Ég vil lýsa yfir stuðningi við Skúla Helgason í prófkjöri Samfylkingarinnar.
Og jú, það er best að taka fram strax að ég þekki Skúla persónulega, en það er auðvitað kostur að þekkja fólk að góðu – og vita hverjum er treystandi.
Það er nefnilega mikilvægt að hafa þingmenn sem hafa framtíðarsýn, hvort sem við erum að tala um menntun, hagkerfið, mannréttindi, landbúnaðinn og uppbyggingu atvinnulífsins.
Það er líka lykilatriði að hafa menn sem þora að hafa skoðanir og gera grein fyrir því hvers vegna þeir hafa komist að ákveðinni niðurstöðu. Nú er það ekki þannig að ég sé sammála Skúla í einu og öllu – fyrr mætti nú vera, ég er ekki alltaf sammála neinum að öllu leyti, ekki einu sinni sjálfum mér. Það sem skiptir mál er að fá skýra afstöðu, forsendur fyrir henni og að geta tekið rökum. En oftast erum við á sömu nótum, svo það sé á hreinu.
Þá má auðvitað ekki gleyma sameiginlegum áhuga okkar á tónlist – og gaman að sjá frumvarp um stuðning við íslenska tónlist. Þessi leið er miklu nærtækari en ríkisrekstur, þeas. ég er lítið hrifinn af því að ríkið sé að vasast í rekstri sem einstaklingar geta sinnt. En þegar hægt er að sýna fram á að stuðningur við ákveðna grein skili miklu til samfélagins, hvort sem það er tónlist, kvikmyndir eða annað, þá er mikilvægt að finna leið til að styðja við verkefni. Ekki ríkisrekstur.
Ég vona að það sé rétt hjá þér, Valgarður, að eftirfarandi gildi almennt um Skúla: „Það er líka lykilatriði að hafa menn sem þora að hafa skoðanir og gera grein fyrir því hvers vegna þeir hafa komist að ákveðinni niðurstöðu.“ Ég hef hins vegar haft slæma reynslu af því, eins og lesa má um hér. Að vísu ekki hvernig Skúli hafi komist að niðurstöðum sínum, heldur hinu hvernig „rök“ hans reyndust tóm þvæla, eða eitthvað þaðan af verra: http://blog.pressan.is/einar/2012/10/25/skuli-helgason-klam-og-heidarleiki/
Ég fylgdist með umræðum ykkar, tók undir gagnrýni þína á viðtalið við Gail í Kastljósi.. Ég er sammála Skúla (og fleirum) að klám á ekkert erindi til barna og unglinga, en mér finnst okkur ekkert koma við hvað fullorðið fólk vill horfa á og hef ekki áhyggjur af einhverri alls herjar klámvæðingu. Og jú, það er mikilvægt að taka rökum – er ekki rétt munað hjá mér (ef ég leyfi letinni að ráða og sleppi því að fara í gegnum þetta) að hann hafi samþykkt það sem þú sagðir að ekki hafi verið sýnt fram á orsakasamhengi, en hins vegar væri ákveðin fylgni sem hann hefði áhyggjur af? Ég deili ekki áhyggjum hans af þessari fylgni, en ég skil samt hans afstöðu.