Að ákveða hvern ég kýs sem forseta

Posted: maí 14, 2016 in Umræða

Ég fékk einhvern veginn nóg af komandi forsetakosningum þegar ÓRG hætti einu sinni enn við að bjóða sig fram…og reyndi að sía burt allt sem sneri að þessum kosningum. Gott og vel, það tókst frekar illa, en ég reyndi.

En ég er ekki búinn að ákveða hvern ég kýs til forseta og ætla að gera eins seint og ég mögulega get. Ég ætla að taka mér tíma til að vega og meta þá sem eru í framboði, hugsa málið og skoða hvað þeir hafa fram að færa – og ekki.

Ég vona að það komi ekki til þess að mér finnst ég þurfa að kjósa „taktískt“.

En svona, í ljósi þess að það dynja á mér skilaboð á vefsíðum, bloggfærslur, Facebook, Twitter og víðar til stuðnings hinum og þessum frambjóðendum – þá eru kannski smá leiðbeiningar til þeirra sem vilja fá mig til að kjósa „sinn“ frambjóðanda.

Ekki veit ég hvort aðrir væntanlegir kjósendur hugsa á sömu nótum og ég – og er varla er það þess virði að miða kosningabaráttuna við einn kjósanda.

Ég var mjög sáttur við Kristján Eldjárn sem forseta og myndi gjarnan vilja forseta sem nálgast embættið á svipuðum forsendum, en það er kannski ekki skilyrði.

En, samt, svona smá hugmyndir fyrir þá sem vilja

  • ég hef frekar lítinn áhuga á því hverju frambjóðandi myndi beita sér fyrir ef hann væri að bjóða sig fram til þings og það að senda mér upplýsingar um einhver baráttumál sem forseti hefur ekkert um að segja er kannski fráhrindandi ef eitthvað er
  • á hinn bóginn get ég alveg haft áhuga á því hvaða málefnum forseti myndi veita „móralskan“ stuðning, svo framarlega sem hann heldur ekki að hann sé að fara að standa í framkvæmdum og/eða lagsetningu [jú, ég veit að tæknilega getur forseti látið leggja fram frumvarp, amk. skv. núverandi stjórnarskrá, en þetta er að mínu viti ekki vettvangurinn]
  • ég hef áhuga á að vita hvernig forseti nálgast neitunarvald það sem er í gömlu stjórnarskránni og hvaða viðmiðun hann ætlar að setja sér við að beita því þar til (vonandi) betri stjórnarskrá tekur við
  • ég vil gjarnan vita hvort forseta myndi beita sér sérstaklega í ákveðnum málum út frá sinni skoðun, þeas. hvort hans skoðun hefði áhrif á hvort hann vísar málum til þjóðarinnar eða ekki
  • ég vil gjarnan sjá hvernig forseti hyggst miðla upplýsingum um hvað hann er að gera
  • mér er slétt sama um hvort frambjóðandi er karl eða kona
  • ég kann ágætlega að meta fólk sem getur skipt um skoðun þegar nýjar og betri upplýsingar og/eða rök/ábendingar koma fram – ef hægt er að benda mér á slíkt þá telur það nokkuð.. það er hins vegar mínus ef frambjóðandi fæst ekki með nokkru móti til að skoða önnur sjónarmið og lítur á það sem veikleika að hlusta á gagnrýni
  • þá er kostur ef frambjóðandi er trúlaus, að minnsta kosti utan trúfélaga og í öllu falli hafni yfirnáttúrulegum forsendum trúarinnar – ekki svo að skilja að trúarskoðanir forseta skipti mig beinlínis máli, en þetta snýst kannski einfaldlega um skynsemi og að geta unnið úr upplýsingum – og frambjóðandi sem hefur staðið í trúboði og/eða ætlar að nálgast verkefnið frá trúarlegum forsendum kemur svo alls ekki til greina hjá mér
  • þá er það óneitanlega til frádráttar ef frambjóðandi hefur verið að bera rökleysur á borð
  • og… frambjóðandi sem hefur tamið sér að gera lítið úr þeim sem eru honum ósammála er ekki að fara að fá mitt atkvæði
  • ég held ekki að það skipti sköpum fyrir ríkissjóð að forseti afsali sér launum þannig að það telur ekki mikið, satt best að segja finnst mér hálf hallærislegt að vera með einhvers konar „útsölu“ á frambjóðanda

[ég á örugglega eftir að bæta við listann og / eða breyta]

Lokað er á athugasemdir.