Sarpur fyrir október, 2012

Ég tók þátt í ágætum fundi stjórnarskrárfélagsins í Iðnó í gær um kosningu á því ákvæði hvort þjóðkirkja ætti að vera í stjórnarskrá.

Fundurinn var fínn og umræður áhugaverðar, fór vel fram og umræður (að mestu) málefnalegar.

Tvennt sló mig í málflutningi talsmanna kirkjunnar. Tökum annað þeirra fyrir hér.

Kirkjan hefur staglast á því að Hæstiréttur Íslands og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi úrskurðað að fyrirkomulag um þjóðkirkju stangist ekki á við mannréttindi.

Nú er Hæstiréttur Íslands auðvitað ekki „merkilegur pappír“ þegar kemur að mannréttindum og málið þar fyrir utan sérhæft. Það snerist aðeins um hvort réttlætanlega væri að greiða einu trúfélagi umfram önnur trúfélög – og bryti ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinna varðandi réttarstöðu trúfélaga. Hæstiréttur tók enga afstöðu til þess hvort þjóðkirkja bryti gegn þeim sem standa utan trúféflaga – enda ekki til umfjöllunar. Og Hæstiréttur tók heldur ekki afstöðu til annarra atriða en fjárhagslegra, enda heldur ekki til umfjöllunar. Og Mannréttindadómstóll Evrópu tók málið til umfjöllunar.

Hitt er að gjarnan er vísað til úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu að þjóðkirkja stangist ekki á við mannréttindi. Þetta kemur svo víða fyrir í umræðunni. En það fylgja aldrei neinar tilvísanir. Hvaða úrskurðar eruð verið að vísa til? Það sem ég hef séð – og hef ég nú lesið nokkuð – er engan veginn skýrt eða afgerandi. Nánar um það síðar ef ég fæ engin svör.

Þannig að, ég spyr, hvaða úrskurður er þetta?

Svo var fróðlegur rökstuðningur kirkjunnar talsmanna vegna þessara atriða. Við spurðum ítrekað hver væru rökin fyrir niðurstöðum Hæstaréttar og Mannréttindadómstólsins. Svarið var, jú rétturinn komst að þessari niðurstöðu!

Þannig eru rökin fyrir niðurstöðunni þau að rétturinn hafi komist að þessari niðurstöðu. Er þetta rökfræðin sem kennd er í guðfræði?

Það er fyrir neðan allar hellur að hlusta dag eftir dag á einhliða áróður ríkiskirkjunnar í RÚV.

Gærdagurinn hófst á útvarpsmessu og síðan voru gagnrýnislaust fluttar „fréttir“ af skoðun prestins.

Í Silfri Egils fékk biskupinn drottningarviðtal í gær.

Og nú í kvöldfréttum, eða Speglinum, fékk prestur að skýra mál kirkjunnar. Fréttamaður spurði nokkurra ágætra spurninga en hafði ekki rænu á að leiðrétta rangfærslur prestsins. Bábiljan um arð af ríkisjörðum fékk til að mynda að hljóma athugasemdalaust.

Áróðursvél kirkjunnar

Posted: október 7, 2012 in Umræða

Það er orðið hvimleitt að sitja undir síbylju áróðri kirkjunnar á öllum vígstöðvum þessa dagana.

Rangfærslur og útúrsnúningar dynja á okkur í öllum fjölmiðlum. Ekki nóg með að prestar fái sinn tíma gagnrýnislaust í útvarpsmessum, sem þeir nota grímulaust til áróðurs í einhvers konar kjarabaráttu, heldur eru þessir pistlar teknir upp gagnrýnislaust af sofandi fréttamönnum sem hafa ekki rænu, getu eða nennu til að leita annarra sjónarmiða.

Í Silfri Egils er bara rætt við biskup, ekki virðist hvarfla að Agli að aðrir hafi skoðun.

Í fréttablaðinu birtast nánast daglega greinar eftir presta sem virðast vera að fara á taugum yfir þjóðaratkvæðagreiðslunni um drög að stjórnarskrá. Aðsendar greinar þar sem aðrar skoðanir koma fram fást ekki birtar.

En það er kannski ekki nema von að kirkjan þurfi sína milljarða úr sameiginlegum sjóðum – svona áróðursvél er ekki ókeypis.

Kynningarbæklingurinn vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána þykir víst vandaður og vel unnin.

Það kemur því aðeins flatt upp á mig að sjá textann um þjóðkirkjuákvæðið. Það er í meira lagi vilhallt kirkjunni, hreinar rangfærslur, undarlegar túlkanir og aðeins kynnt til sögunnar sem álitamál það sem þjóðkirkjan hefur nefnt.

Tökum dæmi:

  • Í upphafi segir „Ekki er spurt um aðskilnað ríkis og kirkjur“. Þetta er auðvitað í besta falli umdeilanlegt og að mínu mati kolrangt. Kirkjuskipan byggir á þessu ákvæði núverandi stjórnarskrár og með því að taka það út er klárlega verið að ákveða breytta skipan kirkjumála.
  • Þá segir að litið hafi verið svo á að kirkjan hafi ákveðnar skyldur gagnvart öllum almenningi. Ekki kemur fram á hverju þessi fullyrðing byggir eða hvaða skyldur þetta eru. Þá þarf ekki að leita langt til að sjá að kirkjan telur sig ekki hafa skyldur gagnvart almenningi og úthýsir reglulega þeim sem aðhyllast aðrar lífsskoðanir en kristni.
  • Þarna segir að þjóðkirkjufyrirkomulag sé víða við lýði í Evrópu. Þetta stenst ekki skoðun, á http://en.wikipedia.org/wiki/State_religion má glöggt sjá að þetta fyrirkomulag hefur víðast hvar verið lagt af í Evrópu.
  • Þá kemur fram að þetta fyrirkomulag teljist samkvæmt dómi Hæstaréttar samræmast trúfrelsis og jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar. Sem betur fer (eða því miður) er Hæstiréttur marklaus viðmiðun þegar kemur að mannréttindamálum eins og ítrekaðar ákúrur Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesta. Hvers vegna nefnir bæklingurinn ekki þá skoðun að þetta brjóti klárlega í bága við aðrar reglur stjórnarskrárinnar?
  • Þá er nefnd til sögunnar sú skoðun að ekki megi breyta kirkjuskipan nema í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er rangt og á ekki heima einu sinni undir „aðrir hafa látið í ljós“. Ákvæðið er kýrskýrt og á einungis við ef kirkjuskipan er breytt með lögum án þess að breyta stjórnarskrá.
  • Hvers vegna eru eingönu álitamál á nótunum „aðrir hafa látið í ljós“ talin upp til að koma sjónarmiðum kirkjunnar á framfæri?