Sarpur fyrir október, 2012

Ég hef talað lengi fyrir því að aðskilja ríki og kirkju. Einfaldlega vegna þess að skoðanir fólks eiga ekkert erindi í ríkisrekstur.

Mér er ekkert illa við kirkjuna, ég þekki mikið af góðu fólki sem þar starfar, gerir það heiðarlega og eftir bestu samvisku. Hún er bara ekki fyrir mig. Og það á ekki að reka hana með fé úr sameiginlegum sjóðum.

Ég neita því ekki að ýmis ummæli fyrrverandi biskups lögðust oft illa í mig. Hrein og klár ósannindi í bland við grímulausa fyrirlitningu á lífsskoðunum annarra gera það að verkum að þar fannst mér einn versti forystumaður kirkjunnar.

Ég dæmi ekki alla kirkjunnar þjóna eða meðlimi út frá ummælum biskups. Og ég batt talsverðar vonir við nýjan biskup. Í fyrstu kom Agnes vel fyrir og ég hef svo sem ekki gefið upp alla von um betri samvinnu.

En það hefur aðeins slegið á þær vonir við að fylgjast með umræðunni um þjóðkirkju ákvæði í stjórnarskrá. Fyrir rúmri viku sagði biskupinn ákvðið í Silfri Egils að þjóðkirkjan ætlaði ekki í kosningabaráttu vegna málsins.

Á mánudag birtist auglýsing á „mbl.is“. Og rétt áðan heyrði ég auglýsingu fyrir tíu-fréttir á Rás2 hjá RÚV.

Upplýsingavefur kirkjunnar leyfir ekki önnur sjónarmiða en skoðanir kirkjunnar.

Þá hélt biskup því ranglega fram að ef breyta ætti kirkjuskipan í stjórnarskrá þá þyrfti að fara fram önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Þetta er rangt, þetta þarf aðeins ef breyta á kirkjuskipan með lögum án breytingar á stjórnarskrá, ekki ef breyta á stjórnarskránni sjálfri.

Biskup hélt því líka ranglega fram að Hæstaréttardómur væri fyrir því að þjóðkirkju fyrirkomulagið væri brot á mannréttindum.

Og biskup hélt því líka ranglega fram að úrskurðað hefði verið að þjóðkirkja stangaðist ekki á við mannréttindasáttmála Evrópu.

Skrýtnar heimasætur

Posted: október 16, 2012 in Umræða
Efnisorð:, ,

Ég játa að mér finnst það hálf furðuleg ákvörðun að ætla að sitja heima næsta laugardag þegar kosið verður um tillögur stjórnlagaráðs.

Þetta er ekki flókið mál sem verið er að kjósa um. Það er hægt að kynna sér galla núverandi stjórnarskrár á nokkrum mínútum og það þarf ekki mikið lengri tíma til að kynna sér tillögur stjórnlagaráðs. Fimmtán til tuttugu mínútur ættu að nægja til að geta tekið afstöðu og kannski einn til tveir tímar til að kynna sér málið þokkalega vel.

Þeir sem eru ósáttir við ferlið eða kosningarnar eða spurningarnar geta komið því á framfæri með því að mæta og skila auðu.

Þeir sem eru ósáttir við tillögur stjórnlagaráðs geta komið því á framfæri með því að mæsta á kjörstað og segja „Nei“ við fyrstu spurningunni, að minnsta kosti.

Þeir sem eru ósáttir við gömlu stjórnarskrána og finnast tillögur stjórnlagaráðs til mikilla bóta hafa svo auðvitað þann kost að segja „Já“ á laugardag við tillögum stjórnlagaráðs – og vonandi „Nei“ við þjóðkirkju.

En að sitja heima er einhvers konar rænuleysi og sofandaháttur. Ef kjörsóknin verður minni en í þingkosningum eða sveitarstjórnarkosningum þá er fjöldi fólks að sleppa því að taka afstöðu í svona mikilvægu máli sem aftur tekur afstöðu í almennum kosningum.

Valkostirnir í almennum kosningum eru miklu fjölbreyttari og það er miklu tímafrekar að kynna sér valkosti þar og taka málefnalega afstöðu en í þessu, tiltölulega, einfalda máli.

Að nenna ekki að taka afstöðu í stjórnarskrármálinu en nenna að eyða tíma í almennar kosningar er eiginlega fráleit afstaða. Stjórnarskráin skiptir miklu meira máli og „trompar“ almennar kosningar. Kosningar um stjórnarskrána er svona á 70 ára fresta á meðan kosið er nánast annað hvert ár til þings eða sveitarstjórnar.

Svo eru hinir, sem kannski kjósa í almennu kosningunum án þess að kynna sér hvað er í boði. Getur það verið?

 

Ég var frummælandi á fundi Stjórnarskrárfélagsins um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá síðasta miðvikudag. Talsmenn kirkjunnar töluðu nokkuð oft um að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði úrskurðað að þjóðkirkjuákvæðið væri ekki brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. Þegar þau voru innt frekari skýringa var lítið um svör og má jafnvel segja að þau hafi farið undan í flæmingi. Þannig að ég fór að kanna málið. Í stuttu máli þá fann ég lítið og setti inn blogg færslu þar sem ég óskaði skýringa. Engin komu svörin, þrátt fyrir að ég benti fundarfélögum mínum á færsluna, fyrr en ég auglýsti eftir þessu í Silfri Egils í gær. Þá kom tölvupóstur sem benti á mál þessu til stuðnings.

Bent var á mál Darby gegn Svíþjóð (skýrsla Mannréttindanefndar Evrópu nr. 11581/85).

Fyrir það fyrsta segir í úrskurðinum í þessu máli að 9. grein Mannréttindasáttmála Evrópu (um samvisku og trúarbrögð) hafi verið brotin:

The Commission concludes, by 10 votes to 3, that there has been a violation of Article 9 (Art. 9) of the Convention

En skattgreiðslurnar sem slíkar eru ekki taldar brot í Svíþjóð. Forsendur fyrir þeirri niðurstöðu segja hins vegar skýrt að fyrirkomulagið hér á Íslandi er brot á Mannréttindasáttmála Evrópu.

The obligation (to pay church contributions) can be avoided if they choose to leave the church, a possibility which the State legislation has expressly provided for. By making available this possibility, the State has introduced sufficient safeguards to ensure the individual’s freedom of religion.“

Sænska ríkið vinnur þetta mál sem sagt vegna þess að í Svíþjóð er mögulegt fyrir þá sem standa utan trúfélaga að lækka skatta sína sem nemur gjaldi til trúfélaga. Stefnandi hafði ekki nýtt sér þetta vegna annarrar skráningar („resident“).

Á Íslandi er fyrirkomulagið þannig að ég greiði nákvæmlega sömu krónutölu í skatt hvort sem ég er í trúfélagi eða ekki – og nákvæmlega sömu krónutölu og maðurinn-í-næsta-húsi sem er í þjóðkirkjunni og hefur forsendur (tekjur, eignir…).

Gott og vel, ég er ekki lögfræðingur. En ég er læs. Og ég held því fram að fyrirkomulagið hér á Íslandi sé brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. Og mér sýnist ég hafa ansi sterk rök.

Ég tók þátt í ágætum fundi stjórnarskrárfélagsins í Iðnó í gær um kosningu á því ákvæði hvort þjóðkirkja ætti að vera í stjórnarskrá.

Fundurinn var fínn og umræður áhugaverðar, fór vel fram og umræður (að mestu) málefnalegar.

Tvennt sló mig í málflutningi talsmanna kirkjunnar. Tökum annað þeirra fyrir hér.

Kirkjan hefur staglast á því að Hæstiréttur Íslands og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi úrskurðað að fyrirkomulag um þjóðkirkju stangist ekki á við mannréttindi.

Nú er Hæstiréttur Íslands auðvitað ekki „merkilegur pappír“ þegar kemur að mannréttindum og málið þar fyrir utan sérhæft. Það snerist aðeins um hvort réttlætanlega væri að greiða einu trúfélagi umfram önnur trúfélög – og bryti ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinna varðandi réttarstöðu trúfélaga. Hæstiréttur tók enga afstöðu til þess hvort þjóðkirkja bryti gegn þeim sem standa utan trúféflaga – enda ekki til umfjöllunar. Og Hæstiréttur tók heldur ekki afstöðu til annarra atriða en fjárhagslegra, enda heldur ekki til umfjöllunar. Og Mannréttindadómstóll Evrópu tók málið til umfjöllunar.

Hitt er að gjarnan er vísað til úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu að þjóðkirkja stangist ekki á við mannréttindi. Þetta kemur svo víða fyrir í umræðunni. En það fylgja aldrei neinar tilvísanir. Hvaða úrskurðar eruð verið að vísa til? Það sem ég hef séð – og hef ég nú lesið nokkuð – er engan veginn skýrt eða afgerandi. Nánar um það síðar ef ég fæ engin svör.

Þannig að, ég spyr, hvaða úrskurður er þetta?

Svo var fróðlegur rökstuðningur kirkjunnar talsmanna vegna þessara atriða. Við spurðum ítrekað hver væru rökin fyrir niðurstöðum Hæstaréttar og Mannréttindadómstólsins. Svarið var, jú rétturinn komst að þessari niðurstöðu!

Þannig eru rökin fyrir niðurstöðunni þau að rétturinn hafi komist að þessari niðurstöðu. Er þetta rökfræðin sem kennd er í guðfræði?

Það er fyrir neðan allar hellur að hlusta dag eftir dag á einhliða áróður ríkiskirkjunnar í RÚV.

Gærdagurinn hófst á útvarpsmessu og síðan voru gagnrýnislaust fluttar „fréttir“ af skoðun prestins.

Í Silfri Egils fékk biskupinn drottningarviðtal í gær.

Og nú í kvöldfréttum, eða Speglinum, fékk prestur að skýra mál kirkjunnar. Fréttamaður spurði nokkurra ágætra spurninga en hafði ekki rænu á að leiðrétta rangfærslur prestsins. Bábiljan um arð af ríkisjörðum fékk til að mynda að hljóma athugasemdalaust.

Áróðursvél kirkjunnar

Posted: október 7, 2012 in Umræða

Það er orðið hvimleitt að sitja undir síbylju áróðri kirkjunnar á öllum vígstöðvum þessa dagana.

Rangfærslur og útúrsnúningar dynja á okkur í öllum fjölmiðlum. Ekki nóg með að prestar fái sinn tíma gagnrýnislaust í útvarpsmessum, sem þeir nota grímulaust til áróðurs í einhvers konar kjarabaráttu, heldur eru þessir pistlar teknir upp gagnrýnislaust af sofandi fréttamönnum sem hafa ekki rænu, getu eða nennu til að leita annarra sjónarmiða.

Í Silfri Egils er bara rætt við biskup, ekki virðist hvarfla að Agli að aðrir hafi skoðun.

Í fréttablaðinu birtast nánast daglega greinar eftir presta sem virðast vera að fara á taugum yfir þjóðaratkvæðagreiðslunni um drög að stjórnarskrá. Aðsendar greinar þar sem aðrar skoðanir koma fram fást ekki birtar.

En það er kannski ekki nema von að kirkjan þurfi sína milljarða úr sameiginlegum sjóðum – svona áróðursvél er ekki ókeypis.

Kynningarbæklingurinn vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána þykir víst vandaður og vel unnin.

Það kemur því aðeins flatt upp á mig að sjá textann um þjóðkirkjuákvæðið. Það er í meira lagi vilhallt kirkjunni, hreinar rangfærslur, undarlegar túlkanir og aðeins kynnt til sögunnar sem álitamál það sem þjóðkirkjan hefur nefnt.

Tökum dæmi:

  • Í upphafi segir „Ekki er spurt um aðskilnað ríkis og kirkjur“. Þetta er auðvitað í besta falli umdeilanlegt og að mínu mati kolrangt. Kirkjuskipan byggir á þessu ákvæði núverandi stjórnarskrár og með því að taka það út er klárlega verið að ákveða breytta skipan kirkjumála.
  • Þá segir að litið hafi verið svo á að kirkjan hafi ákveðnar skyldur gagnvart öllum almenningi. Ekki kemur fram á hverju þessi fullyrðing byggir eða hvaða skyldur þetta eru. Þá þarf ekki að leita langt til að sjá að kirkjan telur sig ekki hafa skyldur gagnvart almenningi og úthýsir reglulega þeim sem aðhyllast aðrar lífsskoðanir en kristni.
  • Þarna segir að þjóðkirkjufyrirkomulag sé víða við lýði í Evrópu. Þetta stenst ekki skoðun, á http://en.wikipedia.org/wiki/State_religion má glöggt sjá að þetta fyrirkomulag hefur víðast hvar verið lagt af í Evrópu.
  • Þá kemur fram að þetta fyrirkomulag teljist samkvæmt dómi Hæstaréttar samræmast trúfrelsis og jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar. Sem betur fer (eða því miður) er Hæstiréttur marklaus viðmiðun þegar kemur að mannréttindamálum eins og ítrekaðar ákúrur Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesta. Hvers vegna nefnir bæklingurinn ekki þá skoðun að þetta brjóti klárlega í bága við aðrar reglur stjórnarskrárinnar?
  • Þá er nefnd til sögunnar sú skoðun að ekki megi breyta kirkjuskipan nema í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er rangt og á ekki heima einu sinni undir „aðrir hafa látið í ljós“. Ákvæðið er kýrskýrt og á einungis við ef kirkjuskipan er breytt með lögum án þess að breyta stjórnarskrá.
  • Hvers vegna eru eingönu álitamál á nótunum „aðrir hafa látið í ljós“ talin upp til að koma sjónarmiðum kirkjunnar á framfæri?