Posts Tagged ‘hrun’

Hrun – grýlan

Posted: desember 16, 2017 in Umræða
Efnisorð:

Það er varla svo að ég hlusti á fréttatíma án þess að verið sé að gefa í skyn að við stefnum að öðru hruni. Alls kyns fréttir, nú síðast um borðplötur, og umræður um miklar eignir eiga að finna líkingu við tímana fyrir hrun. Og gefa þannig í skyn að við getum átt von á öðru hruni.

Er þetta ekki svolítið eins og að reyna að spá fyrir úrslitum fótboltaleikja út frá veðrinu?

Svo langt sem ég man, þá varð hér hrun vegna innihaldslaus vaxtar bankakerfisins, útrásar þar sem peningum var dælt í íslensku bankana, meðal annars vegna loforða sem engin leið var að standa við… eflaust hjálpaði ekki tilfærsla eigna úr bönkunum. En er eitthvað líkt þessu í gangi? Og ef ekki, er einhver ástæða til að óttast sérstaklega að komið sé að næsta hruni?

Ég er amk. orðinn svo gamall að ég hef oft séð efnahagslegan uppgang án þess að honum fylgi hrun.

Auðvitað er ég enginn hagfræðingur og auðvitað getur vel verið að næsta hrun sé handan við hornið… en ég er ekki að kaupa að þessar upplýsingar bendi til þess.

Hrægammar velkomnir…

Posted: apríl 14, 2015 in Spjall, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég get ekki gert að því að rifja upp…

Fyrir hrun fóru íslensku bankarnir fóru eins og stormsveipur út í hinn stóra heim og lofuðu gulli og grænum skógum (lesist „himinháum vöxtum“) þeim sem vildu fjárfesta og leggja inn á reikninga hjá þeim.

Ég ætla ekki að alhæfa, eflaust voru mismunandi forsendur, mismunandi vel staðið að kynningu og eflaust stóðu margir starfsmanna bankanna í góðri trú.. mögulega hefði meira að segja farið betur ef bara hefði verið farið örlítið hægar í sakirnar á köflum.. þeas. mér finnst óþarfi að fullyrða að öll viðskipti hafi verið glannaskapur.

Allir voru boðnir velkomnir, ekki litið niður á þessa væntanlegu viðskiptavini, hvað þá að talað væri um að berja á þeim. Aldrei heyrði ég talað um hrægamma á þessum tíma og fylgdist ég nú þokkalega vel með.

Og ég veit vel að þetta var tiltölulega fámennur hópur hér á landi sem stóð að þessum viðskiptum.. en þetta voru íslensk fyrirtæki rekin eftir íslenskum lögum.

En núna eftir hrun er sjálfsagt að úthúða þessum fjárfestum, kalla þá hrægamma og tala um að „berja á þeim“, réttur þeirra enginn… peningarnir eru farnir (eða búið að koma þeim í skjól), við getum ekki borgað og þetta eru bara „ljótir kallar“ sem sjálfsagt er að éti það sem úti frýs.

Ekki misskilja, ég hef enga sérstaka samúð með þeim sem hafa atvinnu af að fjárfesta og höfðu ekki fyrir að kanna betur í hverju þeir voru að fjárfesta.

En það truflar mig samt verulega að við komum fram eins og siðlausir tuddar. Við erum svolítið eins og einstaklingur sem fær lán, eyðir í snatri í alls kyns vitleysu og óþarfa.. neitar svo að borga og hótar öllu illu þegar reynt er að rukka.

Það er kannski ekki rétt að alhæfa en mér finnast „varnir“ fyrrum stjórnenda föllnu bankanna einkennast af hreinum og klárum rökleysum. Einhver myndi kalla þetta þrálátt og þreytandi væl, ég er reyndar of kurteis til þess.

Oft heyrist eitthvað á þá leið að gagnanna gegn þeim hafi verið aflað á óleyfilegan hátt. Gott og vel, það getur gert það að verkum, ef rétt er, að þeir sleppi, réttilega, við dóm. Það segir mér hins vegar ekki að þeir hafi ekki gert neitt rangt, þvert á móti staðfestir þetta fyrir mér að þeir hafið einmitt gerst sekir um það sem verið er að saka þá um en fundið leið til að sleppa við refsingu.

Hin bylgjan af „málsvörnum“ er eitthvað á þá leið að ekki sé verið að sækja starfsmenn og stjórnendur bankafyrirtækja til saka í öðrum löndum.

Þetta eru rakalaus þvættingur á mörgum hæðum.

Fyrir það fyrsta þá er nú einmitt verið að sækja forsvarsmenn fjármálafyrirtækja til saka – og dæma – „í öðrum löndum“.

Í öðru lagi þá gætu lög og reglur og umhverfi verið öðru vísi hér en „í öðrum löndum“ – ég þekki svo sem ekki nákvæmlega, mögulega er þetta svipað í Evrópu og hér.

En jafnvel þó fyrri tveir liðir eigi ekki við, þá er einfaldlega ekkert sem segir að framferði bankamanna í öðrum löndum hafi verið eins og hér á landi. Jafnvel þó bankamenn „annarra landa“ hafi haldið sig innan ramma laganna og ekki gerst brotlegir þá er ekkert sem segir að allir íslenskir bankamenn að hafa frítt spil til að brjóta lög hér á landi. Ættu þeir að mega brjóta lög bara vegna þess að þeir vinna í banka?

Ég veit ekki hvort þeir eru sekir eða saklausir í einstaka málum. Hef í fæstum tilfellum einfaldlega skoðað nægilega vel.

En þetta eru skelfilegar rökleysur.