Stallman í Silfrinu

Posted: nóvember 12, 2012 in Spjall, Umræða

Ég var að horfa á viðtal við Richard Stallman í Silfri-Egils. Nú þykist ég vita hver maðurinn er og hafi lesið eitthvað eftir hann – en það má svo sem vera að mig sé að misminna hver sagði hvað.

En ég varð óneitanlega fyrir miklu vonbrigðum með Stallman. Hugmyndir hans og fleiri hafa haft sín áhrif, og í mörgum tilfellum til góðs.

En fyrir það fyrsta ruglaði hann saman opnum og frjálsum hugbúnaði, sem þarf ekki að vera sami hluturinn.

Þá talaði hann ítrekað eins og það að ef ég hefði ekki aðgang að virkni hugbúnaðar þá stjórnaði hann mér en ég ekki honum. Klisjukennt tal og ekki boðlegt. Ég hef aldrei upplifað það að þau verkfæri sem ég nota stjórni mér að neinu leyti þó ég borgi fyrir að nota þau.

Annað er kannski nokkur skonar sjálfhverfa, hann hefur áhuga og skoðanir á því hvernig hugbúnaður á að virka – og getur breytt honum að eigin þörfum. Það er einfaldlega fullt af fólki sem er mjög sátt við að fá hugbúnað „úr hillunni“ og nákvæmlega engan áhuga á að setja sig inn í forritun eða hvernig hann virkar.

Þá má ekki gleyma því að þó opinn hugbúnaður sé að mörgu leyti skemmtileg aðferð – og hentar mörgum verkefnum – þá er þetta engan veginn algilt. Kannski kemur þessu hugsun úr stofnana og háskólasamfélaginu þar sem einhver annar borgar launin. En það að skrifa hugbúnað og fá ekkert fyrir sinn snúð verður auðvitað til þess að það er betra að gera eitthvað annað. Enda er ég nokkuð viss um að heimurinn væri talsvert fátækari af hugbúnaði ef aðeins væri notast við frjálsan og/eða opinn hugbúnað.

Þá fór hann að tala um að það mætti ekki afrita listaverk, svona hálfri mínútu eftir að hann var að skammast yfir að fólk mætti ekki dreifa tónlist að eigin vild.

Nú er ég á því að það vanti betri reglur og lög um höfundarrétt, en það er engin lausn að krefjast þess að allt sé frítt til dreifingar.

Athugasemdir
 1. Ruglaði Stallman saman frjálsum og opnum hugbúnaði eða var hann að forðast að flækja hlutina fyrir leikmenn?

  Ég finn oft fyrir því að lokaður hugbúnaður er að stjórna mér og ég finn það sérstaklega þegar kemur að kerfismálum í skólanum þar sem ég vinn. Þar stjórnast uppfærsla á heila tölvukerfinu því að skólinn er háður einu ákveðnu forriti.

  Ég borga reglulega fyrir frjálsan hugbúnað þannig og veit að margir fleiri gera það.

  Ég horfði svo sem ekki aftur á viðtalið eftir að hafa lesið það sem þú skrifar en ég man ekkert eftir því að hann hafi sagt að það mætti ekki afrita listaverk.

 2. Mögulega var hann að einfalda hlutina en hann talaði alltaf um frían hugbúnað og lýsti svo opnum hugbúnaði.

  Það að það megi finna dæmi um að lokaður hugbúnaður takmarki möguleika notanda leyfir ekki svona alhæfingar. Hvað þá að gefa í skyn að opinn geti ekki líka takmarkað og „stýrt“ notendum.

  Það var undir lokin sem hann var að tala um listaverkin, skal játa að ég var orðinn hálf ringlaður á samhengislausu talinu í manninum þegar þarna var komið.

  Það er ekkert að opnum hugbúnaði – og hentar ágætlega í mörgum tilfellum – en svona alhæfingar og svart-hvít mynd hjálpar engum.

 3. Ég man að í lokin var hann að tala um muninn á verkum sem mætti breyta og þeim sem mætti ekki breyta. Tók sem dæmi um verk þar sem menn væru að tjá skoðanir sýnar.

  En ég veit ekki alveg í hvaða tilfellum lokaður hugbúnaður gæti verið betri.

  • Þetta er einfaldlega valkostur – opinn eða ekki – á meðan hvort tveggja er í boði þá sé ég ekki vandamálið, það velur hver það sem honum hentar.

   En þessi framsetning, „annað hvort ræður þú yfir hugbúnaðinum eða hann yfir þér“ stenst enga skoðun. Sett fram til að mála (hugbúnaðar)heiminn.í svart – hvítu og minnir á ómerkilegan sölumann.

   • Þetta er auðvitað sterkt til orða tekið hjá rms, en rétt að vissu leyti. Staðreyndin er að ef hugbúnaður er ekki frjáls getur neytandinn ekki vitað með vissu hvort að hann inniheldur skaðlega hliðarvirkni. (Ég er ekki að alhæfa og segja að svo sé alltaf, maður bara getur ekki vitað það.) Fólk verður að treysta framleiðandanum algerlega og þá gildir einu hvort greitt var fyrir hugbúnaðinn eða ekki. Ef þú treystir fyrirtækinu, eða þér er sama um mögulegar „aukaverkanir“ er þetta að sjálfsögðu ekki vandamál. Mun ólíklegra er að frjáls hugbúnaður sé t.d. að safna upplýsingum í leyfisleysi, því þótt ekki allir notendur kunni að lesa kóða er líklegt að einhverjir geri það og myndu láta í sér heyra ef eitthvað virtist athugavert.

    Varðandi það að hugbúnaður stjórni fólki (sem er tilfellið sé fólk með tölvuheila;-), þá væri kannski nær að segja að framleiðendur stjórni fólki í einhverjum tilfellum. Ef ég gæfi út hugbúnað og bannaði þér að nota hann á ákveðinn hátt eða dreifa honum væri ég að vissu leyti að stjórna þér, eða a.m.k. að takmarka frelsi þitt. Það kann að vera að þér þætti það í góðu lagi, kannski væri forritið mitt svo gott að þú myndir glaður afsala þér ákveðnu frelsi til að fá að nota það, en það breytir því ekki að staðhæfing rms á alveg rétt á sér. Svo verða menn að ákveða það hver fyrir sig hvort þetta er gott eða slæmt:-)

    • Ég verð að fá að vera ósammála. Ég veit ekki hvaða skaðlega hliðarverkanir ættu að skipta máli. Fyrir flesta notendur breytir engu þó hugbúnaðurinn sé opinn, þeir hafa engar forsendur til að skoða eða sjá mögulega hliðarverkarnir. Þetta er kannski einhvers konar sjálfhverfa forritarans, að halda að allir hugsi eins og forritarar og geri sömu kröfur til hugbúnaðar.

     En eins og þú segir, þetta er val, ef ég veit hvaða takmarkarnir hugbúnaðurinn hefur og vel hann samt þá er það mitt val – og enginn að stjórna mér.

     Í langflestur tilfellum er hugbúnaður hvorki þannig að hann stjórni þér eða þú honum, þess vegna fannst mér þessi upphrópun tóm steypa. Eins og að segja ef þú ert ekki að gefa manni á kjaftinn þá hlýtur hann að vera að gefa þér á kjaftinn. Og gleymir alveg þeim möguleika að þið sitjið sáttir yfir kaffibolla og hvorugur er að berja hinn…

 4. Svavar Kjarrval skrifar:

  Valgarður: Sé að í athugasemd þinni notar þú hugtakið frír hugbúnaður en frjáls hugbúnaður þarf ekki endilega að vera ókeypis, enda tekur Stallman það alltaf sérstaklega fram í fyrirlestrum sínum og greinum. Hef ekki séð viðtalið sjálft svo ég læt það vera að gera athugasemdir um annað það sem kom fram.

 5. Ég gleymdi reyndar að nefna talið hans um Amazon Swindle án þess að færa nokkur rök fyrir hvers vegna þetta væri svindl. Ég á Kindle og kaupi þar bækur og er bara nokkuð mikið sáttur. Í hverju felst eitthvert svindl?

  Það eru svona innihaldslausar upphrópanir og stimplar sem fara óendanlega í taugarnar á mér.

  Eiginlega sorglegt að sjá hvernig komið er fyrir honum, amk. ef eitthvað er að marka þetta viðtal.

  • Kristján Friðjónsson skrifar:

   Ég verð að leiðrétta þig Valgarður því þú virðist vera haldinn algengri ranghugmynd. Nefnilega að þú kaupir bækur á Kindle-inn þinn hjá Amazon.

   Það er alls ekki rétt. Þú borgar fyrir rétt til að hlaða bókinni niður á tækið og nota eins lengi og Amazon kærir sig um að þú njótir bókarinnar. Þú átt enga kröfu til þess að það sé eins lengi og þú sért lifandi, Amazon nýtur við eða Kindle-inn endist. Því miður þá er þetta ekki innihaldslaust kít heldur veruleiki sem því miður hefur komið í ljós oftar en einu sinni og á örugglega eftir að sýna sig aftur og oftar.

   Fyrsta dæmið var þegar Amazon fjarlægði bókina 1984 eftir Orwell út af öllum Kindle-um í heiminum. Nýjasta dæmið er nýlegt, þegar norsk kona kveikti á Kindle-num sínum og allt efni á honum var horfið. Sú saga endaði sem betur fer vel á endanum fyrir konuna en hún þurfti að hafa mikið fyrir því að fá aðganginn sinn aftur og aðgang að keyptu efni. Sögurnar eru því miður mikið fleiri um svona atburði.

   Annað sem vert er að skoða þegar talað er um Kindle rafbækurnar sem eru ábyggilega ágætar til síns brúks sem slíkar er hvernig Amazon hefur misnotað aðstöðu sína sem mjög stór aðili á markaðnum til að annars vegar greiða niður kostnað við tækin sjálf til notenda sem óhætt er að fullyrða að eru seld langt undir framleiðslukostnaði og hins vegar að hefta tækin mjög til að birta formöt og þannig binda notendur enn kirfilegar í vef sínum.

   • Aðal atriðið var að hann útskýrði ekki í hverju svindlið væri fólgið, hann var einfaldlega eins og smástrákur að uppnefna.

    Ég veit fullvel hvernig Amazon virkar, mér er einfaldlega nákvæmlega sama, ég fæ bækur til lestrar á góðu verði, miklu meira úrvarl og það án nokkurra tafa. Ég þekki ekki þessi dæmi sem þú nefnir, en það er rétt að þetta kemur kannski ekki í staðinn fyrir bókasafn. En til síns brúks fínt – og óþarfi að kalla svindl – og fráleitt án þess að útskýra.

    • Ég held einmitt að það sé full ástæða til að hlutirnir séu kallaðir sínum réttu nöfnum í þessu samhengi. Svindl er þetta einfaldlega vegna þess að viðskiptavinurinn telur sig vera að kaupa sér vöru, en er ekki. Það að þér sé nákvæmlega sama er einmitt ástæðan fyrir því að full ástæða er að kalla hlutina sínu réttu nöfnum. Slæmar neytendavenjur eiga sér oftar en ekki orsakir í því að upplýsingar liggja ekki fyrir eða þeim er haldið frá fólki neytendum. „Neysla“, ef svo má að orði komast, á hugbúnaði og stafrænu efni almennt er að færast yfir í að vera algjörlega á forsendum stórfyrirtækja og ég held að ein höfuð ástæðan sé tómlæti neytenda, líkt og þú sýnir, oft vegna þess að þeir hafa ekki upplýsingar til að meta stöðu sína í viðskiptunum. „I agree“ lýsir þessu ágætlega.

     En að Stallman rugli saman opnum og frjálsum hugbúnaði… það er fyndin staðhæfing svo ekki sé nú meira sagt.

     • Eins og ég er búinn að svara nokkrum sinnum þá gagnrýndi ég manninn fyrir að tala um svindl án þess að skýra hvers vegna. Þú hefur engar forsendur til að segja að viðskiptavinurinn telji sig vera að kaupa eitthvað sem er ekki, það er alveg kýrskýrt hvernig kyndillinn virkar.

      Að þetta sé eitthvert tómlæti neytenda sem ég sýni er að gera mér upp einhvern sauðshátt og er óþolandi dónaskapur – ég einfaldlega vel þetta vitandi nákvæmlega hvað ég er að gera. Og þarf hvorki þig eða aðra til að hafa vit fyrir mér eða segja mér hvað ég vil.

      Og eins og ég er búinn að svara nokkrum sinnum, það kom mér á óvart að hann talaði svona, því ég þóttist nú vita að hann þekkti vel muninn á þessu.

  • Ég var að gagnrýna hann fyrir að slá þessu fram án þess að skýra hvers vegna.

   Hitt er að þetta er ekkert svindl, þetta er önnur nálgun og hentar mér td. ágætlega. Ég kaupi reyfara og annað léttmeti í gegnum þetta – en myndi síður kaupa bækur sem mig langar að eiga.

   Svo má ekki gleyma atriðum eins og í greininni segir um rétt notanda til að lána bækur. Fyndið. Það er einmitt skýrt tekið fram í flestum bókum að þær megi ekki lána. Og sumar Amazon bækur má einmitt lána. Að ég tali nú ekki um að við hjónin skiptumst einfaldlega á tækjum, það er nefnilegt hægt að lána tækið!

   Það er sjálfsagt að benda á þessar takmarkanir hjá Amazon, en svona upphrópanir og rangfærslur hjálpa engum.

   • Kristján Friðjónsson skrifar:

    Valgarður, aftur. Þú kaupir ekki bækurnar hjá Amazon. Þú borgar fyrir að fá að skoða þær. Þú eignast þær ekki á neinn hátt og ert þar af leiðandi ekki að kaupa þær. Og ef Amazon kýs að fjarlægja bókina þó svo að þú sért ekki búinn að lesa hana þá verður bara að hafa það og þýðir ekkert fyrir þig að kvarta. Þú ert búinn að samþykkja rétt þeirra til þess og þeir munu ekki endurgreiða þér, jafnvel þó þú hafir greitt fyrir örskots stundu. Náir þú ekki muninn á því að kaupa eitthvað og eignast það eða borga fyrir eitthvað og eiga það á hættu að það sé fjarlægt úr hirslum þínum að þér óforspurðum þá er eiginlega ekki hægt að vera að ræða þetta við þig og sennilega ekki neitt sem viðkemur notendarétti á neinn hátt.

    • Ég veit það fullvel – eins og ég hef svarað 2-3 áður [eruð þið ekki til í að lesa svörin frá mér áður en þið hendið inn athugasemdum]. Það er bara allt í lagi og ekkert svindl. Ég tek þá stjarnfræðilega litlu áhættu á að borga fyrir eitthvað sem þær geta mögulega dregið til baka, gegn því hagræði sem þetta er.

     Hitt er að ég gagnrýndi manninn fyrir að tala um svindl í Silfrinu án þess að skýra það nokkuð. Það er ómálefnalegt. Getið þið að minnsta kosti verið sammála mér í því að svona umræða er ekki boðleg.

 6. Stefán Freyr. skrifar:

  Sæll Valgarður.

  Ég má til með að benda á nokkra hluti hjá þér og leiðrétta annað.

  Í fyrsta lagi get ég lofað þér því að Stallman ruglaði ekki saman opnum og frjálsum hugbúnaði. Við erum að tala um manninn sem skilgreindi muninn á þessu tvennu. Hitt er svo annað mál að hann kom honum greinilega ekki nægilega skýrt frá sér í viðtalinu fyrst þér finnst hann hafa ruglað þessu tvennu saman.

  Ég skal vel samþykkja að tal hans um að hugbúnaður stjórni þér eða þú hugbúnaðinum er mjög svarthvítt hjá honum og þessi framkoma hjá honum stuðar fólk oft. Ég er sammála því að það er mjög sjaldan til góðs fyrir umræðuna en engu að síður er sannleikskorn í því sem hann segir eins og t.d. í tilfellinu sem Óli Gneisti bendir á.

  Það sem stuðaði mig þó mest við skrif þín var eftirfarandi setning: „En það að skrifa hugbúnað og fá ekkert fyrir sinn snúð verður auðvitað til þess að það er betra að gera eitthvað annað.“. Þetta er sorglega þrálát skoðun sem fólk hefur að ef þú vinnur í frjálsum hugbúnaði þá fáir þú ekkert borgað. Það eru vissulega sjálfboðaliðar að vinna í mörgum frjálsum forritum en oftar er raunin sú að þeir sem leggja vinnu í frjálsan hugbúnað eru á launum hjá fyrirtækjum sem sjá hag í því að borga fólki fyrir að forrita inn í hann eiginleika sem þóknast þeim. Dæmi um þetta er RedHat, Google, Oracle… Háskólinn í Reykjavík (wink wink)… og mörg fleiri. Gerðu það fyrir mig að apa ekki upp þetta með að frjáls hugbúnaður sé frír/ókeypis hugbúnaður… gerðu það!

  Að lokum vil ég leiðrétta þetta með listaverkin. Hann tók skýrt fram að það sama gildir um listaverk og tónlist. (Tón)listamaðurinn á að hafa rétt á að hafa eitthvað um afleidd verk að segja en hann tók skýrt fram að í öllum tilfellum ætti að vera löglegt að deila þessum verkum, það sagði hann að ætti við um alla list… tónlist jafnt sem myndlist.

  • tommi00 skrifar:

   Þetta stuðaði mig einnig. Nú tek ég sjálfur þátt í að skrifa slatta af frjálsum hugbúnaði, mikill meirihluti af því starfi er eitthvað sem fyrirtæki greiða fyrir.

  • Það kom nú samt út eins og hann væri að rugla þessu saman, en gott og vel.. já, gefum okkur að þetta hafi annað hvort komið klaufalega frá honum – eða ég misskilið. En ég var ekkert að apa eitt eða neitt upp með að opinn hugbúnaður væri alltaf frír, þvert á móti að benda á að mér fnnast hann grauta þessu saman. Ég veit fullvel að þetta er sitt hvor hluturinn. Hitt er að mikið af þessu er frítt – eða jafnvel háð frjálsum framlögum.

   Mikið af opnum hugbúnaði kemur frá skóla- stofnana umhverfi þar sem viðkomandi fær greitt án tillits til hvernig gengur að selja. Þetta hefur reyndar mögulega eitthvað breyst, en það gleymist gjarnan að mikið af útbreiddasta opna hugbúnaðinum er einfaldlega eftiröpun af kerfum sem búið er að hanna í „lokaða“ umhverfinu, GNU, Linux, Gimp, MySQL, FireFox, þetta eru engar nýjungar – og gjarnan árum á eftir fyrirmyndinni. Ég óttast að þróunin verði lítil sem engin ef opinn hugbúnaður verður ráðandi.

   Varðandi tónlistina þá stenst þetta engan veginn hjá þér. Ef tónlistarmaður vill lifa af því að selja tónlistina sína og gefur út á þeim forsendum að fólk megi sækja gegn gjaldi, þá fær hann auðvitað ekkert greitt ef einn kaupir og dreifir frítt til allra annarra. Þannig stangast það beinlínis á við það að tónlistarmaðurinn eigi rétt á að fá greitt að segja að það megi dreifa efninu frítt án hans samþykkis. (það má vissulega endurskoða lög um höfundarrétt, en þessi skoðun að það sé sjálfsagt að dreifa efni annarra án leyfis er að mínu viti fráleit.)

   • Björgvin skrifar:

    „en það gleymist gjarnan að mikið af útbreiddasta opna hugbúnaðinum er einfaldlega eftiröpun af kerfum sem búið er að hanna í “lokaða” umhverfinu“

    Það sama á við um séreignarhugbúnað.

    • nei, reyndar alls ekki.. þetta er auðvitað ekki svart/hvítt, en það hefur verið meiri framþróun í „lokaðum“ hugbúnaði.

     • Kristján Friðjónsson skrifar:

      Þú hefur einfaldlega rangt fyrir þér.

     • Björgvin skrifar:

      Jú, séreignarhugbúnaður apar eftir öðrum séreignarhugbúnaði alveg eins og opinn hugbúnaður apar eftir séreignarhugbúnaði.

      Þróun í vöfrum hefur verið síðustu ár dregin áfram af þeim opnu, m.a. Firefox sem þú nefnir.

      Linux styður meiri vélbúnað en nokkur annar kjarni.

      Það kalla ég framþróun.

      • Nei, nú er ég frekar mikið ósammála.

       Stóru breytingarnar í hugbúnaðarheiminum koma frá séreigna / lokuðum hugbúnaði. Unix byrjar sem lokað stýrikerfi, GNU / Linux koma á eftir. Oracle var leiðandi gagnagrunnskerfi (með Informix ofl.), MSSQL dregur á – MySQL kemur í kjölfarið. PhotoShop leiðir þróun í myndvinnslu, Gimp kemur (árum) á eftir. Delphi / C# var stærsta bylting í þróun hugbúnaðar (á ég að þurfa að nefna Lazarus?). Eigum við að skoða skrifstofukerfi? Bókhaldskerfi? Vöruhús gagna?

       Hitt er fínpússun og aðlögun – og góð og gild sem slík – og fínn valkostur. En það er óþarfi að láta eins og séreignarhugbúnaður (sem er betra hugtak en lokaður) eigi ekki rétt á sér. Og hafi ekki talsverða kosti, sérstaklega í frumþróun.

       Jú, FireFox hafði góð áhrif, en ekki beint hægt að kalla það frumþróun.