Óvandaður kynningarbæklingur

Posted: október 3, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Kynningarbæklingurinn vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána þykir víst vandaður og vel unnin.

Það kemur því aðeins flatt upp á mig að sjá textann um þjóðkirkjuákvæðið. Það er í meira lagi vilhallt kirkjunni, hreinar rangfærslur, undarlegar túlkanir og aðeins kynnt til sögunnar sem álitamál það sem þjóðkirkjan hefur nefnt.

Tökum dæmi:

  • Í upphafi segir „Ekki er spurt um aðskilnað ríkis og kirkjur“. Þetta er auðvitað í besta falli umdeilanlegt og að mínu mati kolrangt. Kirkjuskipan byggir á þessu ákvæði núverandi stjórnarskrár og með því að taka það út er klárlega verið að ákveða breytta skipan kirkjumála.
  • Þá segir að litið hafi verið svo á að kirkjan hafi ákveðnar skyldur gagnvart öllum almenningi. Ekki kemur fram á hverju þessi fullyrðing byggir eða hvaða skyldur þetta eru. Þá þarf ekki að leita langt til að sjá að kirkjan telur sig ekki hafa skyldur gagnvart almenningi og úthýsir reglulega þeim sem aðhyllast aðrar lífsskoðanir en kristni.
  • Þarna segir að þjóðkirkjufyrirkomulag sé víða við lýði í Evrópu. Þetta stenst ekki skoðun, á http://en.wikipedia.org/wiki/State_religion má glöggt sjá að þetta fyrirkomulag hefur víðast hvar verið lagt af í Evrópu.
  • Þá kemur fram að þetta fyrirkomulag teljist samkvæmt dómi Hæstaréttar samræmast trúfrelsis og jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar. Sem betur fer (eða því miður) er Hæstiréttur marklaus viðmiðun þegar kemur að mannréttindamálum eins og ítrekaðar ákúrur Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesta. Hvers vegna nefnir bæklingurinn ekki þá skoðun að þetta brjóti klárlega í bága við aðrar reglur stjórnarskrárinnar?
  • Þá er nefnd til sögunnar sú skoðun að ekki megi breyta kirkjuskipan nema í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er rangt og á ekki heima einu sinni undir „aðrir hafa látið í ljós“. Ákvæðið er kýrskýrt og á einungis við ef kirkjuskipan er breytt með lögum án þess að breyta stjórnarskrá.
  • Hvers vegna eru eingönu álitamál á nótunum „aðrir hafa látið í ljós“ talin upp til að koma sjónarmiðum kirkjunnar á framfæri?

Lokað er á athugasemdir.