Posts Tagged ‘Wow’

Kæra Wow

Posted: febrúar 5, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Kæra Wow,

Ég fagnaði komu ykkar á ferðamarkaðinn þegar þið bættust í hópinn. Bæði er ég fylgjandi samkeppni og eins fylgdi ykkur ferskur blær og óvenjuleg nálgun.

Ég verð samt að segja farir (ferðir?) mínar ekki sléttar í framhaldi af flugi með ykkur. Við keyptum okkur (sautján í hóp) flug til Salzburg þann 18. janúar – nánar um málsatvik má sjá hér að bíða, Wow.

Ég kenni ykkur ekki um veðrið eða lendingarskilyrði. Ég get meira að segja alveg haft góðan skilning á að þetta var óvænt og þið voruð kannski illa undirbúin.

En þið mættuð sýna því skilning að viðbrögð ykkar, eða skortur á viðbrögðum, kom sér verulega illa fyrir marga farþega og að tjón þess er nokkurt fyrir marga farþeganna.

Það sem truflar mig þó ekki síður eru síðbúin og innihaldslaus svör við fyrirspurnum eftir að heim kom. Ég hef sent ykkur sextán – já, sextán! – tölvupósta eftir þessa ferð til að leita skýringa. Ég hef margsinnis útskýrt sömu hluti og ég hef ítrekað spurt um hvaða ábyrgð þið teljið ykkur bera á tjóni vegna ykkar mistaka. Ég hef spurt við hverju ég megi búast ef ég skyldi kjósa að fljúga aftur með ykkur og sambærilegar aðstæður skyldu koma upp. Ég þurfti þrisvar að spyrja um sama atriðið áður en ég fékk svar og svo þurfti ég þrisvar sinnum til viðbótar að útskýra þetta sama atriði, sem var þó nokkuð einfalt. Ég fékk satt að segja á tilfinninguna að þið hafið haldið að ég væri að segja ósatt.

Það eykur ekki traust mitt að þið beitið stundum þeirri aðferð að gera mér upp skoðanir og svara svo þessum tilbúnu skoðunum mínum. Þið talið eins og ég kenni ykkur um veðrið, nokkuð sem ég hef hvergi gert. Þið gefið í skyn að ég láti eins og þið hafið gert þetta að gamni ykkar að lenda ekki í Salzburg, ekki veit ég hvernig ykkur dettur það í hug. Og þið látið í veðri vaka að við ætlumst til að þið takið áhættu í fluginu.

Og það bætir ekki úr skák að þið farið rangt með í nokkrum atriðum sem einfalt væri að hafa í lagi.

Ég var virkilega að vonast til að fá önnur og betri viðbrögð. Ég get alveg „lifað af“ að þurfa að kaupa kvöldmat aukalega eitt kvöld. Og glataður tími er auðvitað þegar farinn. En ég var að vonast til að fá viðbrögð þannig að ég hafi geti treyst því að til dæmis upplýsingagjöf verði í lagi ef sambærilegar aðstæður koma upp. Almennt spjall um að þið séuð að skoða málin breytir ekki miklu. Og kannski allra helst var ég að vonast til að fá boðleg viðbrögð við kvörtunum.

Ykkur finnst sem sagt varla taka því að svara tölvupóstum efnislega. Ég gafst upp á tölvupóstsendingunum þegar ég var enn einu sinni beðinn um skýringu og staðfestingu á atriði sem ykkur var í lófa lagið að kanna.

Kannski finnst ykkur heldur ekki taka því að svara svona færslum. Mér finnst samt rétt að gera eina lokatilraun.

PS. ég á engra hagsmuna að gæta hjá öðrum flugvélögum.

Að bíða, Wow

Posted: janúar 19, 2014 in Uncategorized
Efnisorð:

Við vorum á leiðinni til Salzburg í gær…

Þegar nálgaðist Salzburg kom í ljós að ekki var hægt að lenda, að mér skilst vegna mikillar þoku og blindflug kom ekki til greina – án þess að ég skilji nákvæmlega hvers vegna, en hef engar athugasemdir við að ekki sé tekin áhætta ef ekki er hægt að lenda örugglega.

Ekki hvarflar að mér að áfellast ykkur fyrir veðurskilyrði og þaðan af síður dettur mér í hug að fara fram á að þið takið nokkra áhættu þegar öryggi farþega er annars vegar. Þá vil ég hrósa áhöfninni fyrir sína vinnu og góð viðbrögð – það hefði þó mátt vara farþega við hvernig hætt er við aðflug ef ekki tekst.

Í framhaldinu var flogið með okkur til Stuttgart, beðið þar í drykklanga stund á flugvellinum, síðan var reynt að fljúga aftur til Salzburg og reynt tvisvar að lenda og áður en flogið var aftur til Stuttgart. Upplýsingarnar sem við fengum í fluginu voru ekki miklar, helst að það biðu okkar rútur sem myndu flytja okkur til Salzburg.

Á flugvellinum í Stuttgart tók við mikil óvissa, langur biðtími og nákvæmlega engar upplýsingar. Þó höfðuð þið bæði símanúmer og tölvupóstfang. Það voru nokkur börn í hópnum og óvissan kom sér illa. Þetta virtist gilda um alla farþega, við spurðum nokkuð marga þeirra sem biðu með okkur á flugvellinum en enginn vissi neitt. Eftir talsverða bið var okkur fylgt á hótel við flugvöllinn og sagt að við fengjum gistingu og morgunmat en þyrftum að sjá sjálf um kvöldmat. Ekki fengust öruggar upplýsingar um framhald aðrar en óljós boð komu um að mæta daginn eftir á flugvöllinn ýmist klukkan hálf tíu eða tíu.

Við mættum á flugvöllinn morguninn eftir og okkur var fyrst sagt að flogið yrði klukkan ellefu. En þegar innritun var að ljúka komu boð frá þeim sem sáu um innritun þess efnis að fluginu myndi seinka, sennilega til þrjú / fjögur en allt væri óvíst.

Enn hafði enginn frá Wow haft samband við okkur.

Einhver farþeganna þekkti, að mér skilst, einhvern heima sem þekkti einhvern hjá Wow og gat grafið upp þær upplýsingar að lendingarbúnaður hefði bilað í vélinni og að viðgerð stæði yfir. Við kusum að bíða á flugvellinum, aðrir gáfust upp og tóku rútu á eigin vegum eða á vegum viðkomandi ferðaskrifstofu. Við náðum svo til Salzburg um hálf fimm, ríflega sólarhring eftir áætlaðan komutíma.

En það mætti vera í fyrsta forgangi að miðla upplýsingum. Bara „Við erum að vinna í málinu, nánari fréttir og upplýsingar fást …“ myndi muna miklu, sérstaklega ef raun upplýsingar eru aðgengilegar.

Flugfélag sem sendir mér auglýsingar og margarusl pósta í mánuði hlýtur að ráða við að senda mér mikilvægar upplýsingar um ferðina þar sem ég er strandaður á þeirra vegum.

PS. Lýsing uppfærð eftir fyrstu færslu