Fundið fé hjá kröfuhöfum…

Posted: apríl 20, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Þetta fer víst í flokkinn óvinsælar skoðanir… en ég er orðinn ýmsu vanur, „drullusokkur“ og „ekki í lagi“ voru kveðjurnar sem ég fékk í gær.

En á meðan frambjóðendur og flokkar eru á eyðslufylliríi fyrir peningana sem við ætlum að ná af erlendum kröfuhöfum… og komnir langt með að lofa flatskjá á hvert heimili – þá velti ég fyrir mér.

Það er talað um að kröfuhöfum liggi á að semja. Ég hef ekki séð neitt sem styður þessa fullyrðingu, þvert á móti þá virðist þolinmæði vera einkennandi fyrir þá.

Einhver sagði að þeir hefðu fengið fjárfestingu sína margfalt til baka. Formaður Framsóknarflokksins meðal annarra. Ég hef ekki séð neinar tölur sem styðja þetta. „Margfalt“ myndi jú þýða að minnsta kosti 100% ávöxtun. Hefur einhver kröfuhafi fengið fjárfestinguna margfalda til baka? Hver? Hversu margfalt? Hafa þeir fengið þetta greitt út? Eða eiga þeir einfaldlega óútgreiddar innistæður?

En það virðist allir komnir með 300 milljarða í vasann til að gefa kjósendum.

Þá kemur erfiða spurningin. Komu þessir fjárfestar ekki með peninga inn í hagkerfið í góðri trú? Vissum við ekki fullvel að þetta voru, amk. meðal annars, vogunarsjóðir þegar peningarnir komu inn í landið. Sögðum við nei, takk, við viljum ekki peninga frá „hrægömmum“? Kannski, en ég man ekki til þess. En þegar kemur að því að borga, þá eru þetta allt í einu orðnir voða, voða ljótir kallar (og kellingar væntanlega).

Erum við ekki að haga og eins og siðlausir og gráðugir smákrimmar?? Ég spyr..

Við þiggjum peninga. Við skuldum þeim sem við fengum peningana hjá. Og við ætlum að þvinga þá til að semja um eftirgjöf á stórum hluta með hótunum um afturvirka skatta, sérstaka löggjöf og ég veit ekki hvað.

Og nei, ég er ekki talsmaður kröfuhafa. Og ég á engra hagsmuna að gæta. Mér líkar einfaldlega ekki þessi hegðun. Það er allt í lagi að tala við kröfuhafa. Um að gera. Þeir vita væntanlega hvernig ástandið er, ef ekki má skýra fyrir þeim hvað er hægt og hvað ekki. Og endilega reyna að ná samkomulagi. Það er ekki verra ef það skilar því að við skuldum og/eða þurfum að borga minna. En ekki haga okkur eins og tuddar.

 

 

 

Athugasemdir
  1. Andrés Valgarðsson skrifar:

    Já, þetta hefur einmitt verið að bögga mig svolítið líka.

  2. Kannski rétt að minna líka á að skv. Össuri Skarphéðinssyni þá eru um 30 til 40% kröfuhafa þeir sem upprunalega lánuðu ´til Kaupþiings og Glitnis og hafa ekki selt sínar kröfur. Og þeir hafa sannarlega ekki grætt neitt. Sennilega tapað hingað til 7 af hverjum 10 krónum sem þeir lánuðu.