Brauðrist með opnum hugbúnaði

Posted: maí 9, 2013 in Umræða
Efnisorð:, ,

Mér fannst svolítið skondið að fylgjast með viðbrögðum nokkurra ágætra félaga þegar tilkynnt var að Alþingi hefði ákveðið að kaupa iPad spjaldtölvur fyrir þingmenn.

Nú er ég enginn sérstakur aðdáandi Apple, en ekkert sérstaklega uppsigað við fyrirtækið heldur, ef út í það er farið. Ég nota iPod fyrir tónlistina, Android síma og Windows á tölvunni – allt eftir því hvað mér hentar best. Svo því sé haldið til haga þá veit ég ekkert hvaða kröfur voru gerðar þegar tegund spjaldtölvu var valin og þar af leiðandi get ég ekkert sagt um hvað ég hefði valið.

En mér fundust viðbrögðin stundum yfirdrifin, aðallega frá þeim sem tala máli opins hugbúnaðar. Alþingi háð stöðluðu og lokuðu kerfi frá „ljótum köllum“ í útlandinu.

Opinn hugbúnaður hefur sína kosti og sína galla. En stundum skiptir þetta engu máli. Það er einfaldlega verið að velja verkfæri – og það fyrir notendur sem hafa ekki nokkurn áhuga á undirliggjandi tækni eða þörf fyrir að skilja hana, hvað þá að geta átt við tækið.

Þetta er svona eins og að kaupa brauðrist. Það sem skiptir máli er að hún geti ristað brauð, ekki hvaðan stýringarnar koma eða hvað vörumerkið heitir.

Lokað er á athugasemdir.