Lykilspurningar til forsetaframbjóðenda

Posted: maí 24, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Þá er tímabært að fara að velja hvaða frambjóðanda ég kýs sem forseta. Ég ætla að reyna að nálgast þetta þannig að ég skoði alla valkosti af hlutleysi.

Nokkrir frambjóðendur eru vissulega ansi ólíklegir eftir umræður síðustu vikna og það þarf eitthvað mikið að breytast til að ég skoði í fullri alvöru að þeir fái mitt atkvæði.

Ég er samt með nokkrar spurningar sem geta vonandi hjálpað mér að gera upp hug minn, kannski skrýtnar, jafnvel „gildishlaðnar“ og auðvitað á mínum forsendum… enda eru þetta mínar spurningar!

 1. Kemur þú til með að beita þér gegn því að sett verði ný stjórnarskrá? [mér er sama hvaða skoðun þú hefur á þörfinni á nýrri stjórnarskrá, þetta snýst um hvort þú myndir beita þér gegn málinu ef til kemur]
 2. Ertu í framboði vegna þess að þú gerir ráð fyrir að geta náð kosningu eða er eitthvert annað markmið með framboðinu? [ef þú ert að gera ráð fyrir að geta náð kosningu, kemur þú til með að halda framboðinu til streitu þó kannanir sýni að þetta sé útilokað?]
 3. Myndir þú verða við áskorun, segjum 25% kjósenda, um að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu – lögum sem þú er hjartanlega sammála og hafa verið samþykkt með góðum meirihluta á þingi? [nákvæmur fjöldi viðmiðunar er ekki aðalatriðið]
 4. Stefnir þú að því að láta leggja fram lagafrumvörp á Alþingi?
 5. Trúir þú að kona hafi fætt einstakling án líffræðilegs föðurs (meyfæðing) fyrir um tvö þúsund árum og að sá hinn sami hafi risið upp frá dauðum? [mér er sama um óljósar trúarskoðanir og mér er sama hvort þú tilheyrir trúfélagi, en þetta er mikilvægt]
 6. Geta trúarskoðanir réttlætt mannréttindabrot og/eða lögbrot að þínu viti?
 7. Dæmir þú heilu hópana – td. múslima, kristna og/eða gyðinga – eftir aðgerðum hlutfallslega fárra öfgamanna úr þeirra hópi? [kannski bara suma hópa?]

Ég læt þetta nægja vegna þess að mér finnast önnur atriði ekki skipta máli í þessu samhengi, jafnvel ekki atriði sem ég er mögulega hjartanlega sammála og finnast mikilvæg – en eiga einfaldlega ekki erindi á verksvið forseta.

Athugasemdir
 1. Einar Steingrímsson skrifar:

  Ég vona að þú sendir frambjóðendum þessar spurningar, og birtir svörin sem þú færð.

 2. (bíddu, ertu að gera í skyn að þeir lesi ekki bloggið mitt reglulega?) – en jú, sendi þetta í kvöld..

  • Einar Steingrímsson skrifar:

   Ég er alveg sannfærður um að þeir byrji allir daginn, og endi, á því að tékka á blogginu þínu. En held að þeir séu sumir það feimnir við þig að þeir myndu ekki svara þessu nema fá formlega beiðni frá þér. 😛

   • Reyndar komst ég ekki í þetta í gær.. nennti hreinlega ekki að leita að öllum síðunum loksins þegar ég var búinn að vinna – en svo er líka forvitnilegt að sjá hverjir fylgjast með.. þannig að ég ætla aðeins að doka við.

 3. Hörður Þormar skrifar:

  Mig langar til að spyrja greinarhöfund um það, hvort hann trúi því að hann sjálfur sé orðinn til úr engu.

  • Égg verð að játa að ég skil ekki hvað þessi spurning kemur færslunni við.. ég er einfaldlega að óska eftir svörum þeirra sem bjóða sig fram til forseta við ákveðnum spurningum, ef þeir skyldu vilja mitt atkvæði… Ég hef hvorki tíma til, né áhuga á, að að fara út í alls óskyldar vangaveltur, hvorki við frambjóðendur né þá sem ekki eru í framboði.

   • Hörður Þormar skrifar:

    Ég viðurkenni að svar við þessari spurningu er býsna langsótt, en ég býst að við séum sammála um að bæði þú og ég séum hluti af alheiminum.
    Því hefði mátt spyrja hvort þú trúir því að alheimurinn sé orðinn til úr engu.
    Ef svo er, er þá meyfæðingin eitthvað ótrúlegri?

    • Tilgátur vísindanna á upphafi heimsins eru þær skýringar sem ég hallast að en skal endurskoða um leið og nýjar og betri upplýsingar / kenningar koma fram. Hinar ýmsu guðakenningar hjálpa ekkert til við þetta, því þeir sem vilja meina að einhverjar undarlegar verur hafi staðið því að skapa heiminn geta (mér vitanlega) engu svarað um úr hverju guðirnir hafa orðið til og þurfa þar af leiðandi að játa að þeir hafa engar skýringar á upphafi heimsins og geta þess vegna alveg eins samþykkt að heimurinn hafi orðið til úr engu – og trúðu mér, ég hef lesið megnið af þvælunni sem hinir ýmsu spekingar nota til að skauta yfir þessa rökleysu.

     Meyfæðingin er algjörlega galin skýring, líka frá þeim sem trúa að einhver yfirnáttúruleg vera hafi skapað náttúrulögmálin.

     En þetta eru mínar spurningar til forsetaframbjóðenda, ekki vettvangur fyrir almennt spjall.

     Látum þessum anga lokið hér með, þetta er algjörlega utan við efnið.

 4. Hörður Þormar skrifar:

  Ég skil ekki hvers vegna það ætti að vera lykilspurning til forsetaefnis, hvort hann trúi á meyfæðinguna eða ekki. Það kemur hvorki störfum né valdsviði forseta Íslands á nokkurn hátt við.

  Mig grunar hins vegar að þessi spurning sé lögð fram í þvi skyni að reyna að draga dár að kristinni trú. Ef þessari spurningu væri svarað játandi þá hlyti þetta forsetaefni, vægast sagt, að vera mjög barnalegt.

  Greinarhöfundur virðist vera dyggur áhangandi trúarbragða guðleysis sem mikið hefur borið á síðustu árin. Einn helsti postuli þessara trúarbragða er líffræðiprófessorinn Richard Dawkins sem var boðið hingað til lands fyrir nokkrum árum.
  Richard Dawkins hefur margoft haldið því fram að kristin trú sé mjög barnaleg en ekki getað fært fram fullkomin rök fyrir því.
  John Lennox, stærðfræðiprófessor í Oxford, hefur verið einn helsti andmælandi Dawkins og hafa þeir átt skemmtilegar rökræður saman. Hefur Lennox haldið því fram, kinnroðalaust, að hann trúi bæði á meyfæðinguna og að Jesús hafi breytt vatni í vín, hefur hann fært fram rök fyrir þessari trú sinni.

  Þó að einhverjum muni þykja John Lennox barnalegur þá hefði ég treyst honum fullkomlega til að vera forseti Íslands, hefði það verið í boði. Hann hefur bæði vitsmuni og hæfileika til þess.

  • Þú þarft ekkert að skilja hvers vegna mér finnst þetta vera lykilspurning, þessu er beint til forsetaframbjóðenda, þeir svara ef þeir hafa áhuga, svörin eru svo eitthvað sem ég nota til að ákveða mig, þú getur haft þínar forsendur, jafnvel sent þínar eigin spurningar.

   Grunur þinn um hvers vegna ég legg spurninguna fram er ekki réttur.

   En þessum undirþræði er lokið enda málinu fullkomlega óviðkomandi.