Það er eiginlega með ólíkindum að fylgjast með þessari umræðu um verðtrygginguna.
Það er auðvitað ekkert að hugmyndinni um verðtryggingu, hún segir einfaldlega til um að lán eigi að greiða til baka í jafn verðmætum krónum og það er tekið.
Vísitalan er það tæki sem er notað til að mæla verðtrygginguna. Þar er margt athugavert við núverandi fyrirkomulag. Það er engan veginn rökrétt að húsnæðislán hækki með hækkandi verði á neysluvörum. Það er miklu nærtækara að miða við launavísitölu eða þess vegna húsnæðisverð. En við skulum þá heldur ekki gleyma því að lengi vel græddu neytendur á þessu, lánskjaravísitalan hækkaði minna en launavísitala, að ég tali nú ekki um húsnæðisverð.
Betri vísitala við að reikna verðtryggingu er miklu meiri kjarabót, miklu sanngjarnari og það sem meira er, hún gengur ekki þvert og tilviljanakennt á rétt lánveitenda.
En stærsta vandamálið við húsnæðislánin eru allt of háir vextir. Lækkun vaxta er það sem skipti neytendur langmestu máli, er líka sanngjarnt gagnvart lántakendum og í takt við það sem gerist í nágrannalöndum.
Tökum dæmi af 25m húsnæðisláni sem tekið er 2006 til 25 ára.
- Í dag væri staðan líklega sú að neytandi væri búinn að greiða 18,3m af láninu.
- Ef notaðir hefðu verið óverðtryggðir vextir væri hann búinn að greiða 21,1m af sama láni.
- Ef vextir hefðu verið lægri, segjum 1,5%, þá væri viðkomandi búinn að greiða 8,7m af þessu láni. Verðtryggðu. Með neysluvísitölu.
[ég ligg reyndar veikur heima, en kannski er rétt að birta fleiri dæmi þegar heilsan leyfir]
Þriðja atriðið er svo að bjóða lækkun greiðslubyrði með því að lengja lánstímann. Hentar ekki öllum en ætti að vera möguleiki.
En aftur að verðtryggingunni. Ég veit að fólk meinar vel, amk. í flestum tilfellum. Og svo er þetta er einföld leið til að ná athygli. Það er einhvern veginn rosalega fréttnæmt dag eftir dag ef einhver lýsir frati á verðtrygginguna. Stjórnmálaflokkar og prófkjörsframbjóðendur keppast um að nota stærri og stærri lýsingarorð gegn verðtryggingunni.
Einhverjir sjá kannski auðsóttan skyndigróða í hyllingum.
Kannski er ástæðan þess að verðtryggingin er svona vinsæll skotspónn að þetta er ekki mikið notað í öðrum löndum. En þar þjóna breytilegir vextir sama hlutverki, og eru í raun minna gagnsæir, þeas. ekki er ljóst hvernig þeir eru ákveðnir.
En smá ósk til frambjóðenda og fréttamanna. Ef þið virkilega viljið bæta kjör neytenda, hafið að minnsta kosti fyrir því að kynna ykkur hvernig þetta virkar og hvaða aðferðir nýtast best.
Breytilegir vextir (sem þekkjast í útlöndum og nú á óverðtryggðum húsnæðislánum sem bankar bjóða) eru að mínu mati miklu MEIRA gegnsæir, því þú veist alltaf uppá hár hvað þeir eru háir. Vissulega geta þeir svo breyst, en ekki frá degi til dags, heldur eftir einhvern árafjölda. Sú óvissa er mjög álíka mikil og óvissan varðandi verðtryggð lán.
Verðtrygging á lánum hefur einn þann helsta ókost að fela hversu háir vextir eru í raun og veru, heildarvextir á verðtryggð lán sl. 5 ár (ef við reiknum verðtryggingu sem vexti) má segja að hafi sveiflast á bilinu 9-18% myndi ég halda.
Í nágrannalöndum (t.d. Svíþjóð) eru boðin húsnæðislán með þetta 4%-4.5% vöxtum, þ.e. sömu eða svipuðum NAFNvöxtum og hér, en ENGIN verðtrygging! Samt er alveg líka verðbólga í útlöndum og launavísitala hækkar eflaust oftar en ekki milli ára.
M.ö.o. raunvextir eru hér 100-150% hærri en í nágrannalöndum.
Eftir því sem ég best veit eru breytilegu vextirnir eru ákveðnir út frá verðbólgu væntingum og geta jafnvel breyst mánaðarlega. En neytandinn veit þetta ekki fyrirfram svo neinu nemi. [Skal samt játa að ég þekki þetta ekki mjög víða, en væri fróðlegt að skoða].
Ég á eftir að skoða betur raunvexti í nágrannalöndum, en að meðaltali ættu vextir að vera í takt við þjóðarframleiðslu – veðtryggð langtíma fasteignalán vel innan við, neyslulán eitthvað yfir.
Jú, kannski hefur verðtryggingin þessi áhrif að fela raunvextina, en það breytir því ekki að það eru vextirnir sem eru miklu stærra vandamál en verðtryggingin.
Það er engin spurning í mínum huga að ógagnsæið er meira með breytilegum vöxtum – maður veit aldrei hvað eru vextir og hvað eru verðbætur í þeim – bankarnir munu alltaf sækja sínar verðbætur, annars færu þeir fljótt á hausinn. Tek heilshugar undir með þessum pistli – fólk kennir lyfinu um sjúkdóminn af því að það hefur einhverjar aukaverkanir. Fólk veit ekki hvað það er að kalla yfir sig með því að vilja kasta verðtryggingunni á meðan við erum með þessa örmynt sem krónan er – lesið ykkur bara til um hvernig ástandið var fyrir tilkomu hennar. Það er ekki verðtryggingunni að kenna að fólk situr í yfirveðsettum íbúðum, það var fasteignabóla sem olli því. Þetta sést vel á því að víða annarstaðar, eins og í Madríd á Spáni, er fólk í nákvæmlega sömu stöðu þótt þar sé engin verðtrygging. Ef skoðað er þróun fasteignaverð í erlendum myntum hér og borin saman við önnur lönd sést svipuð þróun hér og víða annarstaðar. Munurinn er sá að hér lækkuðu fasteignir ekki eins mikið í krónum talið en krónurnar rýrnuðu. Og pólitískir popúlistar bölva verðtryggingunni.
Já, ég er líka orðinn svo gamall að muna þegar það var „lán“ að fá „lán“, happa og glappa (kunningja) ákvarðanir bankanna, því lántakandi borgaði bara hluta til baka.
Í Svíþjóð er hægt að festa vextina langt fram í tímann, a.m.k. í tíu ár. Svona líta þeir út í dag hjá einum banka þar, SEB:
3 mån 3,30%
1 år 3,33%
2 år 3,19%
3 år 3,27%
5 år 3,51%
10 år 4,10%
Svo er rétt að hafa í huga að maður fær 30% af greiddum vöxtum endurgreiddan sem skattafslátt. Þannig borgar maður tæp 3% í vexti í raun ef maður festir þá í tíu ár. Þetta er (auðvitað) ekki verðtryggt.
Stefna sænska Seðlabankans er að halda verðbólgu í um 2% og hún hefur sveiflast þar í kring síðustu ansi mörg ár*. Það þýðir að Sviar greiða í raunvexti ca. 1-1.5%. Nú fá margir Íslendingar líka vaxtabætur, en ætli við getum ekki sagt að fólk greiði hér nettó m.t.t. vaxtabóta a.m.k. 3-3.5% raunvexti að meðaltali? (Líklega meira.)
Það er 100-250% hærra en hjá Svíum.
*Sjá http://sv.wikipedia.org/wiki/Inflation
Sænska hagkerfið er auðvitað talsvert stöðugra en okkar, en auðvitað væri frábært að geta haft þetta svona.
En fínt að fá dæmi um raunvexti í nágrannaríkjunum. Vextirnir eru nefnilega allt of háir – og það skiptir okkur miklu meira máli en verðtryggingin.
Mér þætti forvitnilegt að vita hvernig þessum málum er háttað í Færeyjum.
Í rökræðum um verðtryggingu lána brydda talsmenn verðtryggingarinnar stundum upp á þeirri röksemdafærslu að ef ég lána þér fyrir 10 lítrum af bensíni í dag eigi ég að geta keypt 10 lítra af bensíni þegar þú borgar mér til baka á morgun.
En hversu margir talsmenn verðtryggðra lána eru líka talsmenn verðtryggðra launa?
Væri ekki allt eins hægt að halda því fram að ef ég sel einhverjum klukkutíma af tíma mínum í dag fyrir andvirði 10 lítra af bensíni að á morgun eigi ég að geta keypt 10 lítra af bensíni eftir klukkutíma vinnu?
Svarið við seinni spurningunni er auðvitað nei. Því ósanngjarnt væri að velta allri áhættunni af þróun olíuverðs yfir á vinnuveitandann. Með sömu rökum mætti segja að það væri fráleitt að ætla lántakandum að bera alla áhættuna af þróun olíuverðs í fyrra dæminu.
Sanngjörn niðurstaða væri að báðir aðilar viðskiptanna deildu áhættuni af þróun verðlags. Peningar eru jú ekki verðmæti í sjálfu sér heldur ávísun á þau.
Já, ég er auðvitað talsmaður verðtryggðra launa. Enda ef þú hefðir nú lesið færsluna þá kemur skýrt fram að ég mæli með að verðtrygging lána sé miðuð við lauavísiölu ekki neysluvísitölu.
Þar með eru aðrar vangaveltur hjá þér óþarfar.
Í hagkerfi þar sem verðtrygging útlána er við lýði getur einn aðili tekið sig til og magnað upp bólu, lánað fullt af peningum og síðan fellt gengið og sópað að sér raunverulegum verðmætum frá þeim sem tóku lán. Og staðið eftir með pálmann í höndunum ríkari en nokkru sinn fyrr. Hringir þetta kannski einhverjum bjöllum?
Það er alveg sama hvernig verðtryggingin er útfærð. Hún er hagstjórnunarleg mistök sem færa á endanum fé frá einum aðila til annars.
Það sem þú virðist ekki átta þig á er að þegar peningar missa verðgildi þá er það ekkert alheimslögmál að akkúrat nákvæmlega þeir sem skulda pening taki alla verðrýrnun á sig og bæti þeim það upp sem eiga útlánin að fullu. Með því þá að annaðhvort láta þá hafa raunveruleg verðmæti í staðin(með því að missa húsin sín) eða bæta á sig vinnu til að standa undir afborgunum.
Allir peningar ættu auðvitað að missa verðgildi jafnt, hvort sem þeir eru debit eða kredit.
Það er með öllu óskiljanlegt hversu miklu ástfóstri þú hefur tekið verðtrygginguna. Af hverju?
Mér leiðist reyndar svona athugasemdir – þeas. að gera mér upp að ég átti mig ekki á einhverju og / eða hafi tekið einhverju ástfóstri við verðbólgu. Þetta er ómálefnalegt og jaðrar við skæting.
Ef þú lest nú greinina, en ekki bara fyrirsögnina, þá gengur þetta dæmi sem þú nefnir ekki upp ef verðtryggingin er miðuð við laun.
Ef verðtryggingin er miðuð við laun þá þarf fólk ekki að bæta á sig vinnu. Þú mátt sem sagt endilega lesa greinina.
Og þú svarar aðalatriði greinarinnar hvergi. Ertu sammála mér eða ósammála mér að alvöru lækkun vaxta skipti neytendur meira máli en afnám verðtryggingar. Sérstaklega ef við gefum okkur að verðtrygging sé miðuð við betri vísitölu.
Ef þú ert ósammála, hefurðu einhver rök?
Og nei, ég hef ekki tekið „ástfóstri“ við verðtryggingu, ég er einfaldlega að benda á betri og sanngjarnari leið – og að verðtryggingin sem slík er ekki vandamál, heldur vísitalan sem er notuð. Það er eiginlega óþolandi að fá svona spurningar sem byggja á að snúa út úr efni greinarinnar.
„Í hagkerfi þar sem verðtrygging útlána er við lýði getur einn aðili tekið sig til og magnað upp bólu, lánað fullt af peningum og síðan fellt gengið og sópað að sér raunverulegum verðmætum frá þeim sem tóku lán.“ Þetta er arfavitlaus fullyrðing – með fullri virðingu. Sá sem lánar peningana fær greiddar þessarverðlitlu krónur til baka – hvað græðir hann á því?
Held bara að ég taki trú á Jesú Krist aftur
þú hefur væntanlega villst á greinum…
Breytilegir vextir hér hafa verið í boði samhliða verðtryggingu alla tíð í bönkunum, og voru ákveðnir mánaðarlega að geðþótta bankanna sjálfra — hefur það eitthvað breyst?
Þannig gátu bankarnir tælt fólk til að taka stór lán til lengri tíma og svo fyrirvarlaust ákveðið að hækka vextina og þá gilti sú hækkun bæði á ný og eldri lán. Svona eins og bensínhækkanir giltu aftur í tímann. Ólíufélögin gætu þá lækkað verðið mikið í stutta stund fengið alla til að kaupa og brenna miklu eldsneyti og keyra mikið — en svo kæmi hækkun og þá ekki bara á bensín úr stút við dælu heldur á allt bensín sem keypt var í t.d. tvö ár.
Það óttast ég að sé að gerast núna þó þeir lofi við lántöku í dag að vextir séu óbreyttir um sinn — en svo kemur hækkunin og fólki er ómögulegt að færa húsnæðislánin sín sem tekin voru með t.t. gefnum forsendum um vexti.
Það er reyndar rétt að verðtryggð lán eru oft líka með breytilegum vöxtum. Sem er að sjálfsögðu alveg galið. Það á að vera nægjanleg trygging fyrir lánveitanda að hafa verðtryggingu – og verðtryggð lán eiga að geta verið með föstum vöxtum, amk. til nokkuð marga ára og litlu svigrúmi til breytinga. Ég ætla ekki alveg að fullyrða að það þurfi að festa lengra en td. 10 ár.
En aðalatriðið er samt að lægri vextir eru miklu meiri kjarabót fyrir neytendur en afnám verðtryggingar. Og verðtrygging sem miðar við launavísitölu ver neytendur gegn sveiflum í verðlagi.
EN… við verðum þá að sætta okkur við að þegar launin hækka umfram verðlag – eins og gerðist 1995-2005 – þá hækka lánin meira en verðlag.
Sæll Valli,
Ástæðan fyrir verðbólgu er sú að bankarnir búa til peninga umfram verðmætasköpun hagkerfisins. Það er bara 8% bindiskylda á móti láni þá þarf einungis innlán uppá 80 þús til að bankinn geti búið til lán uppá 1 milljón króna. Við að búa til peninga eykst peningamagn í umferð án verðmætaaukningar, sem leiðir af sér að verð myntarninnar minnkar þar sem fleirri krónur kaupa sömu verðmæti. Og þegar verðtrygginginn tryggir þá sem eiga skuldirnar (Bönkum og fjármálastofnunum) þá er þeim alveg sama þó að það komi verðbólga því þeir eru alltaf tryggðir. Erlendis er ekki verðtrygging og því eru bankarnir ekki jafn duglegir að prenta peninga þar sem flest lán eru með föstum vöxtum og þá rýrnar lánið við að prenta of mikla peninga.
Verðtrygginginn stuðlar því að því bankarnir geti prentað peninga án ábyrgðar því að ábyrgðinn er öll á skuldurum. All tal um óstöðugt hagkerfi, óstjórn í efnahagsmálum og aðrar bábiljur eru bara hljóm eitt miðað við svindlið við þessa peningaprentun bankana.
En með vextina, þá mun aldrei ganga upp að hafa 3,5% raunávöxtunarkröfu á skuldabréf þegar hagkerfið stækkar bara um 2,5-3,0 á ári. Það drepur allar fjárfestingar að hafa ávöxtunarkröfuna svona háa.
Þetta breytir því ekki að verðtrygging miðað við launavísitölu minnkar möguleika bankanna á svona æfingum.. „Erlendis“ er kannski ekki eitthvert eitt fyrirbæri, mjög víða eru vextir einmitt breytilegir til að mæta verðbólgu. Og mér sýnist bankar „erlendis“ líka hafa verið duglegir að dæla peningum inn í hagkerfið.
En aðalatriðið er að lægri vextir eru miklu meiri kjarabót fyrir neytendur. Að jafnaði ættu raunvextir að vera í takt við hagvöxt – langtíma, veðtryggð lán eitthvað lægri en neyslulán eitthvað hærri.
Bindiskyldan er svo sérstakt fyrirbæri, ég er ekki viss um að það sé endilega nauðsynlegt að hækka hana. Ef aðrir hlutir eru í lagi þá held ég að þetta svigrúm sé jákvætt..
Þessi grein rýmar algjörlega við það sem Guðmundur Ólafsson hagfræðingur hefur sagt þ.e. það eru háir vextir sem eru vandamálið. Varðandi óverðtryggð lán þá verður fólk að átta sig á því að hvort sem lánin eru með breytilegum vöxtum eða ákvæðum um endurskoðun þá borgar fólk verðb+plguna samt í auknum vöxtum. Og það staðgreiðir það að mestu þannig að fólk getur búist við að afborganir séu um 25% hærri fyrrihluta lánstímans. Og síðan líklegt að ef að við höldum áfram með krónuna verði aftur tekið upp vaxtavextir eða vístitöluálag á vexti. Og alveg á hreinu að með krónu sem gjaldmiðil þá verður draumur um lága vexti mjög fjarlægur. Það er sagt að örmynt kalli á að landið verið hávaxtasvæði. Svo finns mér lítið fjallað um að ef að fólk er tilbúið að greiða hærri afborganir af óverðtryggðu láni sem nemur 25% þá gæti það gert það með verðtryggða lánið sitt og þar með greitt höfðustólin niður og þá væri þessi lán að virka svipað. Sbr. það sem Ingólfur í spara.is er að kenna fólki.
já og reyndar fleiri sem hafa bent á þetta með háa vexti, en kemst einhvern veginn að í háværri umræðunni um verðtrygginguna. Ég hef hins vegar ekki séð hugmyndir um að breyta vísitölunni.
En ég er ekki alveg klár á því hvers vegna við ættum ekki að geta náð lægri vöxtum með krónunni – ekki svo að skilja að ég vilji endilega halda henni, en þarf þetta endilega að vera ómögulegt?
Almennt þýðir meiri áhætta hærri ávöxtunarkrafa og þá hærri vextir á lánsfé. Óverðtryggðir vextir eru meiri áhætta fyrir bankana en verðtryggðir þannig að þeir munu telja sig þurfa að reikna með hærri verðbólguþætti í þessum lánum. Það er ekkert að marka ástandið núna, þar sem bankarnir eru að gera út á óánægju fólks með verðtryggðu lánin og ná í fleiri kúnna (t.d. á kostnað Íbúðalánasjóðs). Sú veisla mun þó ekki vara nema 3 ár eða svo.
Flottur pistill, algjörlega sammála.
Eins og einn vinur minn svaraði þessari spurningu… Já já. Það er svosem ekkert að hugmyndinni um verðtryggingunni.
En að troða henni með lögum upp á tvo/þriðju hluta allra heimila í sama landinu, er hinsvegar geðbilun.
Það er ekki heldur neitt að hugmyndinni um haglabyssu. Ef þú notar hana til að veiða þér til matar.
Ég er reyndar svo gamall að ég man eftir ástandinu fyrir verðtryggingu (sbr. aðra athugasemd hér).. þá greiddi fólk bara hluta raunvirðis lánanna til baka, það var slegist um lán og það var nokkurs konar happdrætti að fá lán.
En það er rétt, þetta á að vera valkostur.
En aðalatriðin eru að vextirnir eru raunverulega vandamálið – og það má útfæra verðtryggingu miklu betur.
Varðandi Færeyjar, þá er þð áhugaverð spurning. Hvernig er þetta í Færeyjum. það er náttúrulega land sem Ísland á að bera sig saman við. Má sjá hér frétt í fyrra:
,,Rentan á húsalánum við 1. veðrætti lækkar úr 5,8 prosentum niður í 4,75 prosent p.a. Hetta fer at lætta munandi um hjá kundum við bústaðarláni. Rentan á bíligastu billánunum verður 5,0 prosent p.a.
Fyri nýggj realkredittlán merkir broytingin, at sokallaða bidragið hækker eitt vet upp í 1,75 prosent p.a.“
http://www.vagaportal.fo/pages/posts/utlansrenturnar-laekkadar-i-eik-7738.php
Hérna er Eik Banki ef einhver vill skða þetta betur. Í fljótu bragði sýnist manni almennt vera lágir vextir – en það er svo sem við hvað maður miðar. Sýnist líka í fljótu bragði að þeir bjóði uppá ýmis form á húsnæðislánum. Meira greitt fyrst á lánatíma eða meira seinna á lánatíma etc.
http://www.eik.fo/