Rökleysur í málsvörnum fyrrum bankastjórnenda

Posted: júlí 6, 2014 in Umræða
Efnisorð:, ,

Það er kannski ekki rétt að alhæfa en mér finnast „varnir“ fyrrum stjórnenda föllnu bankanna einkennast af hreinum og klárum rökleysum. Einhver myndi kalla þetta þrálátt og þreytandi væl, ég er reyndar of kurteis til þess.

Oft heyrist eitthvað á þá leið að gagnanna gegn þeim hafi verið aflað á óleyfilegan hátt. Gott og vel, það getur gert það að verkum, ef rétt er, að þeir sleppi, réttilega, við dóm. Það segir mér hins vegar ekki að þeir hafi ekki gert neitt rangt, þvert á móti staðfestir þetta fyrir mér að þeir hafið einmitt gerst sekir um það sem verið er að saka þá um en fundið leið til að sleppa við refsingu.

Hin bylgjan af „málsvörnum“ er eitthvað á þá leið að ekki sé verið að sækja starfsmenn og stjórnendur bankafyrirtækja til saka í öðrum löndum.

Þetta eru rakalaus þvættingur á mörgum hæðum.

Fyrir það fyrsta þá er nú einmitt verið að sækja forsvarsmenn fjármálafyrirtækja til saka – og dæma – „í öðrum löndum“.

Í öðru lagi þá gætu lög og reglur og umhverfi verið öðru vísi hér en „í öðrum löndum“ – ég þekki svo sem ekki nákvæmlega, mögulega er þetta svipað í Evrópu og hér.

En jafnvel þó fyrri tveir liðir eigi ekki við, þá er einfaldlega ekkert sem segir að framferði bankamanna í öðrum löndum hafi verið eins og hér á landi. Jafnvel þó bankamenn „annarra landa“ hafi haldið sig innan ramma laganna og ekki gerst brotlegir þá er ekkert sem segir að allir íslenskir bankamenn að hafa frítt spil til að brjóta lög hér á landi. Ættu þeir að mega brjóta lög bara vegna þess að þeir vinna í banka?

Ég veit ekki hvort þeir eru sekir eða saklausir í einstaka málum. Hef í fæstum tilfellum einfaldlega skoðað nægilega vel.

En þetta eru skelfilegar rökleysur.

Lokað er á athugasemdir.