Ég hef lengi talað fyrir því að nota sjónvarpsupptökur til að aðstoða dómara í knattspyrnuleikjum, sbr. td. http://blog.pressan.is/valgardur/2010/06/20/bullid-gegn-notkun-myndavela-a-hm/
Ég fæ alltaf „já, en mistök dómara eru hluti af leiknum“ annars vegar og hins vegar „leikurinn verður að vera eins alls staðar“.
Ef mönnum finnst leikurinn skemmtilegri eftir því sem mistök dómara eru meiri og afdrifaríkari þá er um að gera að hafa elliæra viðvaninga sem komast ekki úr sporunum í þessu hlutverki. Væri leikurinn ekki enn skemmtilegri þannig? Að minnsta kosti hlýtur það að fylgja ef þetta eru rökin.
Hitt er að leikurinn verði að vera eins í þriðja flokki og á EM. Ég hef hvorki séð fjórða, fimmta eða sjötta dómara í þriðja flokks leikjum, dómarar eru ekki með talstöðvar í fimmta flokki (svo ég viti til), notaður er glænýr bolti á stórmótum, öryggisgæsla er varla til staðar, ekki margir boltar, ekki boltastrákar/stelpur til að flýta leik og það er ekki svo langt síðan það var látið liggja á milli hluta hvort aðstoðardómarar væru á leikjum fjórða flokks. Það er nefnilega heilmikill munur á leik í öðrum flokki kvenna og leiki í Meistaradeild Evrópu. Og það gerir enginn athugasemdir við að umgjörð og dómgæsla sé allt önnur – eins og eðlilegt er – fyrir allt annað umhverfi. En þegar kemur að því að hjálpa dómurum við erfiðar ákvarðanir í sífellt hraðari leik þar sem einstaka leikmenn svífast einskis til að villa um fyrir þeim – þá allt í einu dúkka þessar rökleysur upp.
Ef svona mistök eru talinn eðlilegur hluti af leiknum.. þá er ég smeykur um að áhuginn dvíni. Enda man ég ekki til að nokkur önnur íþróttagrein stæri sig af því að slök dómgæsla sé kostur.
Innilega sammála. Það er afar dapurt þegar leikir vinnast á pínlegum dómaramistökum eða hlutum sem dómararnir höfðu ekki tök á að sjá. Vonandi fer þetta viðhorf sem þú nefndir að hverfa þegar gildi marklínutækninnar fer að sanna sig.