Kyndill eða svindl

Posted: nóvember 17, 2012 in Umræða
Efnisorð:, , ,

Ég gerði að umtalsefni viðtal við talsmann opins hugbúnaðar í Silfri Egils nýlega. Meðal þess  sem ég gagnrýndi, reyndar bara í athugasemdum, var þegar hann kallaði Kindle frá Amazon, „Swindle“, án þess að skýra mál nokkuð frekar.

Ég var sem sagt að gagnrýna það að vera að uppnefna fyrirbæri án nokkurra skýringa. Ekki að hafa skoðun á því hvort Kindle væri svindl fyrirbæri eða ekki.

Ég fékk auðvitað margar athugasemdir, sem allar sneru að því að sannfæra mig um að þetta væri svindl, en enginn nefndi tilefni athugasemdarinnar, þeas. að maðurinn hefði verið að slá um sig með uppnefnum án rökstuðnings.

Þetta tvennt fer kannski mest í taugarnar á mér við almenna umræðu. Það virðist allt í lagi að uppnefna án þess að tilgreina hvers vegna.

Og þegar ég gagnrýni þá hegðun þá eru einu svörin sem ég fæ útskýringar á því hvernig uppnefnið er tilkomið. Enginn ræddi hvort þetta væri boðlegt, þeas. að standa í svona uppnefnum án skýringa.

En gott og vel. Veltum aðeins fyrir okkur hvort Kindle, eða Kyndill, frá Amazon er svindl eða ekki.

Gagnrýnin gengur út á að neytandinn sé ekki að kaupa bækur heldur réttinn til að lesa þær. Amazon geti dregið þær fyrirvaralaust til baka án endurgreiðslu. Nefnt var dæmi um eina bók (1984) og eina konu sem hafði misst allt sitt af kyndlinum.

Konan fékk reyndar leiðréttingu sinna mála og „1984“ (og reyndar „Animal Farm“ líka) voru teknar til baka eftir að í ljós kom að sá sem hafði selt réttinn til Amazon átti engan rétt til að selja. Amazon hefur reyndar gert breytingar í kjölfar gagnrýninnar og ákveðið að taka ekki bækur til baka þrátt fyrir svona mistök.

En hvert er þá svindlið? Að ég sé ekki að kaupa bækur heldur réttinn til að lesa? Það er rétt en ég veit þetta fullvel þannig að það er ekki á nokkurn hátt verið að svindla á mér. Að ég geti ekki lánað kyndilbækur eins og aðrar bækur er skondin röksemd. Fyrir það fyrsta þá er skýrt tekið fram í öllum, (jæja flestum) bókum að þær megi ekki lána. Það fer vissulega enginn eftir þessu, en það er ekki eins og verið sé að taka einhvern „rétt“ af fólki. Þá er hægt að lána og fá lánaðar bækur milli kyndil notenda. Og það er líka hægt að fá aðgang að bókasafni Amazon fyrir til þess að gera lágt mánaðargjald og fá bækur lánaðar án endurgjalds. Þá eru yfir 40.000 bækur ókeypis fyrir hvern sem er. Og svo má alltaf lána kyndilinn sjálfan (en þá fer jú allt safnið í einu).

Eftir stendur að Amazon getur jú mögulega dregið allar bækur til baka. En líkurnar eru í besta falli stjarnfræðilega litlar. Hvers vegna ættu þeir að drepa þessa gullgæs með svona tilgangslausri hegðun? Hver gæti tilgangurinn mögulega verið?

Og já, ekki gleyma, þetta svokallað svindlfyrirtæki leyfir mér líka að lesa það sem ég kaupi í símanum mínum. Og geyma afrit á tölvunni minni. Ljóta „svindlið“, er það ekki??

Þegar eintak af kyndli skilaði sér ekki til mín þá sendi Amazon mér nýtt eintak umhugsunarlaust. Þegar ég settist á kyndilinn minn – já þeir eru brothættari en bækur – þá var mér boðinn nýr á góðum afslætti. Það er ekki að „svindl“ fyrirtækinu að spyrja, eða hvað??

En gott og vel, þetta getur haft sína ókosti.

En þetta hefur marga kosti, miklu meira úrval af bókum, mikið frítt efni, mikið af ódýru efni, efnið skilar sér strax, hægt er að lána (sumar) bækur og þú getur lesið á hvaða tæki sem er. Og það er miklu auðveldara að flytja!

Ég kaupi enn „eigulegri“ bækur á föstu formi, kannski íhaldssemi.

En aðalatriðið er að þetta er valkostur. Neytandi veit fullkomlega að hverju hann gengur. Þess vegna er fráleitt að kalla þetta svindl. Einfaldlega ómerkileg upphlaup.

Athugasemdir
 1. Svindlið er m.a. það að Amazon upplýsir fólk ekkert sérstaklega vel um hvað það er að borga fyrir. Allavega finnst mér ákaflega villandi þegar það stendur „Buy“ við bækurnar. Ef ég „kaupi“ eitthvað þá tel ég eðlilegast að skilja það sem svo að ég eigi það. Ekki að ég hafi einhvern illa skilgreindan rétt. Þetta tel ég ekki órökrétt að kalla svindl.

 2. Jóhannes Laxdal skrifar:

  Takk fyrir þessa grein Valgarður. Ég gleymdi að leita skýringa á „fréttinni“ um hvers vegna Amazon deletaði þessari bók. Ég, eins og þú, geri mér grein fyrir að höfundarvarið efni lýtur einfaldlega ekki sömu reglum og aðrar vörur og það er ekki við seljandann að sakast heldur löggjafann. Að tala um swindle í þessu sambandi er barnalegt. Amazon er einfaldlega nútímalegt fyrirtæki sem stundar vöruþróun. Varan er Kindle, sem allir geta notið góðs af. Menn eru ekkert nauðbeygðir til að kaupa rafbækur af Amazon. Og ef menn eru svo heimskir að hafa tölvurnar sínar og kindlana beintengda í gegnum netið án nokkurra varna þá vorkenni ég þeim ekki ef þeir tapa gögnum. Alla vega þá tek ég afrit af öllum mínum tölvugögnum reglulega

  • Þegar Amazon komst að því að það hefði ekki leyfi til að selja 1984 hefði fyrirtækið átt að semja um skaðabætur til höfundarétthafa og hætta að selja bókina í stað þess að eyða henni af tækjum viðskiptavina sinna – láta hana hverfa í svona „memory hole“. En Amazon náði að sýna ágætlega fram á hættuna sem fylgir því að fyrirtæki hafi svona vald yfir rafbókalesurum. Ritskoðunarhættan er rosaleg.

   Ég skil ekki alveg röksemdafærsluna „ef menn eru svo heimskir að hafa tölvurnar sínar og kindlana beintengda í gegnum netið án nokkurra varna þá vorkenni ég þeim ekki ef þeir tapa gögnum. Alla vega þá tek ég afrit af öllum mínum tölvugögnum reglulega“ enda gerir hún ráð fyrir því annars vegar að fólk sem er ekki klárt á tölvur eigi bara skilið að tapa gögnum sínum. Mér finnst það galið. Amazon leyfir manni síðan ekki að taka afrit af rafbókum sem maður kaupir af þeim án þess að maður eyði út afritunarvörninni (sem er reyndar fullkomlega löglegt á Íslandi).

   Það er síðan svo einfalt að maður getur ekki keypt rafbækur frá Amazon án þess að hleypa þeim í Kindilinn (og þar með vera nettengdur). Fólk á bara að geta treyst fyrirtækjum sem það á í viðskiptum við til þess að koma ekki svona fram við það.

 3. Haukur Þ. skrifar:

  „Fyrir það fyrsta þá er skýrt tekið fram í öllum, (jæja flestum) bókum að þær megi ekki lána.“

  Annaðhvort er ég að misskilja eitthvað eða Valgarður að misskilja eitthvað. Í mörgum bókum er prentað eitthvað fremst um að þær megi ekki afrita án leyfis en ég minnist þess ekki að sjá talað um að ekki megi lána þær.

  • Stefán Freyr. skrifar:

   Valgarður er væntanlega að vísa í þessa málsgrein sem má finna í mörgum bókum (eða eitthvað henni svipað):

   „This book is sold subject to the condition that it shall not, by way of trade or otherwise, be lent, resold, hired out, or otherwise circulated without the publisher’s prior consent […]“

   en Valgarður hefur greinilega ekki nennt að lesa lengra því setningin heldur svo áfram:

   „[…] in any form of binding or cover other than that in which it is published and without a similar condition including this condition being imposed on the subsequent publisher.“

   M.ö.o. þá má bara ekki lána, selja, leigja eða á neinn hátt dreifa _öðrum eintökum_. Þér er gvöðvelkomið að gera það sem þú vilt við eintakið sem þú ert með í höndunum og meira að segja mætti skilja endann á setningunni þannig að það _megi_ afrita og dreifa efninu svo fremi að þessi klausa sé í afritinu sem um ræðir. En ég er ekki anal eins og maðurinn sagði (ég er s.s. ekki löglærður einstaklingur) þannig að ég ætla ekki að bera ábyrgð á of frjálslegri túlkun hennar. En það er deginum ljósara að það _má lána bækur_.

   Hvað inntakið á þessum pistli varðar þá ætla ég ekki að eyða mörgum orðum í það, mér sýnist sama hvað sagt er þá hafi Valgarður „svör“ við flestu. En svona það helsta:

   Stallman var þarna í 20 mínútna viðtali. Hann hafði varla tíma til að útskýra fjögur grunnfrelsin í frjálsum hugbúnaði sem er þó í raun grundvallarhugtak í því sem hann talar um. Það er kannski ekki skrítið að hann hafi ekki kafað ofan í þetta eina atriði með „Svindlið“. Mér fannst í raun ekkert athugavert við það að hann kæmi sinni skoðun að um Svindlkyndilinn á þennan hátt. Með því að stuða fólk aðeins. Einhverjir hlupu upp til handa og fóta, öskruðu að maðurinn væri hálfviti og blogguðu um það… hann er vanur því þannig að það fær ekkert á hann. En kannski voru einhverjir aðrir sem hugsuðu með sér „hmm… hvað er maðurinn að meina?“ og kynntu sér svo málið. Kannski eru jafnvel einhverjir af þeim að átta sig á því að þeir eiga ekki bækurnar sem þeir keyptu á Kyndilinn sinn heldur einungis aflestrarrétt af þeim… kannski eru þessir aðilar einmitt núna hoppandi vitlausir út í Amazon fyrir að hafa svindlað á þeim.

   Það er deginum ljósara að þú (Valgarður) ert alveg sáttur við þitt og það er bara fínt og flott. Við erum samt nokkur sem erum það ekki… og við fögnum því að umræðan eigi sér stað.

   • Kristján Friðjónsson skrifar:

    Við lifum sem betur fer á tímum ofgnóttar upplýsinga og höfum ágætis tól til að leita okkur upplýsinga um hvað það sem hugurinn girnist og finna umbeðnar upplýsingar án þess að þurfa að eyða í það miklum tíma ólíkt því sem áður var.

    Það að Valgarður hengi sig í að Stallmann kasti fram vel þekktum frasa sem Valgarður þekkir ekki eða bara yfirhöfuð að gera þá kröfu að í í allri umræðu skuli allt útlistað þannig að hver sem er geti skilið það án frekari útskýringa og að annað sé dónaskapur sýnir bara að Valgarður er ekki alveg búinn að átta sig á hvaða tímum hann lifir. Þetta get ég vel skilið. Enda hendir þetta mig sjálfan og ég er honum alveg hjartanlega sammála sé um fréttir í fréttamiðlum að ræða og sérstaklega þegar um röð greina að ræða. Ég þoli afskaplega illa að þar skuli ekki vera gerð nánari grein fyrir um hvað er verið að ræða, hver er til umræðu og afhverju og helst líka hvar.

    Ég áttaði mig á þessu eftir að ég las svarið hans Stefáns Freys hérna að ofan og ætla að reyna að venja mig alfarið af þessum gamla (og úrelta að mínu mati) hugsunarhætti.

    Hitt er hinsvegar annað sem Stefán bendir á að í flestum bókum er talað um að ekki megi lána bókina í öðru formi en hún er gefin út í. Enda til lítils að prenta inn í samninga eitthvað sem stenst ekki lög. Á Íslandi er það nefnilega þannig að ekki er hægt að afsala sér lögbundnum rétti með neinu móti og eignarrétturinn og umráðaréttur yfir eignum sínum er æðri nokkrum skilmálum sem nokkurt fyrirtæki getur sett og þá skiptir engu máli hvort notandi hafi gefið samþykki sitt fyrir þeim skilmálum. Þetta er alveg skýrt og þess vegna hafa t.d. EULA skilmálar sem ekki standast lög ekki neitt lagalegt gildi hér á landi. Það hlítur því að vera óhætt að álykta sem svo að slíkt hið sama gildi um bækur sem keyptar eru og eru sannanlega í höndum notenda.

    • Já, kannski er ég gamaldags að ætlast til þess að þegar einhver kallar annan svindlara þá fylgi rökstuðningur. Það hefði nú ekki þurfti mikinn tíma. Varla flokkast þetta undir vel þekktan frasa. Og það er eitt að útlista allt og annað að tala skiljanlega og uppylla lágmarkskröfur um að tala ekki eins og „frasamaskína“.

     Ég vona að minnsta kosti að við lifum ekki á þeim tímum að það sé allt í lagi að kasta fram uppnefnum, upphrópunum og skítkasti án nokkurra upplýsinga eða raka – og það sé svo hlustandans að vinna sig í gegnum þvæluna.

     Kannski er þetta teiknimyndakynslóðin, athyglin heldur ekki nema nokkrar sekúndur og þá þarf að matreiða allt í pillum, stuttum frösum og slagorðum.

     Eftir stendur að enn hefur ekkert komið fram sem réttlætir tal um svindl.

     • Stefán Freyr. skrifar:

      Valgarður, þú ert ótrúlegur!

      Í fyrsta lagi, ég þurfti að fletta upp þessari klausu í næstu bók þegar þú sagðir að það væri „skýrt tekið fram í öllum, (jæja flestum) bókum að þær megi ekki lána“. Hvar voru útskýringarnar á þessari fullyrðingu hjá þér þegar þú hentir henni fram?

      Í öðru lagi þá er sama hvað þú þráast við að halda því fram að þetta beri að skilja á þinn hátt þá er þinn skilningur á þessu rangur. _Það MÁ lána bækur_!

      Eins og ég sagði þá virðist ekki nokkur leið að telja þér trú um að þú getir mögulega haft rangt fyrir þér… þannig að með þessum orðum þá segi ég þetta gott.

      • Ég sagði nú reyndar að það gæti vel verið að þetta gæti vel verið misskilningur hjá mér.

       Hitt er að þetta er auðvitað algjört aukaatriði, kannski hefði ég átt að sleppa þessu.

       Aðalatriðið er að það hefur enginn sýnt fram á að um nokkurt svindl sé að ræða.

       Eftir stendur ekki bara óúskýrð, heldur (að því er virðist) órökstudd fullyrðing.

   • Það er rétt klausan um lán er mismunandi milli bóka, en ég skil þennan (og sambærilega) oftast þannig að ekki megi lána. Hver væri tilgangurinn að „lána“ í öðru formi? Ég skil fyrirvarann um annað form þannig að hann eigi við aðra þætti upptalningarinnar. Kannski er þetta „lögfræðital“ sem ég hef misskilið, annað eins kemur nú fyrir.

    En ég vil nú meina að í 20 mínútna viðtali hefði mátt koma einni setningu að til að skýra málið.

    Viðtalið var vissulega nokkuð skrýtið og þó ég geti nú ekki beint talað um „stjörnuhrap“, því hann hafði svo sem engan „stjörnustatus“ hjá mér, þá bar ég talsverða virðingu fyrir honum. Sem dró verulega úr. Kannski áttan hann slæman dag. En það er nú eiginlega ekki hægt að halda því fram að þetta hafi komið vel út.

    Nema kannski, jú, má segja að umræðan sé alltaf af hinu góða.

    Eftir stendur svo að ég sé engin merki um svindl

 4. Jóhannes skrifar:

  Ekki má gleyma að sumir greinahöfundar hafa starfa af því að framleiða séreignarhugbúnað og er líklega hræddir við hugsun sem stangast á við hans þröngu heimssýn.

  Minnir á margt á suma bókarinnar menn sem gjarnan eru gagnrýndir fyrir svipaða hluti 🙂

  • Svo er þetta alltaf síðasta hálmstráið þegar engin rök eru fyrir hendi – að hjóla í manninn, þegar málefnið er ekkert.

   Takk fyrir það, þetta er alltaf þægileg staðfesting.

   PS. ég vinn reyndar ekki við að framleiða séreignarhugbúnað, þó það skipti auðvitað ekki nokkru máli í þessu samhengi