Ég hef aðeins verið að hugsa… um íslenska tónlist. Sem ég hef bæði nokkuð mikinn áhuga á – sem og auðvitað, tónlist yfirleitt.
Sennilega þarf ég ekki að taka fram að tónlistarsmekkurinn minn er mjög sérstakur. Ég er nánast alltaf á hvolfi miðað við aðra.
Eitt hefur verið sláandi síðustu árin, hversu mikið úrval af íslenskri tónlist er í boði og hversu vel og fagmannlega þetta er gert.
Það er eiginlega komin ný kynslóð af mjög öflugum „krökkum“ / „unglingum“ / „yngra fólki“ / „ekki svo rosalega gömlum“ í tónlistarheiminum.
Það vantar ekkert upp hversu vel þau eru að sér í tónfræðinni, ólíkum töktum, erfiðum taktskiptum, vel samæfð, flottar raddir og kunna svo sannarlega að fara með þetta.
En mér finnst samt eitthvað vanta.
Oftar en ekki er efnið frekar „gleymanlegt“ og hvorki snertir né hrífur. Ég fæ sjaldnar og sjaldnar þessa tilfinningu, „af hverju datt mér þetta ekki í hug?“ og „rosalega vildi ég að ég hefði samið þetta lag“.
Ef ég má ýkja aðeins, þá er þetta eins og að horfa á vel málaðan vegg í hlutlausum hvítleitum lit. Frekar en málverk.
Ég er ekkert (frekar) að tala um kraftmikið rokk eða ögrandi texta. Bara eitthvað sem hefur „karakter“.
Og, jú, jú, auðvitað eru undantekningar…
Það er mikið af afar ljúfri mjúkri tónlist núna. Popp en ekki rokk. Mér finnst tilbreyting í að hlusta á Magna því að hann er ófeiminn að setja svolítið hráan kraft í túlkunina. Heyrði nýtt lag frá honum í gær sem lofar góðu. Hann er „Muse“ okkar klaklendinga.
Punkturinn var kannski að tónlist getur verið spennandi og haft „karakter“ þó hún sé ljúf / mjúkt popp. Og á hinn bóginn getur kraftmesta rokk verið steingelt og óspennandi, ég sá til dæmis allt of margar þannig hljómsveitir…