Afmæli Mosa frænda

Posted: maí 9, 2013 in Tónlist
Efnisorð:, , , , ,

Við Fræbbblar spiluðum á afmælishátíð Mosa frænda á Gamla gauknum í gær.

Stórskemmtileg hljómsveit, Skelkur í bringu, byrjaði… þau voru eiginlega best í örstuttu lögunum, smá „leikhús“ kryddar þetta skemmtilega hjá þeim… minntu mig kannski eilítið á Tiger Lillies, þó þau hljómi auðvitað ekkert svipað. Saktmóðigur kom næst, þéttir að vanda og eiginlega nákvæmlega eins og þeir eiga að vera. Okkur Fræbbblum gekk, að ég held, ágætlega… að minnsta kosti skemmti ég mér vel og fann ekki að áheyrendum leiddist tiltakanlega. Mosi frændi er líka með sérstæðustu hljómsveitum „í bænum“, við spiluðum með þeim á Rokk í Reykjavík 2.0 fyrir ári.. og kannski finnst mér skemmtilegast að heyra þá spila eigin útgáfur af annarra manna efni, mjög fyndið að heyra gömlu lögin í þeirra útgáfu. Hellvar kláraði svo kvöldið og minnti á hvers vegna þau eru ein af mínum uppáhaldshljómsveitum.. ekki á þeim að heyra að þau hefðu ekki náð einni einustu æfingu fyrir kvöldið.

En svona í stuttu máli, stórskemmtilega blanda af hljómsveitum úr öllum áttum.

Og ekki gleyma staðnum, Gamla gauknum, sem er eiginlega uppáhaldsstaðurinn okkar fyrir spilamennsku – góð aðstaða fyrir hljómsveitir, fínar græjur á staðnum og topp hljóðmaður.

Lokað er á athugasemdir.