Hmmm, með hverjum skal halda?

Posted: júlí 2, 2014 in Uncategorized

Ég er aðeins að vandræðast með hverjum ég á að halda með það sem eftir er af HM 2014 í fótbolta.

Íslendingar dottnir út.

Spánverjar dottnir út.

Í getraunaleiknum í vinnunni spáði ég Brasilíu sigri og það myndi telja aðeins í heildarkeppninni þar. Ég hef hins vegar verið vonlaus spámaður að öðru leyti og á varla möguleika jafnvel þó þeir vinni.

Svo setti ég nokkrar krónur á Belgíu fyrir mótið, án þess að hafa í rauninni nokkra trú á þeim, stuðullinn var bara svo freistandi – og stundum gerast jú óvæntir hlutir.

Að öllu jöfnu held ég með því liði sem spilar skemmtilegasta og besta fótboltann.

Í gegnum tíðina hef ég svo líka verið veikur fyrir óvæntum úrslitum, þeas. þegar minni spámenn slá þá stærri úr keppni. Reynslan hefur nú samt kennt mér að það er kannski ekki alltaf svo gaman þegar fram í sækir, leikirnir eru jú oftast skemmtilegri þegar bestu leikmennirnir / liðin eru hvað lengst með. Smálið sem kemst áfram á leiðinlegum varnarleik og því að skora eitt mark eftir að hafa kýlt fram… það er einfaldlega ekki að skila öðru en fleiri leiðinlegum leikjum.

Það hefur vissulega verið svolítið gaman að fylgjast með Kosta ríka, en ég er ekkert viss um að ég vilji sjá þá í úrslitaleiknum.

Ég var mikill aðdáandi Hollendinga á áttunda áratungum en að sama skapi lítill á HM 2010.. og í ljósi þess að þeirra bestu leikmenn eru frekar óheiðarlegir, jafnvel hálfgerðir skúrkar inni á vellinum, þá held ég ekki með þeim.

Frakkar eru með mjög sterkt lið og ef þeir slá Þjóðverja út gætu þeir klárað mótið, heilsteypt lið, en vantar kannski einstaklinga sem skipta máli. En þeir virðast stundum hafa haft minnimáttarkennd gagnvart Þjóðverjum og gætu dottið út næst.

Þjóðverjar hafa aldrei verið í uppáhaldi hjá mér, en liðið þeirra í ár er með þeim skemmtilegri sem hafa spilað fyrir Þýskaland. Liðið er auðvitað ekki í sama gæðaflokki og Spánverjar, en þeir hafa tekið miklum framförum og þeir eiga meira hrós skilið en margir vilja gefa þeim. Þá tekur laumu Arsenal aðdáandinn í mér eftir því að þar eru flestir leikmenn Arsenal og varla verra fyrir sjálfstraustið þar á bæ að hafa sem flesta nýkrýnda heimsmeistara í liðinu.

Belgar eru með ágætis leikmenn en liðið var engan veginn verið að heilla mig fyrr en kannski á móti Bandaríkjamönnum. Margir frábærir leikmenn, en sennilega of margir veikir hlekkir. En það gæti verið gaman að fá heimsmeistara úr óvæntri átt og sennilega eru þeir eina óvænta liðið sem á möguleika.

Nema auðvitað Kólumbía. Þeir eru að spila mjög góðan bolta, svona það sem ég hef séð – sem hefði reyndar mátt vera meira. Ef Kólumbía nær að slá Brasilíu út þá gætu þeir svo sem farið alla leið.

Brasilía hins vegar er sennilega líklegasta liðið til að klára þetta. Þeir hafa ekki engan veginn staðið undir væntingum og mögulega fer taugaspennan með þá í þessu móti. En eftir því sem þeir ná að vinna fleiri leiki minnkar stressið kannski aðeins hjá þeim. En þeir hafa einfaldlega ekki spilað nægilega góðan bolta til að ég haldi neitt sérstaklega með þeim.

Þá er það Argentína. Ég hef einhvern veginn aldrei þolað argentínska landsliðið. Ég er löngu búinn að gleyma hvers vegna. Mögulega vegna þess að þeir voru ákveðnir frumkvöðlir í leikaraskap og öðrum óheiðarleika, svona í minningunni. En þeir eru ekkert verri en flest liðanna í dag. Ágætis lið, frábærir einstaklingar og skemmtilegir leikir. Þar til auðvitað á móti Sviss, eiginlega frekar ráðalausir og lítið að gerast.

Lokað er á athugasemdir.