Ögmundur og börnin

Posted: október 9, 2014 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, , ,

Ég greip nokkra búta úr umræðum um frumvarp til að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum í fréttum Rúv í gær.. ég ætlaði nú reyndar að láta það gott heita sem ég hef skrifað um þetta mál – en ég var eiginlega enn pirraður yfir rökleysunum þegar ég vaknaði í morgun.

Ég heyrði Ögmund Jónasson tala af miklu yfirlæti niður til flutningsmanna, hvort þeir væru „börn“ og að auðvitað myndu kaupmenn stilla rauðvíninu upp við hliðina á steikunum (man ekki orðrétt).

Fyrir það fyrsta.. kannski hefur Ögmundur ekki komið til útlanda, en ég hef oft verið á flakki, það hefur alveg komið fyrir að ég hafi farið í matvöruverslanir en ég man ekki til þess að rauðvíni hafi verið stillt upp hjá kjötinu. Það hefur (eðlilega) verið með öðrum drykkjarvörum. Kannski þekkist þetta, ég ætla ekki að fullyrða, en þetta er að minnsta kosti ekki vaninn.. ekki frekar en að kaupmenn stilli (óhollum gossullinu) upp hjá kjötinu í dag.

Svona yfirlæti er auðvitað þreytandi, en það fyllir mælinn þegar það er byggt á fáfræði.

Þetta er auðvitað ekkert aðalatriði.

Aðalatriðið er að jafnvel þó kaupmenn myndu stilla víninu upp hjá kjötinu þá er ég alveg fullfær um að taka ákvörðun sjálfur um hvað ég kaupi og hvað ég kaupi ekki. Ögmundur og/eða aðrir þingmenn þurfa einfaldlega ekkert að hafa vit fyrir mér. Við erum ekki börn. Takk fyrir umhyggjuna, en sama og þegið.

Annar þingmaður talaði um að áfengi myndi flæða hér ef breytingin yrði samþykkt. Já, já, eins og áfengi flæðir í þeim löndum Evrópu sem hafa leyft sölu áfengis í matvöruverslunum..

Enn einn talaði af alvöru um að þetta væri „lýðheilsumál“. Mögulega. En í ljósi þess að við Íslendingar erum ekki fyrirmyndir annarra þjóða þegar kemur að áfengisneyslu – og aðrar þjóðir eru ekki að fara að taka upp þann sið Íslendinga að selja áfengi í ríkisreknum sérverslunum – þá er kannski vert að velta fyrir sér hvort núverandi fyrirkomulag sé einmitt „lýðheilsuvandamál“. Og það væri til mikilla bóta að hætta að umgangast áfengi með þeim Molbúahætti sem við gerum.

PS. nei mér er alls ekkert illa við Ögmund, er oft sammála honum (ja, amk. kemur það fyrir), hann er sjálfum sér samkvæmur og hans afstaða og rökin fyrir henni eru yfirleitt skýr – ég er einfaldlega ósammála í þetta sinn.

Athugasemdir
  1. bardi skrifar:

    Villtu bjór væna????

  2. já, takk! einhvern veginn finnast mér rök bjórandstæðinganna eins og afturgöngur í þessari umræðu