Ég velti fyrir mér úrslitum forsetakosninganna, sem mér þykja óneitanlega stórundarleg.
Mér skilst að Ólafur Ragnar hafi fyrst og fremst sótt fylgi til yngra fólks og fólks með litla menntun. Nú þekki ég fólk á öllum aldri og með alls kyns menntun.
En…
Af þokkalegum fjöldskyldu og vinahópi – svona eitthvað á annað hundraðið – man ég eftir tveimur sem ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar, annar af einhvers konar skyldu vegna tenginga og hinn var alls ekki ákveðinn, grunar jafnvel að viðkomandi hafi skipt um skoðun.
Auðvitað spurði ég ekki alla, en þetta var mikið rætt og flestir voru eindregnir andstæðingar Ólafs Ragnars. Margir höfðu kosið hann 1996 og margir voru sáttir við forsetatíð hans. En öllum blöskraði kosningabarátta hans og flestir voru búnir að nefna – þegar hann gat ekki ákveðið sig – að þetta væri nú líklega orðið gott.
Af Facebook vinum, sem eru ríflega sex hundruð, voru örfáir að lýsa stuðningi við Ólaf, ég efast um að þeir hafi náð 10, ekki fleiri en 20.
Umgengst ég svona undarlegt fólk?