Getur guðfræði verið fræðigrein?

Posted: janúar 4, 2015 in Spjall

Ég velti stundum fyrir mér fyrirbærinu „guðfræði“.

Ég geri ekki lítið úr áhrifum trúarbragðanna á sögu heimsins. En þau fræði tilheyra væntanlega fræðigrein sem kallast „saga“.

Og auðvitað eru ýmsar bókmenntir og rit tengd trú og trúarbrögðum. En þau kalla ekki á sérstaka fræðigrein, „bókmenntir“ ættu að ná auðveldlega yfir þetta.

Aðrir hlutar sem gjarnan eru talin með tilheyra svo frekar „heimspeki“ („siðfræði“) og þurfa þess vegna ekki eigin grein.

Hvað er þá eftir? Einhverjar vangaveltur um yfirnáttúrulegar verur sem gætu hafa skapað heiminn, skipta sér af smáatriðum í daglegu lífi fólks og svara bænum (eða ekki), senda okkur manneskjur sem brjóta öll náttúrulögmál og taka við okkur (eða hafna) eftir dauðann.

Ekkert af þessu stenst lágmarkskröfur um rannsóknir eða fræðilega vinnu. Mögulega gæti jú til þess að gera stutt skoðun leitt til þeirrar niðurstöðu að enginn fótur sé fyrir þessum vangaveltum manna um yfirnáttúrulegar verur. Sem aftur leiðir sjálfkrafa til þess að engin ástæða er til að halda úti sérstakri fræðigrein vegna þessa…

Lokað er á athugasemdir.