Posts Tagged ‘Snjóhengja’

Snjóhengjutregi, nr. 2

Posted: maí 11, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég las einhverju sinni smásögu um mann sem var haldið föngnum í þorpi árum saman vegna þess að þorpsbúar þurftu á honum að halda. Hann átti sér þá ósk heitasta að sleppa, en þegar hann var leystur úr haldi komst hann að því að hann vildi hvergi annars staðar vera.

Ég var að velta snjóhengjunni fyrir mér í færslu um daginn, ég fékk svo sem ekki miklar skýringar á því hvernig samningar við kröfuhafa snjóhengju eigenda eigi að skila okkur fúlgum, Einar Karl og Rósa Björg sendu inn ágætis ábendingar, líkast til var ég að einfalda þetta of mikið, en sé ekki að það breyti niðurstöðunni.

Hinn hlutinn af snjóhengju vandanum er – og aftur með fyrirvara að ég sé að skilja rétt – að eigendur þessara krafna eru að stórum hluta erlendir fjárfestar sem vilja fyrir alla muni koma eigum sínum úr landi. Ef það á að ganga eftir þurfa þeir að kaupa mikið af gjaldeyri sem aftur verður til þess að gengi krónunnar myndi lækka. Það virðist reyndar gleymast í þessu samhengi að þegar peningum var dælt inn í landið var gengi krónunnar allt of hátt og öllum var sama.

Burtséð frá því, þetta eru fjárfestar sem vilja ávaxta sitt pund – látum liggja á milli hluta hvað okkur finnst um það – og kannski ekki eins einsleitur hópur og margir vilja láta, látum það líka liggja á milli hluta.

En hvers vegna vilja þessir fjárfestar endilega fara með peningana úr landi? Nú eru væntanlega betri tækifæri hér en víða annars staðar til fjárfestinga, við erum eitthvað á undan mörgum öðrum þjóðum að vinna okkur út úr efnahagsvandanum og tækifærin virðast liggja víða.

Getur verið að ástæða þess að þeir vilja komast með eignirnar séu einfaldlega hömlur á viðskiptaumhverfi? Er mögulegt að sú aðgerð að takmarka flutning á fjármagni úr landi sé aðal ástæða þess að kröfuhafarnir vilji flytji fé úr landi?

Getur verið að sagan sem ég vísaði til í upphafi eigi við um snjóhengjuna? Ef svo er… þá efast ég um að hugmyndir um að berja manninn með kylfu og kasta honum út séu endilega ráðlegasta leiðin?

Eins og fyrri færslan þá er þetta skrifað með fyrirvara, kannski er ég einfaldlega of tregur til að skilja málið, en það væri þá vel þegið að fá svör.

Snjóhengjutregi, nr. 1

Posted: maí 10, 2013 in Umræða
Efnisorð:

„Tregi“ vísar hér ekki til íslenskunar á tónlistarstefnu og hugarfari sem í enskumælandi löndum er gjarnan kallað „blues“ heldur er ég eitthvað tregur þegar kemur að títtnefndri snjóhengju. Og þykist ég nú ekki vera neitt sérstaklega tregur svona dags daglega – ég á alveg mín augnablik af gáfulegum hugsunum, ef út í það er farið. Held ég. Vona ég.

En stundum er gott að setja hlutina aðeins í annað samhengi. Gefum okkur að við fjölskyldan höfum veitt fyrirtæki aðstöðu, jafnvel skrifað upp á eitthvað um að allt væri í stakasta lagi og það hafi verið okkar hlutverk að hafa eftirlit með þeim, ég hafi þess vegna verið stjórnarformaður. Og þegar viðskiptavinir leituðu ráða og upplýsinga hjá okkur þá fullvissuðum við þá um að allt væri í stakasta lagi. Framkvæmdastjórar og annað starfsfólk sótti peninga út um víðan völl, segjum 100 milljónir, fjárfesti í tómri vitleysu og keyrði fyrirtækið í gjaldþrot á stuttum tíma. Og lítið hefur spurst til þessara framkvæmdastjóra, nema hvað að þeir senda öðru hverju frá sér tilkynningar um að ýmist komi þeim þetta ekkert við, fyrirtækið hafi ekkert farið í gjaldþrot eða þetta hafi allt verið einhverjum öðrum að kenna.

En…

Þeir sem lánuðu fyrirtækinu gera nú kröfu á okkur. Við sögðum að allt væri í lagi og ég var stjórnarformaður og skrifaði upp á einhverja pappíra. Við eigum auðvitað ekki möguleika á að borga þessar 100 milljónir. En kröfuhafarnir vilja sitt, þeim liggur ekkert á og hafa margoft sýnt biðlund til að ná sínu fram.

Nú eru komnar upp hugmyndir um að við förum fram á að kröfuhafarnir afskrifi megnið af þessum kröfum, jafnvel 75%. Sumir vilja meira að segja beita alls kyns bolabrögðum.

Og, gott og vel, það munar auðvitað miklu að skulda bara 25 milljónir í stað 100 milljóna, þó það yrði erfitt, ef ekki nánast vonlaust að borga.

Þeir sem halda því fram að það sé ekkert mál að fá afskriftir, eru líka farnir að tala fjálglega um hvað við eigum að gera við peningana sem við fáum þegar hluti skuldanna er afskrifaður.

Kemur þá áðurnefndur tregleiki til sögunnar. Ég er kannski ekkert sérstaklega sleipur í bókhaldsbrellum, en hvernig geta afskrifaðar skuldir, allt í einu breyst í fulla vasa af seðlum?

Þetta fer víst í flokkinn óvinsælar skoðanir… en ég er orðinn ýmsu vanur, „drullusokkur“ og „ekki í lagi“ voru kveðjurnar sem ég fékk í gær.

En á meðan frambjóðendur og flokkar eru á eyðslufylliríi fyrir peningana sem við ætlum að ná af erlendum kröfuhöfum… og komnir langt með að lofa flatskjá á hvert heimili – þá velti ég fyrir mér.

Það er talað um að kröfuhöfum liggi á að semja. Ég hef ekki séð neitt sem styður þessa fullyrðingu, þvert á móti þá virðist þolinmæði vera einkennandi fyrir þá.

Einhver sagði að þeir hefðu fengið fjárfestingu sína margfalt til baka. Formaður Framsóknarflokksins meðal annarra. Ég hef ekki séð neinar tölur sem styðja þetta. „Margfalt“ myndi jú þýða að minnsta kosti 100% ávöxtun. Hefur einhver kröfuhafi fengið fjárfestinguna margfalda til baka? Hver? Hversu margfalt? Hafa þeir fengið þetta greitt út? Eða eiga þeir einfaldlega óútgreiddar innistæður?

En það virðist allir komnir með 300 milljarða í vasann til að gefa kjósendum.

Þá kemur erfiða spurningin. Komu þessir fjárfestar ekki með peninga inn í hagkerfið í góðri trú? Vissum við ekki fullvel að þetta voru, amk. meðal annars, vogunarsjóðir þegar peningarnir komu inn í landið. Sögðum við nei, takk, við viljum ekki peninga frá „hrægömmum“? Kannski, en ég man ekki til þess. En þegar kemur að því að borga, þá eru þetta allt í einu orðnir voða, voða ljótir kallar (og kellingar væntanlega).

Erum við ekki að haga og eins og siðlausir og gráðugir smákrimmar?? Ég spyr..

Við þiggjum peninga. Við skuldum þeim sem við fengum peningana hjá. Og við ætlum að þvinga þá til að semja um eftirgjöf á stórum hluta með hótunum um afturvirka skatta, sérstaka löggjöf og ég veit ekki hvað.

Og nei, ég er ekki talsmaður kröfuhafa. Og ég á engra hagsmuna að gæta. Mér líkar einfaldlega ekki þessi hegðun. Það er allt í lagi að tala við kröfuhafa. Um að gera. Þeir vita væntanlega hvernig ástandið er, ef ekki má skýra fyrir þeim hvað er hægt og hvað ekki. Og endilega reyna að ná samkomulagi. Það er ekki verra ef það skilar því að við skuldum og/eða þurfum að borga minna. En ekki haga okkur eins og tuddar.