Ég styð Ara Trausta

Posted: júní 29, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Ég hef gert upp við mig að ég styð Ara Trausta í forsetaskoningunum.

Ari Trausti hefur einfaldlega kynnt hugmyndir sem mér hugnast best um hlutverk embættisins og hvernig hann vill nálgast það. Hann kemur fyrir sem greindur, heiðarlegur og að hafa burði til að leysa þau mál sem upp kunna að koma.

Mér líst að mörgu leyti vel á Þóru og Herdísi og gæti séð báðar fyrir mér sem forseta. Munurinn er kannski ekki mikill, en á endanum hefur Ari Trausti vinninginn. Ég get tekið heilshugar undir skilaboð Þóru um að hverfa frá átakastjórnmálum en sú barátta væri meira virði fyrir nýja stjórnmálaflokka en forsetaframbjóðanda. Þá truflar mig að (ég held) eina málefnið sem Þóra hefur tekið afstöðu til er að – þrátt fyrir trúleysi – vill hún halda kirkjunni sem ríkiskirkju.

Framganga Ólafs Ragnars fyrir hrun er næg ástæða til að þakka fyrir unnin störf og finna eftirmann. En þar fyrir utan er ég mjög ósáttur við framgöngu hans og stuðningsmanna hans í kosningabaráttunni. Mér finnst vond tilhugsun að svona vinnubrögð skili mönnum þetta stóru embætti.

Hannes kemur svo sem þokkalega vel fyrir en hefur einhvern veginn ekki náð að koma til skila hvernig forseti hann yrði. Kannski þarf einfaldlega meiri kraft í kynningar til að koma svona til skila, ósanngjarnt..

Andrea virðist vera vel meinandi – með „stórt hjarta“ – en hún hefur einfaldlega látið of margt frá sér fara sem ég er ekki sáttur við.

Lokað er á athugasemdir.