Posts Tagged ‘Hellvar’

Við Fræbbblar spiluðum á afmælishátíð Mosa frænda á Gamla gauknum í gær.

Stórskemmtileg hljómsveit, Skelkur í bringu, byrjaði… þau voru eiginlega best í örstuttu lögunum, smá „leikhús“ kryddar þetta skemmtilega hjá þeim… minntu mig kannski eilítið á Tiger Lillies, þó þau hljómi auðvitað ekkert svipað. Saktmóðigur kom næst, þéttir að vanda og eiginlega nákvæmlega eins og þeir eiga að vera. Okkur Fræbbblum gekk, að ég held, ágætlega… að minnsta kosti skemmti ég mér vel og fann ekki að áheyrendum leiddist tiltakanlega. Mosi frændi er líka með sérstæðustu hljómsveitum „í bænum“, við spiluðum með þeim á Rokk í Reykjavík 2.0 fyrir ári.. og kannski finnst mér skemmtilegast að heyra þá spila eigin útgáfur af annarra manna efni, mjög fyndið að heyra gömlu lögin í þeirra útgáfu. Hellvar kláraði svo kvöldið og minnti á hvers vegna þau eru ein af mínum uppáhaldshljómsveitum.. ekki á þeim að heyra að þau hefðu ekki náð einni einustu æfingu fyrir kvöldið.

En svona í stuttu máli, stórskemmtilega blanda af hljómsveitum úr öllum áttum.

Og ekki gleyma staðnum, Gamla gauknum, sem er eiginlega uppáhaldsstaðurinn okkar fyrir spilamennsku – góð aðstaða fyrir hljómsveitir, fínar græjur á staðnum og topp hljóðmaður.

Við Fræbbblar tókum þátt í styrktartónleikum fyrir Ingólf Júlíusson í kvöld í Norðurljósasal Hörpu.

Fyrir það fyrsta langar mig að þakka þeim sem stóðu að því að skipuleggja kvöldið fyrir frábært starf, Sillu og Rósu og ég gleymi væntanlega einhverjum. Ekki síður þeim Berg og Gumma og Brynjari og Árna sem sáu um hljóð og græjur, Helgi og Kuklarar sáu svo um að dreifa þessu í beinni útsendingu. Og auðvitað Herði Torfa sem var kynnir og öllum sem komu fram.

Eftir stendur minningin um mjög undarlegt kvöld – sérkennileg blanda af stórkostlegum hljómleikum og skemmtiatriðum annars vegar og ótrúlega sorglegri baráttu við illvígan sjúkdóm hins vegar.

Fyrirfram var ekki vitað hvort Ingóflur hefði heilsu til að mæta, en þegar leit út fyrir að það myndi ganga, spurðist út að hann ætti að forðast að hitta fólk, myndi sennilega sitja inni hjá ljósamanni allt kvöldið – og sérstaklega var tekið fram að ekki ætti að vera að faðma hann af ótta við smit.

En það er kannski einkennandi fyrir Ingólf að hann faðmaði og kyssti alla í bak og fyrir – og gerði grín að sér og sinni stöðu í þakkarræðunni í lokin.

Það er auðvitað útilokað að setja sig í spor Ingólfs og hans fjölskyldu… ég vona enn að þróunin snúist við – auðvitað aðallega fyrir Ingólf og fjölskylduna, en líka fyrir okkur hin.

En….

Ég náði rétt í opnunaratriðið, Óp hópurinn lagði línurnar fyrir stemmingu kvöldsins.

Svo kom Nóra, flott hljómsveit sem var skipuð að miklu leyti frændfólki Ingólfs.. þau og gáfu til dæmis út „Er einhver að hlusta?“ fyrir nokkrum árum, lög þar detta enn öðru hverju í spilunarlistana hjá mér.

Hrafnar eru blanda af fyrrverandi Pöpum og Logum, bæði innfæddum Vestmannaeyingum og eins og þeir lýstu sjálfir, AFP (AðFlutt Pakk), mjög flott dagskrá hjá þeim.

KK heillaði svo meira að segja erlenda gesti, sem skildu ekki orð.

Og þeir hlógu líka að Ara Eldjárn. Ari er, held ég, ekki bara okkar fyndnasti uppistandari heldur finnst mér ólíklegt að það finnist annars staðar skemmtikraftur sem toppar hans hæfileika.

Nýdönsk komu þar á eftir, verulega skemmtileg viðbót við hljómleikana og vel gert hjá þeim.

Hellvar eru ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og hafa sennilega aldrei verið betri, ég náði ekki hver var að syngja með þeim í fyrra laginu, en bæði lögin frábær. Rétt þegar við Fræbbblar vorum mættir með þrjá gítara þurftu þau að toppa okkur og mæta með fjóra.

Ég rétt náði byrjuninni hjá Bodies, fór svo að taka til gítar og snúrur og stilla – fannst ég vera eldsnöggur en þeir voru samt búnir með sitt efni þegar ég kom aftur – en treysti því að þeir hafi verið flottir, amk. hafi þeir verið eitthvað líkir því sem þeir voru á Rokk í Reykjavík 2.0.

Q4U tóku svo fjögur lög og hápunktur kvöldsins var (eiginlega allt of snemma) þegar Ingólfur mætti og tók lokalagið með þeim.

Ég held að okkur Fræbbblum hafi gengið ágætlega, að minnsta kosti eins og til stóð.. eina athugasemdin sem ég fékk var frá Jóni Ólafs, eitthvað á þessum nótum, „mjög flott hjá ykkur en þið þurfið aðeins að vinna í þessu gaufi á milli laga“.

Dimma átti svo síðasta atriðið, sérstaklega vel heppnað atriði þegar Hljómeyki tók lokalagið með þeim.