Snjóhengjutregi, nr. 1

Posted: maí 10, 2013 in Umræða
Efnisorð:

„Tregi“ vísar hér ekki til íslenskunar á tónlistarstefnu og hugarfari sem í enskumælandi löndum er gjarnan kallað „blues“ heldur er ég eitthvað tregur þegar kemur að títtnefndri snjóhengju. Og þykist ég nú ekki vera neitt sérstaklega tregur svona dags daglega – ég á alveg mín augnablik af gáfulegum hugsunum, ef út í það er farið. Held ég. Vona ég.

En stundum er gott að setja hlutina aðeins í annað samhengi. Gefum okkur að við fjölskyldan höfum veitt fyrirtæki aðstöðu, jafnvel skrifað upp á eitthvað um að allt væri í stakasta lagi og það hafi verið okkar hlutverk að hafa eftirlit með þeim, ég hafi þess vegna verið stjórnarformaður. Og þegar viðskiptavinir leituðu ráða og upplýsinga hjá okkur þá fullvissuðum við þá um að allt væri í stakasta lagi. Framkvæmdastjórar og annað starfsfólk sótti peninga út um víðan völl, segjum 100 milljónir, fjárfesti í tómri vitleysu og keyrði fyrirtækið í gjaldþrot á stuttum tíma. Og lítið hefur spurst til þessara framkvæmdastjóra, nema hvað að þeir senda öðru hverju frá sér tilkynningar um að ýmist komi þeim þetta ekkert við, fyrirtækið hafi ekkert farið í gjaldþrot eða þetta hafi allt verið einhverjum öðrum að kenna.

En…

Þeir sem lánuðu fyrirtækinu gera nú kröfu á okkur. Við sögðum að allt væri í lagi og ég var stjórnarformaður og skrifaði upp á einhverja pappíra. Við eigum auðvitað ekki möguleika á að borga þessar 100 milljónir. En kröfuhafarnir vilja sitt, þeim liggur ekkert á og hafa margoft sýnt biðlund til að ná sínu fram.

Nú eru komnar upp hugmyndir um að við förum fram á að kröfuhafarnir afskrifi megnið af þessum kröfum, jafnvel 75%. Sumir vilja meira að segja beita alls kyns bolabrögðum.

Og, gott og vel, það munar auðvitað miklu að skulda bara 25 milljónir í stað 100 milljóna, þó það yrði erfitt, ef ekki nánast vonlaust að borga.

Þeir sem halda því fram að það sé ekkert mál að fá afskriftir, eru líka farnir að tala fjálglega um hvað við eigum að gera við peningana sem við fáum þegar hluti skuldanna er afskrifaður.

Kemur þá áðurnefndur tregleiki til sögunnar. Ég er kannski ekkert sérstaklega sleipur í bókhaldsbrellum, en hvernig geta afskrifaðar skuldir, allt í einu breyst í fulla vasa af seðlum?

Athugasemdir
 1. Einar Karl skrifar:

  Dæmið er kannski ekki alveg rétt, ef ég skil þetta rétt! Það er búið að afskrifa, eftir standa eignir, sem erlendir eigendur hafa takmarkaðan áhuga á að eiga til langs tíma. Ef ég skil rétt.

  Við getum prófað að búa til annað dæmi. Segjum sem svo að á uppgangsárum hafi húsfélagið þitt fjárfest í forláta tölvustýru sjálfvirku trampólíni, sem kostaði 10 milljónir. Nágranni þinn sem er útlenskur og vill flytja til útlanda vill selja sinn hlut í græjunni, og húsfélagið þarf að kaupa hann út.

  Þið semjið við manninn um að kaupa hans hlut, sem er 3 milljón króna virði, á 300.000 kr. þ.e.a.s. með 90% afslætti.

  Þá má vissulega segja að þið hafið „grætt“ 2.700.000 kr. En þið sjáið þá peninga ekki nema einhver ANNAR kaupi af ykkar tölvutrampólínið.

  Ekki alveg sambærilegt kannski, en sýnir eina hlið málsins.

 2. OK, kannski einfaldaði ég of mikið, en hvaðan kemur skylda húsfélagsins að kaupa? Og eins og þú segir, gróðinn er enginn í vasa…

 3. Einar Karl skrifar:

  Nei akkúrat, húsfélaginu okkar (ríkissjóði) ber ekki skylda til að kaupa snjóhengjuna, en þar sem við notum trampólín (krónur) sem gjaldmiðil þá viljum við ekki að þeir bara dömpi heilli vöruskemmu af trampólínum á markað svo verðið hríðfalli… en hvort sé hægt að leysa vandann sársaukalaust með því að smá mjatla trampólínum á markað veit ég ekki, vandinn er samt sem áður sá held ég að það er til allt of mikið af trampólínum (krónum).

  • Svo er reyndar næsta hugsun, gengur kannski ekki vel upp í trampólínum, og set sem sérstaka færslu, að kannski er besta leiðin að þeir vilji einmitt eiga trampólínuna áfram..

   En aðalatriðið í þessari færslu er að við erum aldrei að fá einhverja peninga í vasann, amk. sé ég ekki hvernig þeir koma til.

 4. Einar Karl skrifar:

  Alveg sammála. Við hljótum að þurfa að selja einhverjum „afsláttarvarninginn“ á fullu verði, til að raunverulega geta litið á það sem fundið fé.

  Ég orðaði þetta svona í smá pistli sem ég skrifaði á ensku:

  Can we convince foreign equity funds that THEIR krónur are only worth a fraction of their rate, while still maintaining faith in the face value of OUR krónur?

  http://icelandicmiracle.blogspot.com/2013/05/progressive-fairytales.html

 5. Rósa Björg Ólafsdóttir skrifar:

  Um daginn fannst mér ég skilja þetta eftir lestur þessarar greinar http://visir.is/island-og-erlendir-krofuhafar/article/2013704139985

  og hér eru meiri „díteilar“ sem ég skildi nú ekki alveg…

  http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/04/09/kronueignir-umraeddur-hagnadur-langt-fra-thvi-ad-vera-i-hendi-vogunarsjodir-geta-verid-tholinmodir/

  Endilega komdu þessu á mannamál, allt í einu skil ég þetta ekki aftur. Eða eru þetta raunverulegar eignir sem verða eftir þegar kröfuhafar fá bara hluta. Við/ríkissjóður getur svo nýtt (selt) þessar eignir og „búmm“ – peningur í rikiskassann?

  • (færslan fór í bið vegna tveggja tengla, var að sjá…)

   En kannski / sennilega hef ég einfaldað þetta of mikið.. enda var ég að vonast til að sjá einhverjar skýringar á því hvernig þetta ætti að breytast í peninga.

   Ég var að setja inn aðra grein, skoða þessar greinar og bæti kannski þeirri þriðju við. Þeas. ef þetta ruglar mig ekki endanlega 🙂