svona fyrir minn smekk.

En burséð frá því hvaða einkunn hann fær fyrir liðin tímabil þá er það einfaldlega galið að hann sitji áfram.. hvernig honum datt yfirleitt í hug að bjóða sig fram aftur er og verður rannsóknarefni út af fyrir sig.

Þannig að nú finnst mér að minnsta kosti lykilatriði að fá einn frambjóðanda sem er nægilega sterkur til að sigra Ólaf… sennilega er Guðni sá sem á helst möguleika.

Ég er ekki með nákvæma tölu á hversu margir eru enn í framboði, ég hef séð nokkra sem myndu sóma sér ágætlega og ég tæki mögulega fram yfir Guðna (eða hvern þann sem ætti mesta möguleika) – svo eru aðrir sem mér finnast ekki eiga neitt erindi í starfið. En það er sem sagt aukaatriði..

Ég vil sem sagt beina þeirri ósk til allra þeirra frambjóðenda sem ekki eiga raunhæfa möguleika á að ná kjöri að draga framboð sín til baka svo hægt sé að nýta öll atkvæði. (já, ég geri ekki ráð fyrir að nokkur frambjóðenda taki atkvæði frá ÓRG).

 

Mig minnir að það hafi verið sagt á upphafsárum Bandaríkjanna að einstaklingar ættu ekki að sækjast eftir forsetaembættinu, „embættið“ ætti að sækjast eftir rétta einstaklingnum.

Umræður um næsta forseta hafa reglulega komið upp í spjalli hinna ýmsu vinahópa okkar í vetur. Nægilega margir hafa verið nefndir til sögunnar – hafa annað hvort boðið sig fram, eru að hugsa um að bjóða sig fram, er verið að skora á að bjóða sig fram og/eða margir hafa komið að máli við. Sumar hugmyndirnar hafa óneitanlega þótt langsóttar í okkar hóp og í rauninni hefur ekkert nafn fengið almennilegan hljómgrunn.

Það var ekki fyrr en nafn Bryndísar Hlöðversdóttur kom fram í vikunni að það kom svona „já, auðvitað!“ augnablik hjá mér.

Ég var alltaf mjög sáttur við Kristján Eldjárn sem forseta, skal játa að ég hafði efasemdir um Vigdísi fyrirfram, en hún stóð sig að mestu ágætlega. Ég var aldrei mikill aðdáandi núverandi forseta þegar hann var að vasast í stjórnmálum, leist ekkert á blikuna þegar hann var kosinn og held að það hafi nú komið í ljós að það hefði verið farsælla að hafa annan einstakling í embætti. Í hans valdatíð hefur forsetaembættið nánast orðið leiksvið fyrir sérvisku og duttlunga.

Ég held að Bryndís sé nákvæmlega sá einstaklingur sem getur „farið vel með“ embættið og kannski unnið til baka þá virðingu sem hefur tapast – og umfram allt, hefur dómgreind til að beita því valdi og standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir.

Bryndís hefur víðtæka reynslu sem lögfræðingur, þingmaður, rektor háskóla, ríkissáttasemjari, stjórnarformaður Landsvirkjunar, svo ég nefni eitthvað..

Þannig að, ég vil ekki bara hvetja Bryndísi til að bjóða sig fram, er reyndar þegar búinn að því – ég skora á þá sem þetta lesa að skora á Bryndísi! Ekkert bara persónulega, heldur opinberlega.

 

Ég fór að velta þessu fyrir mér í framhaldi af fréttum um að minnsta kosti einn prestur ætli í framboð til forseta Íslands.

Auðvitað er ekkert tæknilega séð sem kemur í veg fyrir þetta, en er þetta góð hugmynd?

Nú er rétt að taka fram að ég þekki viðkomandi einstakling ekkert en hann fær hin bestu meðmæli, fínn og vandaður maður og hefur, að mér er sagt, sýnt fulla tillitssemi í samskiptum við fólk sem ekki er kristið og forðast að troða siðum upp á þá sem ekki vilja. Sem sagt eins góður prestur og þeir gerast – og mættu aðrir taka hann sér til fyrirmyndar.

En ég kemst ekki fram hjá þessu með trúna.

Þó ekki væri annað en trúarjátningin.

Í henni eru að minnsta kosti tvær fullyrðingar sem stangast á við náttúrulögmálin.

Þannig að annað hvort trúa prestar því að náttúrulögmálin hafi verið brotin fyrir tvö þúsund árum eða svo. Eða þeir fara reglulega með yfirlýsingu sem þeir taka ekki trúanlega.

Ekki segja mér að þetta sé myndlíking eða dæmisaga.. þetta er skýr og klár yfirlýsing.

Og ekki segja mér að yfirlýsingar séu marklausar, það gengur ekki almennilega upp fyrir forseta.

 

 

Ég velti fyrir mér úrslitum forsetakosninganna, sem mér þykja óneitanlega stórundarleg.

Mér skilst að Ólafur Ragnar hafi fyrst og fremst sótt fylgi til yngra fólks og fólks með litla menntun. Nú þekki ég fólk á öllum aldri og með alls kyns menntun.

En…

Af þokkalegum fjöldskyldu og vinahópi – svona eitthvað á annað hundraðið – man ég eftir tveimur sem ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar, annar af einhvers konar skyldu vegna tenginga og hinn var alls ekki ákveðinn, grunar jafnvel að viðkomandi hafi skipt um skoðun.

Auðvitað spurði ég ekki alla, en þetta var mikið rætt og flestir voru eindregnir andstæðingar Ólafs Ragnars. Margir höfðu kosið hann 1996 og margir voru sáttir við forsetatíð hans. En öllum blöskraði kosningabarátta hans og flestir voru búnir að nefna – þegar hann gat ekki ákveðið sig – að þetta væri nú líklega orðið gott.

Af Facebook vinum, sem eru ríflega sex hundruð, voru örfáir að lýsa stuðningi við Ólaf, ég efast um að þeir hafi náð 10, ekki fleiri en 20.

Umgengst ég svona undarlegt fólk?

Ég styð Ara Trausta

Posted: júní 29, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Ég hef gert upp við mig að ég styð Ara Trausta í forsetaskoningunum.

Ari Trausti hefur einfaldlega kynnt hugmyndir sem mér hugnast best um hlutverk embættisins og hvernig hann vill nálgast það. Hann kemur fyrir sem greindur, heiðarlegur og að hafa burði til að leysa þau mál sem upp kunna að koma.

Mér líst að mörgu leyti vel á Þóru og Herdísi og gæti séð báðar fyrir mér sem forseta. Munurinn er kannski ekki mikill, en á endanum hefur Ari Trausti vinninginn. Ég get tekið heilshugar undir skilaboð Þóru um að hverfa frá átakastjórnmálum en sú barátta væri meira virði fyrir nýja stjórnmálaflokka en forsetaframbjóðanda. Þá truflar mig að (ég held) eina málefnið sem Þóra hefur tekið afstöðu til er að – þrátt fyrir trúleysi – vill hún halda kirkjunni sem ríkiskirkju.

Framganga Ólafs Ragnars fyrir hrun er næg ástæða til að þakka fyrir unnin störf og finna eftirmann. En þar fyrir utan er ég mjög ósáttur við framgöngu hans og stuðningsmanna hans í kosningabaráttunni. Mér finnst vond tilhugsun að svona vinnubrögð skili mönnum þetta stóru embætti.

Hannes kemur svo sem þokkalega vel fyrir en hefur einhvern veginn ekki náð að koma til skila hvernig forseti hann yrði. Kannski þarf einfaldlega meiri kraft í kynningar til að koma svona til skila, ósanngjarnt..

Andrea virðist vera vel meinandi – með „stórt hjarta“ – en hún hefur einfaldlega látið of margt frá sér fara sem ég er ekki sáttur við.

Litli guli hænukjósandinn

Posted: júní 27, 2012 in Samfélag
Efnisorð:

Okkur er stundum hugsað til gamalla dæmisagna.

Einu sinni átti að velja nýjan lit á blokkina okkar. KRingurinn í hópnum stakk upp á að mála blokkina röndótta að hætti KRinga. Ólíkindatólið á þriðju hæðinni vildi hafa hana skærbleika. En flestir vildu hlutlausan hvítan lit.

Nú spurðist út að það væri talsvert um KRinga í blokkinni og að þeir gætu hugsanlega náð meirihluta. Þá var altalað að margir voru hrifnir af hugmyndinni um bleika blokk, hver af sinni ástæðu. Í rauninni voru bara 3 KRingar, enda blokkin í Keflavík. Og enginn vildi skærbleika blokk í alvörunni, þetta byrjaði bara sem einhver vitleysa og vatt upp á sig. Flestir vildu hafa blokkina hvíta.

En þegar litli gula hænukjósandinn fór að spyrja aðra íbúa hvað þeir ætluðu að kjósa voru svörin yfirleitt, „ja, að minnsta kosti ekki í KRlitunum“ eða „ja, alveg örugglega ekki bleika“. Smám saman skapaðist baráttu stemming á milli þeirra sem ekki vildu KRlitinn og þeirra sem ekki vildu bleika litinn. Þeir sem upphaflega voru sáttir við hvíta litinn voru orðnir svo óttaslegnir að þeir kusu annað hvort KRlitinn eða bleika litinn. Íbúarnir ákváðu að kjósa á móti því sem þeir óttuðust mest. Blokkin yrði máluð í þeim lit sem fengi flest atkvæði, ekki þyrfti að fá hreinan meirihluta og því vissara að kjósa „taktískt“.

Þegar til kom kusu 35 af íbúum KRlitina, 40 kusu bleika blokk en 25 kusu þann hvíta. Nítíu og sjö vildu í rauninni búa í hvítri blokk en búa nú í skærbleikri. Vegna þess að þeir kusu „taktískt“. Vegna þess að þegar þeir áttu að taka afstöðu og voru beðnir um að skila heiðarlegu atkvæði var svarið „Ekki ég“.