Posts Tagged ‘svindl’

Dýfur, lyf og annað svindl

Posted: apríl 9, 2015 in Fótbolti
Efnisorð:, , ,

Ég hef gaman af að horfa á góðan fótbolta. Eyði reyndar allt of miklum tíma í að horfa á leiðinlegan fótbolta, eftir að fótboltarásum fjölgaði á heimilinu, en það er önnur saga.

Einhvern veginn finnst mér sem dýfur leikmanna séu í sögulegu hámarki.. kannski er bara verið að grípa fleiri með betri tækni, en þetta er óþolandi og allt, allt of mikið.

Og það sem verra er, margir „spekingar“ tala um að þetta sé nú bara allt í lagi.. mikið undir og leikmenn eigi að gera það sem þeir geti fyrir sitt lið.

Kjaftæði.

Hættið að segja leikmönnum og áhorfendum að þetta sé í lagi. Þetta er svindl. Alveg á sama hátt og að taka ólögleg lyf, fela ás uppi í erminni, stytta sér leið og þar fram eftir götum..

En þar til ekki er tekið á þessu á sama hátt og öðru svindli – og á meðan svona hegðun er afsökuð í bak og fyrir þá breytist auðvitað ekkert.

Er ekki hreinlegast að taka á þessu eins og hverju öðru svindli, svo sem lyfjanotkun? Leikmaður sem sannanlega dýfir sér í leik fái þannig eins til þriggja ára leikmann.

Kyndill eða svindl

Posted: nóvember 17, 2012 in Umræða
Efnisorð:, , ,

Ég gerði að umtalsefni viðtal við talsmann opins hugbúnaðar í Silfri Egils nýlega. Meðal þess  sem ég gagnrýndi, reyndar bara í athugasemdum, var þegar hann kallaði Kindle frá Amazon, „Swindle“, án þess að skýra mál nokkuð frekar.

Ég var sem sagt að gagnrýna það að vera að uppnefna fyrirbæri án nokkurra skýringa. Ekki að hafa skoðun á því hvort Kindle væri svindl fyrirbæri eða ekki.

Ég fékk auðvitað margar athugasemdir, sem allar sneru að því að sannfæra mig um að þetta væri svindl, en enginn nefndi tilefni athugasemdarinnar, þeas. að maðurinn hefði verið að slá um sig með uppnefnum án rökstuðnings.

Þetta tvennt fer kannski mest í taugarnar á mér við almenna umræðu. Það virðist allt í lagi að uppnefna án þess að tilgreina hvers vegna.

Og þegar ég gagnrýni þá hegðun þá eru einu svörin sem ég fæ útskýringar á því hvernig uppnefnið er tilkomið. Enginn ræddi hvort þetta væri boðlegt, þeas. að standa í svona uppnefnum án skýringa.

En gott og vel. Veltum aðeins fyrir okkur hvort Kindle, eða Kyndill, frá Amazon er svindl eða ekki.

Gagnrýnin gengur út á að neytandinn sé ekki að kaupa bækur heldur réttinn til að lesa þær. Amazon geti dregið þær fyrirvaralaust til baka án endurgreiðslu. Nefnt var dæmi um eina bók (1984) og eina konu sem hafði misst allt sitt af kyndlinum.

Konan fékk reyndar leiðréttingu sinna mála og „1984“ (og reyndar „Animal Farm“ líka) voru teknar til baka eftir að í ljós kom að sá sem hafði selt réttinn til Amazon átti engan rétt til að selja. Amazon hefur reyndar gert breytingar í kjölfar gagnrýninnar og ákveðið að taka ekki bækur til baka þrátt fyrir svona mistök.

En hvert er þá svindlið? Að ég sé ekki að kaupa bækur heldur réttinn til að lesa? Það er rétt en ég veit þetta fullvel þannig að það er ekki á nokkurn hátt verið að svindla á mér. Að ég geti ekki lánað kyndilbækur eins og aðrar bækur er skondin röksemd. Fyrir það fyrsta þá er skýrt tekið fram í öllum, (jæja flestum) bókum að þær megi ekki lána. Það fer vissulega enginn eftir þessu, en það er ekki eins og verið sé að taka einhvern „rétt“ af fólki. Þá er hægt að lána og fá lánaðar bækur milli kyndil notenda. Og það er líka hægt að fá aðgang að bókasafni Amazon fyrir til þess að gera lágt mánaðargjald og fá bækur lánaðar án endurgjalds. Þá eru yfir 40.000 bækur ókeypis fyrir hvern sem er. Og svo má alltaf lána kyndilinn sjálfan (en þá fer jú allt safnið í einu).

Eftir stendur að Amazon getur jú mögulega dregið allar bækur til baka. En líkurnar eru í besta falli stjarnfræðilega litlar. Hvers vegna ættu þeir að drepa þessa gullgæs með svona tilgangslausri hegðun? Hver gæti tilgangurinn mögulega verið?

Og já, ekki gleyma, þetta svokallað svindlfyrirtæki leyfir mér líka að lesa það sem ég kaupi í símanum mínum. Og geyma afrit á tölvunni minni. Ljóta „svindlið“, er það ekki??

Þegar eintak af kyndli skilaði sér ekki til mín þá sendi Amazon mér nýtt eintak umhugsunarlaust. Þegar ég settist á kyndilinn minn – já þeir eru brothættari en bækur – þá var mér boðinn nýr á góðum afslætti. Það er ekki að „svindl“ fyrirtækinu að spyrja, eða hvað??

En gott og vel, þetta getur haft sína ókosti.

En þetta hefur marga kosti, miklu meira úrval af bókum, mikið frítt efni, mikið af ódýru efni, efnið skilar sér strax, hægt er að lána (sumar) bækur og þú getur lesið á hvaða tæki sem er. Og það er miklu auðveldara að flytja!

Ég kaupi enn „eigulegri“ bækur á föstu formi, kannski íhaldssemi.

En aðalatriðið er að þetta er valkostur. Neytandi veit fullkomlega að hverju hann gengur. Þess vegna er fráleitt að kalla þetta svindl. Einfaldlega ómerkileg upphlaup.