Ég las einhverju sinni smásögu um mann sem var haldið föngnum í þorpi árum saman vegna þess að þorpsbúar þurftu á honum að halda. Hann átti sér þá ósk heitasta að sleppa, en þegar hann var leystur úr haldi komst hann að því að hann vildi hvergi annars staðar vera.
Ég var að velta snjóhengjunni fyrir mér í færslu um daginn, ég fékk svo sem ekki miklar skýringar á því hvernig samningar við kröfuhafa snjóhengju eigenda eigi að skila okkur fúlgum, Einar Karl og Rósa Björg sendu inn ágætis ábendingar, líkast til var ég að einfalda þetta of mikið, en sé ekki að það breyti niðurstöðunni.
Hinn hlutinn af snjóhengju vandanum er – og aftur með fyrirvara að ég sé að skilja rétt – að eigendur þessara krafna eru að stórum hluta erlendir fjárfestar sem vilja fyrir alla muni koma eigum sínum úr landi. Ef það á að ganga eftir þurfa þeir að kaupa mikið af gjaldeyri sem aftur verður til þess að gengi krónunnar myndi lækka. Það virðist reyndar gleymast í þessu samhengi að þegar peningum var dælt inn í landið var gengi krónunnar allt of hátt og öllum var sama.
Burtséð frá því, þetta eru fjárfestar sem vilja ávaxta sitt pund – látum liggja á milli hluta hvað okkur finnst um það – og kannski ekki eins einsleitur hópur og margir vilja láta, látum það líka liggja á milli hluta.
En hvers vegna vilja þessir fjárfestar endilega fara með peningana úr landi? Nú eru væntanlega betri tækifæri hér en víða annars staðar til fjárfestinga, við erum eitthvað á undan mörgum öðrum þjóðum að vinna okkur út úr efnahagsvandanum og tækifærin virðast liggja víða.
Getur verið að ástæða þess að þeir vilja komast með eignirnar séu einfaldlega hömlur á viðskiptaumhverfi? Er mögulegt að sú aðgerð að takmarka flutning á fjármagni úr landi sé aðal ástæða þess að kröfuhafarnir vilji flytji fé úr landi?
Getur verið að sagan sem ég vísaði til í upphafi eigi við um snjóhengjuna? Ef svo er… þá efast ég um að hugmyndir um að berja manninn með kylfu og kasta honum út séu endilega ráðlegasta leiðin?
Eins og fyrri færslan þá er þetta skrifað með fyrirvara, kannski er ég einfaldlega of tregur til að skilja málið, en það væri þá vel þegið að fá svör.