Kæra Wow

Posted: febrúar 5, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Kæra Wow,

Ég fagnaði komu ykkar á ferðamarkaðinn þegar þið bættust í hópinn. Bæði er ég fylgjandi samkeppni og eins fylgdi ykkur ferskur blær og óvenjuleg nálgun.

Ég verð samt að segja farir (ferðir?) mínar ekki sléttar í framhaldi af flugi með ykkur. Við keyptum okkur (sautján í hóp) flug til Salzburg þann 18. janúar – nánar um málsatvik má sjá hér að bíða, Wow.

Ég kenni ykkur ekki um veðrið eða lendingarskilyrði. Ég get meira að segja alveg haft góðan skilning á að þetta var óvænt og þið voruð kannski illa undirbúin.

En þið mættuð sýna því skilning að viðbrögð ykkar, eða skortur á viðbrögðum, kom sér verulega illa fyrir marga farþega og að tjón þess er nokkurt fyrir marga farþeganna.

Það sem truflar mig þó ekki síður eru síðbúin og innihaldslaus svör við fyrirspurnum eftir að heim kom. Ég hef sent ykkur sextán – já, sextán! – tölvupósta eftir þessa ferð til að leita skýringa. Ég hef margsinnis útskýrt sömu hluti og ég hef ítrekað spurt um hvaða ábyrgð þið teljið ykkur bera á tjóni vegna ykkar mistaka. Ég hef spurt við hverju ég megi búast ef ég skyldi kjósa að fljúga aftur með ykkur og sambærilegar aðstæður skyldu koma upp. Ég þurfti þrisvar að spyrja um sama atriðið áður en ég fékk svar og svo þurfti ég þrisvar sinnum til viðbótar að útskýra þetta sama atriði, sem var þó nokkuð einfalt. Ég fékk satt að segja á tilfinninguna að þið hafið haldið að ég væri að segja ósatt.

Það eykur ekki traust mitt að þið beitið stundum þeirri aðferð að gera mér upp skoðanir og svara svo þessum tilbúnu skoðunum mínum. Þið talið eins og ég kenni ykkur um veðrið, nokkuð sem ég hef hvergi gert. Þið gefið í skyn að ég láti eins og þið hafið gert þetta að gamni ykkar að lenda ekki í Salzburg, ekki veit ég hvernig ykkur dettur það í hug. Og þið látið í veðri vaka að við ætlumst til að þið takið áhættu í fluginu.

Og það bætir ekki úr skák að þið farið rangt með í nokkrum atriðum sem einfalt væri að hafa í lagi.

Ég var virkilega að vonast til að fá önnur og betri viðbrögð. Ég get alveg „lifað af“ að þurfa að kaupa kvöldmat aukalega eitt kvöld. Og glataður tími er auðvitað þegar farinn. En ég var að vonast til að fá viðbrögð þannig að ég hafi geti treyst því að til dæmis upplýsingagjöf verði í lagi ef sambærilegar aðstæður koma upp. Almennt spjall um að þið séuð að skoða málin breytir ekki miklu. Og kannski allra helst var ég að vonast til að fá boðleg viðbrögð við kvörtunum.

Ykkur finnst sem sagt varla taka því að svara tölvupóstum efnislega. Ég gafst upp á tölvupóstsendingunum þegar ég var enn einu sinni beðinn um skýringu og staðfestingu á atriði sem ykkur var í lófa lagið að kanna.

Kannski finnst ykkur heldur ekki taka því að svara svona færslum. Mér finnst samt rétt að gera eina lokatilraun.

PS. ég á engra hagsmuna að gæta hjá öðrum flugvélögum.

Athugasemdir
  1. Kristján skrifar:

    Við hverju bjóstu frá fólki sem rekur banka sem rak viðskiptavinina í burtu vegna þess að þeir voru ekki nógu ríkir,eitthvað sem segir mér að þetta sé alltsaman dauðadæmt með ævintýramann um borð…!

    • Ég er alltaf jákvæður og bjartsýnn, man reyndar ekki eftir þessu bankadæmi.. en, nei, ég vona nú að þetta séu ekki merki þess að félagið sé dauðadæmt. En ég fæ engin svör og versla annars staðar í framtíðinni.