Hrægammar velkomnir…

Posted: apríl 14, 2015 in Spjall, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég get ekki gert að því að rifja upp…

Fyrir hrun fóru íslensku bankarnir fóru eins og stormsveipur út í hinn stóra heim og lofuðu gulli og grænum skógum (lesist „himinháum vöxtum“) þeim sem vildu fjárfesta og leggja inn á reikninga hjá þeim.

Ég ætla ekki að alhæfa, eflaust voru mismunandi forsendur, mismunandi vel staðið að kynningu og eflaust stóðu margir starfsmanna bankanna í góðri trú.. mögulega hefði meira að segja farið betur ef bara hefði verið farið örlítið hægar í sakirnar á köflum.. þeas. mér finnst óþarfi að fullyrða að öll viðskipti hafi verið glannaskapur.

Allir voru boðnir velkomnir, ekki litið niður á þessa væntanlegu viðskiptavini, hvað þá að talað væri um að berja á þeim. Aldrei heyrði ég talað um hrægamma á þessum tíma og fylgdist ég nú þokkalega vel með.

Og ég veit vel að þetta var tiltölulega fámennur hópur hér á landi sem stóð að þessum viðskiptum.. en þetta voru íslensk fyrirtæki rekin eftir íslenskum lögum.

En núna eftir hrun er sjálfsagt að úthúða þessum fjárfestum, kalla þá hrægamma og tala um að „berja á þeim“, réttur þeirra enginn… peningarnir eru farnir (eða búið að koma þeim í skjól), við getum ekki borgað og þetta eru bara „ljótir kallar“ sem sjálfsagt er að éti það sem úti frýs.

Ekki misskilja, ég hef enga sérstaka samúð með þeim sem hafa atvinnu af að fjárfesta og höfðu ekki fyrir að kanna betur í hverju þeir voru að fjárfesta.

En það truflar mig samt verulega að við komum fram eins og siðlausir tuddar. Við erum svolítið eins og einstaklingur sem fær lán, eyðir í snatri í alls kyns vitleysu og óþarfa.. neitar svo að borga og hótar öllu illu þegar reynt er að rukka.

Athugasemdir
  1. Ásmundur skrifar:

    Hrægammanafngiftin þjónar þeim tilgangi að réttlæta að ríkið hagnist um mörg hundruð milljarða á kostnað kröfuhafa við losun hafta.

    Við hrun bankanna töpuðu kröfuhafar stórum hluta eigna sinna. Með setningu neyðarlaga, þar sem innistæður voru gerðar að forgangskröfum, minnkuðu eignir þeirra enn frekar. Það þarf því að finna afsökun fyrir því að enn sé gengið á eign þeirra.

    Kröfuhafar eru auðvitað ekki neinir hrægammar. Í hópi þeirra eru íslenskir lífeyrissjóðir og einstaklingar sem keyptu skuldabréf í bönkunum eða í sjóðum sem fjárfestu í bönkunum.

    Hluti upprunalegra kröfuhafa hafa selt sínar kröfur. Það rýrir ekki rétt þeirra sem keyptu jafnvel þó sumir þeirra séu erlendir vogunarsjóðir. Allra síst réttlætir það að eign upprunalegra eigenda, sem enn eiga sinn hlut, sé aftur stórlega skert með lagasetningu.

    Það á því að reyna að semja við kröfuhafa til að forðast margra ára málaferli. Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í þeim efnum, þrátt fyrir tilmæli kröfuhafa, er óafsakanlegt.