Posts Tagged ‘Ingólfur Júlíusson’

Sex á tíu

Posted: júlí 15, 2015 in Tónlist
Efnisorð:, , ,

Við Fræbbblar spiluðum í Hörpunni, 28. febrúar 2013, til stuðnings Ingólfi Júlíussyni.

Viktor Orri tók okkur upp á videó og við fengum hljóðið frá starfsmönnum Hörpunnar.

Annar gítarleikari okkar Fræbbbla, Ríkharður H. Friðriksson, hefur nú hljóðblandað þetta og við settum hljóðið við myndirnar sem Viktor tók.

Árangurinn má sjá á Fræbbblarnir í Hörpu – Sex á tíu.

Þetta eru hráar upptökur, engu er bætt við, ekkert er tekið út og engin hlé eru falin.

Sex lög á rétt rúmlega tíu mínútum.

Við erum að minnsta kosti nokkuð sátt. Auðvitað eru einhverjir minni háttar hnökrar í spilamennsku og söng. Og hljóðið var auðvitað ekki tekið upp með útgáfu í huga.

Lögin eru:

 • CBGB’s
 • Ljóð
 • Bjór
 • Judge a pope just by the cover
 • Hippar
 • Æskuminning

Þarna spiluðu:

 • Guðmundur Gunnarsson – trommur
 • Helgi Briem – bassi
 • Arnór Snorrason – gítar, söngur
 • Ríkharður H. Friðriksson – gítar
 • Valgarður Guðjónsson – söngur, gítar
 • Iðunn Magnúsdóttir – söngur
 • Brynjar Arnardóttir – söngur
 • Kristín Reynisdóttir – söngur

Og eins og einhver sagði við okkur eftir hljómleikana, „Þetta var fínt hjá ykkur, en þurfið þið að gaufa svona mikið á milli laga?“

En fínt að birta þetta nú þegar upptökur á nýju plötunni okkar fara af stað í þriðja sinn.

Ingólfur Júlíusson

Posted: apríl 23, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Það voru sorgarfréttir sem við fengum í gær að Ingólfur Júlíusson, ljósmyndari og tónlistarmaður með ansi miklu meiru væri, látinn.

Þetta kom óneitanlega talsvert á óvart, því þrátt fyrir að það hefði verið ljóst um nokkurn tíma að þetta yrði erfitt voru vonir um að hann ætti einhverja mánuði, jafnvel ár eftir.

Ég kynntist Ingólfi að mestu í gegnum Árna Daníel, bróður hans, og svo auðvitað í gegnum Q4U… þá vinnur Monica með vinkonum okkar þannig að snertifletirnir voru nokkrir.

Mig skortir nú aðeins færni til að lýsa Ingólfi svo vel sé – eðaldrengur sem alltaf var gaman að hitta – einlægur og áhugasamur um allt sem hann tók sér fyrir hendur – og alltaf að leita að jákvæðu hliðinni.

Ég vona að það sé í lagi að birta myndbrot sem sonurinn, Viktor Orri, tók af þakkarávarpi Ingólfs í Norðurljósum Hörpunnar, ógleymanleg stund… 

Samúðarkveðjur frá okkur öllum hér til fjölskyldu, ættingja og vina.

Við Fræbbblar tókum þátt í styrktartónleikum fyrir Ingólf Júlíusson í kvöld í Norðurljósasal Hörpu.

Fyrir það fyrsta langar mig að þakka þeim sem stóðu að því að skipuleggja kvöldið fyrir frábært starf, Sillu og Rósu og ég gleymi væntanlega einhverjum. Ekki síður þeim Berg og Gumma og Brynjari og Árna sem sáu um hljóð og græjur, Helgi og Kuklarar sáu svo um að dreifa þessu í beinni útsendingu. Og auðvitað Herði Torfa sem var kynnir og öllum sem komu fram.

Eftir stendur minningin um mjög undarlegt kvöld – sérkennileg blanda af stórkostlegum hljómleikum og skemmtiatriðum annars vegar og ótrúlega sorglegri baráttu við illvígan sjúkdóm hins vegar.

Fyrirfram var ekki vitað hvort Ingóflur hefði heilsu til að mæta, en þegar leit út fyrir að það myndi ganga, spurðist út að hann ætti að forðast að hitta fólk, myndi sennilega sitja inni hjá ljósamanni allt kvöldið – og sérstaklega var tekið fram að ekki ætti að vera að faðma hann af ótta við smit.

En það er kannski einkennandi fyrir Ingólf að hann faðmaði og kyssti alla í bak og fyrir – og gerði grín að sér og sinni stöðu í þakkarræðunni í lokin.

Það er auðvitað útilokað að setja sig í spor Ingólfs og hans fjölskyldu… ég vona enn að þróunin snúist við – auðvitað aðallega fyrir Ingólf og fjölskylduna, en líka fyrir okkur hin.

En….

Ég náði rétt í opnunaratriðið, Óp hópurinn lagði línurnar fyrir stemmingu kvöldsins.

Svo kom Nóra, flott hljómsveit sem var skipuð að miklu leyti frændfólki Ingólfs.. þau og gáfu til dæmis út „Er einhver að hlusta?“ fyrir nokkrum árum, lög þar detta enn öðru hverju í spilunarlistana hjá mér.

Hrafnar eru blanda af fyrrverandi Pöpum og Logum, bæði innfæddum Vestmannaeyingum og eins og þeir lýstu sjálfir, AFP (AðFlutt Pakk), mjög flott dagskrá hjá þeim.

KK heillaði svo meira að segja erlenda gesti, sem skildu ekki orð.

Og þeir hlógu líka að Ara Eldjárn. Ari er, held ég, ekki bara okkar fyndnasti uppistandari heldur finnst mér ólíklegt að það finnist annars staðar skemmtikraftur sem toppar hans hæfileika.

Nýdönsk komu þar á eftir, verulega skemmtileg viðbót við hljómleikana og vel gert hjá þeim.

Hellvar eru ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og hafa sennilega aldrei verið betri, ég náði ekki hver var að syngja með þeim í fyrra laginu, en bæði lögin frábær. Rétt þegar við Fræbbblar vorum mættir með þrjá gítara þurftu þau að toppa okkur og mæta með fjóra.

Ég rétt náði byrjuninni hjá Bodies, fór svo að taka til gítar og snúrur og stilla – fannst ég vera eldsnöggur en þeir voru samt búnir með sitt efni þegar ég kom aftur – en treysti því að þeir hafi verið flottir, amk. hafi þeir verið eitthvað líkir því sem þeir voru á Rokk í Reykjavík 2.0.

Q4U tóku svo fjögur lög og hápunktur kvöldsins var (eiginlega allt of snemma) þegar Ingólfur mætti og tók lokalagið með þeim.

Ég held að okkur Fræbbblum hafi gengið ágætlega, að minnsta kosti eins og til stóð.. eina athugasemdin sem ég fékk var frá Jóni Ólafs, eitthvað á þessum nótum, „mjög flott hjá ykkur en þið þurfið aðeins að vinna í þessu gaufi á milli laga“.

Dimma átti svo síðasta atriðið, sérstaklega vel heppnað atriði þegar Hljómeyki tók lokalagið með þeim.

Ingólfur Júlíusson, ljósmyndari, gítarleikari og ég-veit-ekki-hvað hefur barist við erfiðan sjúkdóm í nokkra mánuði.

Ofan á alla erfiðleikana og ofan á allt það álag fylgir svona veikindum þá hefur þetta komið illa niður á fjárhag heimilisins.

Ingólfur hefur verið einstaklega hjálplegur við fjölskyldu, vini, kunningja og þess vegna hálf ókunnuga í gegnum tíðina – og nú er komið að okkur að styrkja Ingólf.

Fimmtudagskvöldið 28. febrúar verða hljómleikar í Norðurljósasal Hörpu til stuðnings Ingólfi.

Þarna koma fram:

 • Ari Eldjárn
 • Bodies
 • Dimma
 • Fræbbblarnir
 • Hellvar
 • Hljómeyki
 • Hrafnar
 • Hörður Torfason
 • KK
 • Nóra
 • Nýdönsk
 • ÓP-hópurinn
 • Q4U

sem í sjálfu sér er nægilega góð ástæða til að mæta.

En þegar við bætist að allir þeir sem koma fram gefa sínu vinnu og Ingólfur og fjölskylda njóta góðs af þá er þetta auðvitað skyldumæting.

Fimmtudagskvöldið 28. febrúar verða haldnir hljómleikar í Norðurljósum Hörpu til styrktar Ingólfi Júlíussyni sem barist hefur við bráðahvítblæði síðustu mánuði. Veikindin hafa reynst Ingólfi og fjölskyldu fjárhagslega erfið og hafa fjölskylda og vinir sameinast um að standa að þessum styrktarhljómleikum fyrir þau.

Við Fræbbblar tökum (að sjálfsögðu) þátt ásamt fjölda annarra tónlistarmanna og skemmtikrafta. Ég held satt að segja að það hafi tekist einstaklega vel til að setja upp bæði fjölbreytta og eftirminnilega dagskrá. Nánar um það þegar nær dregur.

Það gefa allir sína vinnu og tekjurnar renna óskiptar til Ingólfs og fjölskyldu.. ef einhver kemst ekki má styðja við þau með því að leggja inn á bankareikning 0319-26-002052, kennitölu 190671-2249.

Nánar um viðburðinn á http://www.facebook.com/events/354810194632973/.

Miðasala er hafin á http://www.harpa.is/midasala/framundan/nr/2374.