Posts Tagged ‘kristin gildi’

Ég er enn að velta vöngum yfir þessum „kristnu gildum“ sem sumir Sjálfstæðismenn vildu hafa til hliðsjónar við lagasetningu.

Kannski er það vegna þess að ég fæ engin svör um hver þessi kristnu gildi eru, þeas. hvaða gildi eru þarna sem ekki finnast í öðrum trúarbrögðum og/eða lífsskoðunum og skipta máli. Og hef ég nú mikið spurt.

Við getum strax útilokað verið sé að vísa til boðorðanna tíu – þá hefði verið talað um að byggja lagasetningar á „gyðinglegum gildum“.

Eins er strax hægt að útiloka almennt siðferði og náungakærleik og gullnu regluna – þetta er allt saman miklu eldra en kristnin – og finnst hjá flestum siðuðum lífsskoðunarfélögum.

En hvað einkennir kristnina sérstaklega? Það er rétt að taka fram að ég er ekki að gera lítið úr því góða og jákvæða sem kristnin hefur þegið frá öðrum hugmyndaheimum, þar er margt gott og gilt. En hvað er sérstakt?

Jú, meyfæðingin, upprisan og að bjóða hinn vangann. Fyrri tvö atriðin eru kannski engan veginn heldur einkennandi fyrir kristnina. Og það sem verra er, það er varla hægt að setja einhver lög sem byggja á upprisu eða meyfæðingu. Eða ég vona að minnsta kosti að það hafi ekki verið hugmyndin í þessu tilfelli.

Þá stendur eftir þetta með að bjóða hinn vangann. Ég man ekki til að þetta komi beinlínis annars staðar, má auðvitað vera minn misskilningur og/eða vanþekking.

En ef rétt er þá vilja þeir sem þetta samþykktu setja í lög á sá sem er sleginn utanundir eigi að bjóða hinn vangann..

PS. Mér fannst nú rétt að láta þessar vangaveltur liggja á milli hluta fram yfir kosningar.

Ég hélt að vinur minn væri að gera grín að mér þegar hann sagði við mig í hádeginu að Sjálfstæðisflokkurinn hefði samþykkt ályktun þess efnis að það ætti að hafa kristin gildi að leiðarljósi við lagasetningar. Við höfum ólíkar skoðanir á trúmálum og þetta hefði verið dæmigert skot. Svo var þetta víst fúlasta alvara. Að minnsta kosti í einhverja klukkutíma.

Reyndar var setningin eitthvað á þá leið að hafa skyldi kristin gildi að leiðarljósi þegar það ætti við! Sem gerir setninguna fullkomlega marklausa, það má einfaldlega ákveða í hvert skipti að þau eigi aldrei við. Svona eins og ákvæði um að mála skulu öll hús í bænum appelsínugul þegar það á við.

Hitt er svo aftur að það hefur engin getað svarað mér, þrátt fyrir ítrekaðar spurningar, hver þessu kristnu gildi eru og hver þeirra skera sig frá svona almennu siðferði – gott ef ekki eftir síðasta landsfund sama flokks.

Þannig að setning þess efnis að hafa skuli eitthvað sem enginn getur sagt hvað er að leiðarljósi, bara þegar hentar, er fullkomlega marklaust hjal.