[fyrir áhugasama, þá er viðbót neðst í færslunni á því hvers vegna titillinn breyttist úr „varla“ í „ekki“]
Mér hafa fundist Píratar að mörgu leyti áhugaverður kostur. Þarna kemur ný nálgun, þarna eru ferskar hugmyndir og umfram allt mikill vilji til að efla lýðræði og rétt einstaklingsins. Áhersla er lögð á að upplýsingar séu forsenda ákvörðunar, að mál séu rökrædd málefnalega áður en afstaða er tekin. Afdráttarlaus stuðningur við nýja stjórnarskrá vegur þungt. Þarna er svo mikið af „góðu fólki“, greindu og heiðarlegu með skýran vilja til að vinna að breyttu og betra þjóðfélagi, fólki sem ég vil gjarnan sjá á þingi. Eiginlega mætti halda að þetta væri skothelt.
En það hafa runnið á mig tvær, jafnvel þrjár, fjórar grímur síðustu vikur.
Ýmsar fullyrðingar á síðu Pírata eru frekar undarlegar og þarna er fólk ofarlega sem sem mér finnst ekki eiga meira erindi á þing en „vírherðatré“. Það læðist óneitanlega að mér grunur við frekari lestur á síðu Pírata að stefna þeirra sé ekki mjög vel ígrunduð, jafnvel skrifuð af fámennum hóp og mögulega hent upp á hlaupum án mikilla umræðna, sem væntanlega er ekki alveg í anda flokksins.
Og ég fór líka að velta fyrir mér hvort þeir væru nægilega samkvæm sjálfum sér þegar málið er skoðað betur.
Eitt af því sem mér finnst heillandi við Pírata er að þeir hafa svarað spurningum um stefnumál, td. í efnahagsmálum, þannig að það sé ekki kannski þeirra að taka endanlega ákvörðun, heldur eigi að ræða málin, koma með upplýsingar og röksemdir og leyfa fólki að velja. Mér finnst þetta góð og virðingarverð nálgun. En svo er flokkurinn á sama tíma að kynna mjög einstrengingslegar og undarlegar skoðanir á smáatriðum sem fullkomlega mætti afgreiða á sama hátt. Er þetta ekki ákveðin mótsögn, innbyrðis ósamræmi?
Þar fyrir utan, ef ég gríp nokkrar af handahófskenndu flakki:
- „Internetið er grunnþáttur hagvaxtar sem þarf að virkja markvisst til að auka fjárfestingu, styrkja fyrirtæki og skapa störf.“ Hmmm, netið er mikilvægt og býður upp á fjölmörg tækifæri, ekki spurning, en þetta er kannski full „hlaðin“ fullyrðing fyrir minn smekk.
- „Endurskipuleggja þarf hagkerfið til að tryggja stöðugleika þess þegar áframhaldandi vöxtur er útilokaður“, Fyrir það fyrsta efast ég nú um að áframhaldandi vöxtur sé útilokaður, að minnsta kosti ekki í sjáanlegri framtíð – og gæti meira að segja rifjað upp fullyrðinguna sem ég vísa til hér á undan, en gott og vel, aðallega er ég engu nær um hvernig hvað þetta þýðir eða hvernig endurskipulagningu er verið að tala um.
- „Óhefðbundnar lækningar fái sama vægi í kerfinu og hefðbundnar, takist að sýna fram á jákvæða virkni þeirra með vísindalegum hætti“. Ég veit ekki hvort þetta er tilraun til að vera með marklaust hjal til að friða einhverja rugludalla í flokknum. En þetta er fullkomlega merkingarlaus setning. Ef hægt er að sýna fram á jákvæða virkni meðferðar með vísindalegum hætti þá kallast það „hefðbundnar lækningar“. Þar fyrir utan sé ég ekki hvernig það samrýmist hugmyndafræði flokksins að vera með málamiðlanir á milli staðreynda og hindurvitna.
- „En þegar það kemur að því að setja hömlur á internetið, njósna um borgara og takmarka aðgengi þeirra að upplýsingum, þá er það undantekningalítið í nafni höfundarréttar“. Fyrirgefið, en hvaða rugl er þetta? Á hvaða upplýsingum byggja svona fullyrðingar? Er takmarkað aðgengi í Kína vegna höfundarréttar? Ég man líka eftir langri og hallærislegri og arfavitlausri umræðu um klám nýlega sem hafði ekkert með höfundarrétt að gera. Í þeirri umræðu stóðu forsvarsmenn eins flokks sig mjög vel, flokks sem kallar sig „Pírata“.
Höfundarréttur er eitt af mest áberandi atriðum hjá Pírötum. Ég er mjög ósáttur við ólöglegt niðurhal efnis. Hitt er staðreynd að þetta er eitthvað sem er vonlaust að koma í veg fyrir. Breytingar á höfundarréttarlögum eru nauðsynlegar.. en út frá réttum forsendum. Nafnið, sem við skulum koma að síðar, vísar í forsendur sem ég er ekki sáttur við. Og ætti ekki leyfa fólki að greiða atkvæði um lög um höfundarrétt?
Tjáningarfrelsi, frelsi einstaklingsins eru stórmál hjá Pírötum. Sem er gott. En ég sakna aðgerða, td. varðandi tjáningarfrelsi. Hitt er að þeir virðast vera nánast alfarið á móti heimildum lögreglu til að rannsaka mál. Ekki misskilja, þeim heimildum þurfa að vera settar strangar skorður og um þær eiga að gilda stífar reglur. En þær þurfa að vera til staðar. Því, eins og dæmin sanna, þá hafa ofbeldismenn og glæpahópar svipt fólk frelsi í skjóli þess að heimildir til rannsókna eru takmarkaðar. Ég er til dæmis ekki á móti vændi í sjálfu sér, en mér finnst sjálfsagt að meðhöndla þá sem stunda mansal (nánast) eins og morðingja. Heimildir lögreglu til rannsókna eru mikilvægar til að tryggja frelsi þeirra kvenna sem lenda í þessum glæpalýð.
Annað sem ég á hvað erfiðast með að komast yfir er að þrátt fyrir að mikið sé lagt upp úr að upplýsingar séu forsendur ákvarðana hafa margir forsvarsmenn Pírata talað fyrir skoðunum sem stangast á við þekktar upplýsingar.
Það er ekki undarlegar skoðanir sem stangast á við upplýsingar sem trufla mig. Jú, auðvitað talsvert, en það er ekki það versta. Það sem truflar mig er að flokkur sem leggur þá grunnlínu að upplýsingar séu bestu forsendur skuli flagga svo mörgum talsmönnum sem virðist fullkomlega ófærir um að vinna úr upplýsingum, styðja þess í stað hindurvitni, órökstuddar hugmyndir og það sem einu sinni var kallað „kellingabækur“ (og er ekki hugsað hér í einhverri kynja merkingu).
Þannig að áður en ég get mögulega kosið Pírata vildi ég gjarnan fá hvort einhver frambjóðandi, amk. sem er ofarlega á lista og í þingsætis eða varaþingsætisfæri, talar fyrir
- því að ekki skuli bólusetja börn
- banni við ræktun á erfðabreyttum matvælum
- kukli, svokölluðum „óhefðbundnum lækningum“
- því að kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum séu samsæri
- því að mögulega sé heiminum stjórnað af einhvers konar eðlufólki
Afsakið, en svona tal gengur ekki í flokki sem kennir sig við upplýsingar.
Og ég get einfaldlega ekki fjallað um Pírata án þess að koma að nafninu. Forsvarsmenn flokksins hafa vissulega svarað fyrir skelfilegt nafnið. En það truflar mig samt. Þetta virkar einfaldlega á mig svona eins og að kalla flokk „Þjófaflokkinn“ og bæta svo við, „en við erum reyndar hætt að stela“. Þetta vísar nefnilega til ólöglegs athæfis, hreinlega þjófnað á höfundarrétti. Þá er nafnið ofur hallærislegt – í rauninni miklu hallærislegra á íslensku en á öðrum tungumálum. Tilvísunin er skýrð með því að þetta vísi til „systurflokka“ erlendis en þetta eru einfaldlega nánast óþekktir flokkar hér á landi og tilvísunin sem slík því einskis virði. Þannig ber þetta val ekki vitni um góða dómgreind. Nafnið er vont, mjög vont, en gott og vel.. þetta er kannski ekki aðalatriðið, ég skal ekki láta þetta vera úrslitaatriði.
Já, og ég skal heldur ekki tala um kjánahrollinn sem ég fæ þegar þau tala um „kapteina“.
En þrátt fyrir öll þessi neikvæðu atriði, þá er ég ekki alveg viss – mögulega eru þetta „byrjunarörðugleikar“ – þeas. reynsluleysi – og kannski er gott að fá nýja og ferska hugsun.
[smá uppfærsla]
Eftir smá umhugsun og að skoða umræður þá fer atkvæði mitt annað að þessu sinni. Ég var reyndar mjög ánægður með mörg svaranna, Björn Leví, Jón Þór, Tómas og fleiri – Helgi að mestu leyti þó mig vanti nú eiginlega eitt svar. Þannig var ég nú kominn á það að kannski ætti atkvæði mitt heima hjá Pírötum eftir allt saman.
Á móti kom að ég fékk videó svar frá tveimur frambjóðendum sem var ekki bara byggt á því að fara rangt með það sem ég sagði, heldur einnig einhvers konar útúrsnúningum á umræðunni, svara einu málefni með því að tala um annað… Og minnti mig óþægilega á taktík gamalla „ræðuhunda“ á þinginu.
Píratar eru vissulega áhugaverður kostur og nálgun þeirra verður góð viðbót og tilbreyting á komandi þingi. Það stefnir í að þeir fái nokkur þingsæti, sem er gott. Ég er hins vegar á því að þar séu of margir sem ekki eru færir um að vinna eftir hugmyndum flokksins og eiga ekkert erindi á Alþingi. Ég ætla því að styðja annan valkost.
Ég býst ekki endilega við að þú kærir þig um að svara þessari spurningu fyrirfram, Valgarður, en get ekki stillt mig um að spyrja (m.a. af því að mér sýnist þú hafa byrjað á því að afgreiða fjóra af fimmflokkunum): Verður þetta titillinn á síðasta pistlinum í þessari röð?: Hvers vegna ég kýs Samfylkinguna?
ég hef ekki ákveðið enn hvaða flokk ég kýs, Samfylkingin og Lýðræðisvaktin eru eftir.. það er enginn góður kostur – ég á líka eftir færslu á nótunum, „hvernig flokk ég myndi vilja kjósa“
Þetta eru fínar analýsur Valgarður. Og svara líka um leið hvers vegna ekkert af þessu nýju framboðum nær eyrum fólks. Það er enginn að boða þá byltingu sem fólk vill sjá. Þess vegna er fólki stillt upp við vegg að kjósa skásta kostinn af því sem er í boði. Hvað fólk svo metur „skást“ fer eftir persónulegum högum hvers og eins.
já, og það sem verra er, ég vil sjá talsverðar breytingar, en kannski ekki á sömu nótum og aðrir, en finn eiginlega ekkert sem ég get kosið… ætla reyndar að taka eina færslu „hvað ég vildi geta kosið“ eða eitthvað á þeim nótunum
því að ekki skuli bólusetja börn
banni við ræktun á erfðabreyttum matvælum
kukli, svokölluðum “óhefðbundnum lækningum”
því að kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum séu samsæri
því að mögulega sé heiminum stjórnað af einhvers konar eðlufólki
Skil ekki alveg hvernig þú færð þennan lista ?
Ekkert séð tengt þessum fyrstu þrem, og maður þarf að vera frekar heimskur til að ota fjórða að Jón Þóri (amk orðað svona)
Fimmta já þessi gaur les frekar heimskulegar bækur, en það er ekki eins og hann sé að segja að hann trúi því heiminum sé stjórnað af eðlufólki, hann er bara opinn fyrir möguleikanum
Það kiptir ekki öllu hvaðan þetta kemur, ef svarið er „nei“, þá er það fínt.. muni ég td. rétt flutti Birgitta þingsályktunartillögu um erfðabreytt matvæli.
og fyrir minn smekk, og mitt atkvæði, þá er það ekki mjög greindarlegt að vera opinn fyrir svona möguleikum, hefur mikið með það að gera að geta unnið úr upplýsingum.
Það sem skiptir mestu máli er að Píratar haga atkvæðum sínum eftir grunnstefnu flokksins og ályktunum, fyrst og fremst. Ályktanirnar byggjast á forsendum, svosem staðreyndum, og er kosið um þær á lýðræðislegan hátt. Persónulegar skoðanir einstakra pírata eiga því ekki að skipta miklu máli í stóru samhengi hlutanna.
Skil vel að þú hafir áhyggjur af þessum atriðum. En í langflestum tilfellum eru þetta skoðanir fólks sem eru ýktar, eða úreltar, og auðvelt að leiðrétta með upplýsingu.
Það kæmi mér ekkert á óvart ef fjölmargt fólk í öðrum framboðum hefði svipaðar undarlegar persónulegar skoðanir á hlutunum – málið er t.d. bara að það fólk hefur ekki tjáð sig jafn mikið á internetinu undanfarin ár. Bloggum frambjóðenda annarra framboða virðist nú vel stillt í hóf, og menn gæta þess verulega hvað þeir segja. Ekki að ég vilji afsaka ákveðnar gamlar bloggfærslur – alls ekki. En ég held að þessar áhyggjur séu óþarfar 🙂
Hvað nafnið varðar… Nafnið kemur sem mótsvar við samtökunum Antipiratbyrån sem m.a. amerísk lobbýistasamtök stóðu að. Kemur sjóránum náttúrulega ekkert við 🙂 Né heldur stendur flokkurinn fyrir rán af neinu tagi. Auk þess getur þetta vel verið nýyrði. Veit ekki hvort þú notar orðskrípið „pizza“ eða „pítsa“ ńokkurntíman, en get þá bent þér á hið fallega og mikið notaða íslenska orð „flatbaka“ 🙂 Tungumál sem ekki vex er dautt tungumál, right? 🙂
Píratar standa fyrst og fremst fyrir gagnsæi og upplýstri umræðu. Enginn hina flokkanna leggur áherslu á það, heldur telur að þeir hafi hina og þessar töfralausnir sem þeir keppast um að auglýsa nú rétt fyrir kosningar. Almenningur skilur oft ekki hvaða galla margar þessar lausnir hafa, og falla fyrir gylliboðunum. Þess vegna á að kjósa pírata. Ekki kjósa okkur ekki vegna þess að stakir píratar hafa undarlegar skoðanir á stöku málefnum 🙂
Mjög flott grein hjá Valgarður.
Ég get svo sem bara svarað fyrir mig hérna.
og því miður verður kanski margt ósvarað að einhverju leyti.
Enn flest svörinn eru í grunnstefnunni, og kostningarkerfinu sem Píratar bjóða fram með.
Ekki fullkomið enn í uppbyggingu og með rétta hugmyndafræði að mínu mati.
Bendi á þrjár fyrstu Grunnstefnu Pírata:
_____________________________________________
[ https://x.piratar.is/polity/1/document/2/ ]
1. Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
2. Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru.
3. Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.
_____________________________________________
Vel upplýst gagrýni sem sýnir hvar það eru mistök í gangi er litið á sem jákvæður hlutur.
Skal alveg viðurkenna að stundum blöskrar manni við ymis rök og færslum, hvort sem það tengist pírötum beint, óbeint og jafmvel ekki neitt.
Enn án þáttöku þá tekst ekki þetta verk sem er verið að vinna að.
Ég held að margt hafi breyst á mjög stuttum tíma hjá pírötum, og fólk er mjög hlynnt því kosningarfrelsið sem kerfi þeirra býður uppá, áframmhaldandi þáttöku eftir kostningar þas. Og enn fleyri virðast ekki skilja það að þetta er sé svona opið að það hafi áhrif áframm. (kanski því við erum svo vön því að hafa ekkert að um málefnin að segja?)
Ég bendi á að ég get svosem bara talað fyrir mína eigin hönd hérna, enn það er mikið búið að breytast hjá mér í pólítísku samhengi eftir að Píratar koma til sögu.
Áhugi að leita mér upplýsingar, og leita að efni sem mér datt varla til hugar að gefa gaum áður fyrr því ég hafði ekkert um neitt að segja miða við það kerfi sem boðið hefur verið uppá í miðlægri stjórnunarkerfi.
þú spýrð td. um stefnumál eins og:
° „Internetið er grunnþáttur hagvaxtar sem þarf að virkja markvisst til að auka fjárfestingu, styrkja fyrirtæki og skapa störf“
Það er varla til starf í dag sem tengist ekki netið á beinann eða óbeinann hátt nú til dags. (hversem er má leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál hér) Internetið stækkar hraðar enn nokkur önnur tækniþróun sem hefur sést híngaðtil.(*aftur ef einhver man eftir einhverju sem hefur haft eins mikill áhrif á stækkun viðskiptalífs í heiminum þá má alveg benda mér á það líka)
þannig að þetta málefni stendur nú alveg fyrir sínu.
Því miður þá efast ég um að Píratar verði meirihluti stjórnar á þessu tímabili, svo áhrif sem þar verða á þíngi (þar sem meirihlutastjórn mun hafa stæðsta þátt í ákvarðanartökum ræður), verður takmörkuð, enn það sem við getum haft áhrif á, er að virkja vissa stefnu sem er okkur kær.
Það er auðvita margt annað sem þarf að takast á við. Og kosningarkerfið byður uppá það að leyfa þér og þínum, mér og mínum að vera með í þeirri ákvörðun.
Enn Píratar er stefna sem verður til, hugmyndafræði, og það þarf fólk til að taki þátt í því.
Ef þú sérð að þú hefur áhrif, viltu þá taka þátt?
(*annað dæmi sem flestir kannast meira við, því miður)
Ef þú kýst um eithvað, og það er ekki tekið mark a því… (það segjir sig sjálft að maður hefur ekki áhuga á því að taka þátt í því).
Eins og sést á 4 ára fresti, þá er land og þjóð ekkert endilega alveg sammála um marga hluti. Píratar bjóða allavegana uppá það að þú haldir áfram að velja, hafa áhrif, og persónulega tel ég það vera hvetjandi umhverfi að fá að taka þátt og sjá afraksturinn á því.
Enn hver og einn verður að taka sína eigin ákvörðun, hvort sem hún er bygð á réttum eða röngum forsemdum á 4 ára fresti.(tjah, nema hjá Pírötum þar að segja þar neyðist fólk eiginlega að vera með í áframmhaldandi ákvörðunartökum).
Svona í lokinn ætla ég að vitna í Bjorn Levi Gunnarsson 2.sæti SuðV. kjördæmi.
[ http://blog.piratar.is/bjornlevi/ ]
“
Jafnaðarstefna
Það er mjög greinilegt í grunnstefnu Pírata að við viljum að allir geti tekið þátt í ákvarðanatöku um málefni sem þá varðar (sem er hvað sem hver og einn ákveður fyrir sjálfan sig). Annað ákvæði úr grunnstefnunni er jafnvel mikilvægara þegar það kemur að jafnræði:
1.2 Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru.
“
ps. Gott að sjá uppbyggilega gagrýni, endilega halda svona áframm.
Vil taka framm að ég er ekki mikill rithöfundur og má alveg búast við óþarfa villum og þvíumlíkt, og biðst bara afsökunar á þeim fyrirframm, (eftirá ef þú lest svona langt niður).
PPS. Persónulega þýkir mér nafnið alveg nógu viðeigandi,,Píratar. Enn það er svosem mitt álit.
enda hafa nafn og stefnur ekki átt mikla samleið í gegnum tíðina,í pólitík. Meti hver fyrir sig.
kveðja Valgeir
Takk fyrir gott og málefnalegt svar. Það má vera að ég sé of neikvæður og geri kannski of mikið úr einstaka atriðum – eins og ég tók fram þá skýrast ýmis atriði kannski af því að þetta er ungur flokkur / hreyfing.
En vel þegið að fá svona svör, þau verða til að ég horfi frekar á það jákvæða… en er sem sagt enn að melta hvað ég ætla að kjósa.
Takk fyrir fínt svar, Tómas..
Já, ég geri mér grein fyrir að fólk með úr öðrum flokkum getur líka haft undarlegar skoðanir, td. Ólina með kukl frumvarpið sitt hjá Samfylkingunni.
Og ég geri mér grein fyrir því að sumu leyti liggja frambjóðendur Pírata betur við höggi en aðrir – og að sumt er eflaust úrelt. Þess vegna spyr ég og þess vegna er ég ekki búinn að afskrifa að kjósa Pírata. En ég neita því ekki að þetta truflar mig – vegna þess að þetta stangast á við mjög svo áhugavert upplegg.
Þetta er mikið mál fyrir mig að fólk geti unnið úr upplýsingum, og filterað út augljósustu vitleysurnar, einmitt ekki með „opnum huga“, því opinn hugur á það til að fyllast af rusli 🙂
Nafnið, ég þekki söguna, og sá ágæta grein Smára, það truflar mig samt.. en eins og ég segi, ekki úrslitaatriði, hefði kannski átt að sleppa þessu.
Sæll Valgarður.
Varðandi þessa málsgrein:
„“Internetið er grunnþáttur hagvaxtar sem þarf að virkja markvisst til að auka fjárfestingu, styrkja fyrirtæki og skapa störf.” Hmmm, netið er mikilvægt og býður upp á fjölmörg tækifæri, ekki spurning, en þetta er kannski full “hlaðin” fullyrðing fyrir minn smekk.“
Setningin „Internetið er grunnþáttur hagvaxtar“ er fengin orðrétt upp út víðtækustu skýrslu um efnahagsáhrif internetsins sem McKinsey gerði 2011 (sjá link að neðan). Þar segja þeir líka að 21% af hagvexti síðustu fimm ára í þróuðum hagkerfum hafi verið vegna internetsins og 75% af þeim vexti varð í hefðbundnum iðnaði og gætti mest hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem vaxa tvöfalt hraðar, ráða tvöfalt fleiri starfsfólk og tvöfalda útfluttningstekjurnar sínar við að nota internetið í miklumæli.“
Jú „Internetið er grunnþáttur hagvaxtar sem þarf að virkja markvisst til að auka fjárfestingu, styrkja fyrirtæki og skapa störf.“
Endilega kynntu þér betur stefnuna okkar og þau gögn og rannsóknir sem liggja að baki og taktu svo upplýsta ákvörðun í kjörklefanum 🙂
https://x.piratar.is/polity/1/document/25/
Hér er svo McKinsey skýrslan um efnahagsáhrif internetsins:
http://www.mckinsey.com/insights/high_tech_telecoms_internet/internet_matters
Takk fyrir pistilinn 🙂
Jón Þór Ólafsson
Kafteinn Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Takk, jú, ég hef kynnt mér stefnu ykkar, skrifaði reyndar greinina fyrir um tveimur vikum ásamt nokkrum öðrum, hef svo verið að setja þær út eina og eina… kannski hefur eitthvað breyst.
Ég tók fram að ég gerði ekki lítið úr möguleikum internetsins, en fannst þetta – og finnst enn, hvaðan sem setningin kemur – ansi „stórkarlaleg“ fullyrðing. En það hefur nú annað eins komið fyrir mig varðandi það að hafa rangt fyrir mér með framtíðar verkefni…
Sæll, Valgarður! Helgi Hrafn Gunnarsson hér, oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður. Mig langar aðeins að benda á nokkra punkta í þeirri von að það gæti breytt afstöðu þinni. Fyrst verð ég þó að nefna að ég ber mikla virðingu fyrir skrifum þínum almennt, jafnvel ef við erum ekki alltaf sammála.
Q: því að ekki skuli bólusetja börn
A: Ég veit um einn Pírata sem er á móti bólusetningum. Einn. Hvergi sérðu á stefnuskrá okkar að börn verði ekki bólusett. Meirihluti Pírata er algerlega hlynntur bólusetningum. Sjálfur vildi ég helst fara í sem flestar. Varamaður minn, Halldóra Mogensen, er ekki sammála mér um það og veistu hvað? Það er frekar hæpið að hér þurrkist út íslensk þjóð vegna þess að hún láti ekki bólusetja sig eða sitt barn. – Annars á umræðan ekki í reynd að snúast um bólusetningar heldur hvort beri að *neyða* fólk til bólusetningar. Sjálfur er ég ekki reiðubúinn til að taka barn af manneskju og sprauta í það efni sem foreldrið telur barni sínu skaðlegt. Sorrí, ég gæti það ekki. Frekar bóluset ég bara mig og mín börn og læt þar við sitja. En þetta er ekki kosningaatriði. Við erum ekki með þetta á stefnuskránni. Þetta er bara eðlilegur skoðanamunur meðal fjölbreytts fólks sem hefur komið sér saman um grundvallaratriði Pírata.
Q: banni við ræktun á erfðabreyttum matvælum
A: Ég kem næstum því af fjöllum. Ég veit ekki til þess að flokkurinn hafi lagt til bann á erfðabreyttum matvælum. Þó veit ég af samtölum innan flokksins að það ber að hafa allan vara á til þess að spilla ekki lífríki, og sjálfsagt eru misjafnar skoðanir um hversu langt beri að ganga í þeim efnum, en ég finn ekkert um þetta í stefnuskrá okkar (https://x.piratar.is) og veit ekki til þess að nokkur hafi í alvörunni stungið upp á þessu sem stefnumáli.
Q: kukli, svokölluðum “óhefðbundnum lækningum”
A: Þetta var einhvers konar flokksmálamiðlun sem varðar ágreining um nákvæmlega skilgreininguna á „óhefðbundnum lækningum“. Sjálfur er ég sammála þér, óhefðbundnar lækningar sem virka eru einfaldlega hefðbundnar lækningar og því ættirðu varla að vera hræddur við að óhefðbundnar lækningar sem virki verði viðurkenndar sem lækningar sem virka, nema þær virki.
Q: því að kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum séu samsæri
A: Þetta er algert rugl, með fullri virðingu, og varðar grein sem Jón Þór skrifaði á þeim tíma sem það var skandall í gangi varðandi þetta málefni. Málefnið var rannsakað ítrekað, enda full ástæða til. Það var fullkomlega eðlilegt að gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð á þessum tíma sem huti af vísindalegri aðferð. Þótt niðurstaðan hafi verið staðfest er ekki þar með sagt að það hafi aldrei átt að gagnrýna aðferðirnar, enda eins og ég segi, það var stór skandall í gangi á þessum tíma sem var ekki bara eðlilegt heldur nauðsynlegt að tala um það sem Jón Þór gerði réttilega þrátt fyrir að geta búist við viðbrögðum eins og þessum. Það er ljót lexía ef hann hefði átt að þegja um efasemdir sínar bara til að þóknast tískunni næstu árin.
Q: því að mögulega sé heiminum stjórnað af einhvers konar eðlufólki
A: David Icke er klikkhaus, no argues there, eins og fólk segir vestanhafs, en það er ekki þar með sagt að allt í bókum hans sé rugl (eða hefurðu lesið eina?) og að allir sem lesi bækurnar hans séu eins klikkhausar með nákvæmlega sömu túlkun á málunum og þá sem maður fær af því að horfa á „David Icke crazy fuck“ á YouTube. Þessi frambjóðandi sem þú nefnir, hann Hákon, stúderar skrilljón mismunandi samsæriskenningar í óþreytandi sannleiksleit og skrifar hugsanir sínar hreinskilnislega, viljandi án þess að hafa endilega komist að hinum Eina Sanna Sannleik, en þá er stutt í að fólk telji hann einfaldlega heilaþveginn af öllu sem hann lesi. Hann er frjálsyrtur og víðsýnn með mjög opinn huga og það veitir bara ekkert af slíku. Það voru þeir tímar að ég sjálfur taldi 9/11 vera samsæri Bandaríkjayfirvalda og tungl-lendinguna fölsun. Ég sé ekkert eftir því að hafa skoðað þau mál nógu vel og tjáð mig nógu hreinskilnislega við nógu marga til að komast margsinnis að misjöfnum niðurstöðum um þau mál. Það heitir að læra og ég tek að ofan fyrir Hákoni fyrir að láta ekki vinsældir stjórna því hvaða hugmyndum hann gefur gaum og hverjum ekki. Síðast en ekki síst má nefna að þú finnur ekkert um þetta á stefnuskrá okkar, né hefur Hákon beðið um að heimsyfirráð eðlufólks verði tekin fyrir í kosningakerfi okkar, enda kemur þetta hvorki málstað okkar né kosningunum nokkurn skapaðan hlut við.
Takk fyrir mig og aftur, þetta er skrifað með fullri virðingu. Reyndar mikilli virðingu. Keep rockin’.
Helgi, það er einhver örlítill misskilningur í gangi hjá þér. Það var enginn „skandall í gangi“ varðandi hlýnun jarðar. Það eina sem gerðist var að einhvejrir nöttarar stálu tölvupóstum vísindamanna og mistúlkuðu þá gróflega. Það var allur „skandallinn“ eins og síðar kom í ljós þegar málið var rannsakað.
Varðandi erfðabreytingar þá var Birgitta meðal þeirra sem lögðu fram frumvarp um bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera á síðasta þingi.
Takk Helgi fyrir skýr og ítarlegt svar..
Og svo það sé á hreinu þá hafa svörin sem ég hef fengið aukið álit mitt á framboðinu.
Ég tók þetta nú af handahófi, gott að það er ekki nema einn á móti bólusetningum, Birgitta lagði fram frumvarp um erfðabreytt matvæli, reyndar ekki sem fulltrúi Pírata,
Talið um óhefðbundnar lækningar finnst mér verra, það á ekki að þurfa málamiðlanir um setningar sem ekki standast merkingarlega. Ef ég má vera erfiður.
Ég geri engar athugasemdir við að þú gagnrýnir og efist – og vona að þú farir ekki að elta tískustrauma. Málið var hins vegar skýrt tiltölulega fljótlega – og hafir þú tekið þær leiðréttingar góðar og gildar þá þarf ekki að ræða þetta frekar. Mér finnast yfirgnæfandi líkur á að hlýnun jaðar megi, að minnsta kosti að stórum hluta, rekja til breytinga af mannavöldum. Það er allt í lagi að færa rök fyrir öðrum skoðunum og það er sjálfsagt að efast. En ég á erfitt með að samþykkja hugmyndir um allsherjar samsæri vísindamanna.
Ég hefði kannski betur sleppt eðlunum úr þessari umræðu, það vill svo til að ég þekki aðeins til.. .ég hélt reyndar að það væri búið að afgreiða þessar eðlu hugmyndir, þess vegna kom þetta mér á óvart. Aftur, þá geri ég engar athugasemdir við að fólk skoði og leiti, en það þarf að vera einhver lágmarks „filter“ í gangi. Ég hef ekki lesið bækur David Icke, en hef séð meira af honum en ég kæri mig um að rifja upp, video, viðtöl, greinar… og það sem ég hef séð þar er ekkert annað en rugl.
Ég er samt enn forvitinn að vita hvort þú hefur skipt um skoðun á því hvort þetta sé samsæri..
Sýnist almenni misskilningurinn hérna vera hvernig persónulegum skoðunum er ruglað saman við lýðræðislegar skoðanir. Sannfæring Pírata er að lýðræði geti virkað – en bara ef það er gagnsæi, upplýsingaflæði og bein þátttaka.
Þannig komast persónulegar skoðanir ekkert í gegn … nema þær séu í samræmi við lýðræðislegu skoðanirnar.
Skil svo sem ekki hvernig ýmislegt sem er talið þarna upp er öðruvísi en álfatrú, stjörnuspeki eða trú á ósýnilega bleika einhyrninga. Það hefur nú yfirleitt ekki komið í veg fyrir að fólk vinni vinnuna sína sko.
Takk fyrir góðan pistil 🙂
Ég geri mér grein fyrir því – og þess vegna var ég nokkuð hrifinn að nálgun ykkar – svona þegar ég hætti að pirra mig á nafninu og komst að því að við getum sennilega verið sammála um lausn á höfundarréttarmálum, þó forsendurnar séu ólíkar.
Hitt er að það vefst enn fyrir mér hvernig fólk sem aðhyllist þessar grunn hugmyndir getur unnið svona illa úr upplýsingum.
Sum atriðanna sem ég nefni eru kannski ekki hættuleg, en þau bera ekki vott um þá nálgun sem ég vonaðist til að sjá.
En, aftur, kannski er þetta eitthvað sem þarf að vinnast betur..
Sæll Valgarður.
Ég og Arnaldur Sigurðsson settum saman video-svar fyrir þig. Endilega tékkaðu á því. Við skorum á þig að senda okkur video-svar. 🙂
Takk, en [og nú kemur að einni sérvisku hjá mér] ég nenni nánast aldrei að horfa á video, fyrir því eru nokkrar góðar ástæður…
Ég skal kíkja á þetta [á morgun] fyrst þið voruð að hafa fyrir þessu fyrir mig, en ég kem ekki til með að svara á video – og væri til í að fá svör hér í textum.
Úbbs! Gleymdi slóðinni. Hún er https://www.youtube.com/watch?v=zdoWZpIOn-g
Herra málefnalegur. Fyrst þú vilt hafa allt naglfast er þá ekki rétt að benda á að það er ekki til neitt sem heitir ólöglegt niðurhal á Íslandi. Ja, ekki nema efnið sem þú ert að hala niður sé hreinlega ólöglegt eins og t.d. barnaníð.
Ég skal játa að ég stóð í þeirri trú að ef höfundarréttar varið efni er tekið án samþykkis höfundar og sett í dreifingu þá sé það ólöglegt, bæði það að bjóða upp á þetta efni og það að sækja.
En ég skal að sjálfsögðu leiðrétta ef þetta er rangt hjá mér – þú skýrir kannski nánar. Það er nefnilega kostur við málefnalega umræðu. Mér finnst sjálfsagt að leiðrétta hafi ég rangt fyrir mér – annað eins kemur nú fyrir – en ég þarf samt að fá upplýsingar og rök – ekki bara órökstudda fullyrðingu.
Það breytir því þó ekki að ég er mótfallinn því að efni sé tekið og dreift í óþökk höfunda.
Sem breytir því svo sem ekki heldur að ég geri mér grein fyrir því að það þarf að breyta lögum.. en legg áherslu á að það sé gert á réttum forsendum.
Við þurftum að laga video-svarið. Það er hér núna: http://youtu.be/YGGQLywaoqs 🙂
OK, takk, skal skoða á morgun
Takk fyrir svarið…
Fyrir það fyrsta þá er engin ástæða til að gefa sér að þið getið ekki „snúið mér við“, þeas. til stuðnings við flokkinn. Ég er einmitt opinn fyrir leiðréttingum og málefnalegum svörum… og í sjálfu sér að kalla eftir svörum með þessari færslu.
En…
Ég sagði ekki að fámennur hópur hefði skrifað stefnuna án mikilla umræðna – ég hef engar forsendur til að fullyrða neitt um það til eða frá – mér fannst margt bera þess merki – mér fundust hins vegar margar ansi skrýtnar fullyrðingar og (hvað skal ég segja) kauðalegar setningar benda til að ekki hafi farið mikill tími í yfirlestur – og það að þetta virtist allt koma frá örfáum einstaklingum, þar af mikið frá einum, var líka vísbending.
Það telur ekkert fyrir mig að vita hvernig aðrir flokkar vinna, mér þykir ekki mikið til koma að benda á að aðrir séu nú verri.
Þið segið að stefna sé ekki samþykkt nema mikil heimildavinna hafi legið að baki, umræður hafi farið fram og kosið hafi verið um þær. Það hljómar vel. En fullyrðingin um „óhefðbundnar lækningar“ slær þetta eiginlega alveg út hjá ykkur, þið getið ekki í alvöru hafa samþykkt svona eftir að hafa kynnt ykkur upplýsingar og rætt málið. (ég myndi segja „please“ en er orðinn aðeins of gamall).
Þið segið að stefna ykkar um viðbrögð þegar hagvöxtur er ekki mögulegur sé til kominn vegna þess að þið viljið geta brugðist við samdrætti. Þetta er einfaldlega tvennt ólíkt, tímabundinn samdráttur er eitt – og gott mál að undirbúa viðbrögð við honum – „áframhaldandi hagvöxtur útilokaður“ er allt annar hlutur. Þannig að það vær vel þegið ef þið svöruðuð fyrir það sem stendur í stefnuskránni, ekki eitthvað allt annað.
Og já, ég veit vel hvað óhefðbundnar og hefðbundnar læknirngar eru. stælarnir í talsmátanum þegar þið spyrjið mig (og þykist gera lítið úr þekkingu minni) eru hálf hallærislegir…Ég veit ekki hvort þið þekkið hvað „óhefðbundnar lækningar“ eru þegar þið segið að það séu lækningar í dag sem einu sinni hafið verið óhefðbundnar lækningar. „Óhefðbundnar lækningar“ er notað yfir hvers kyns kukl, smáskammtalækningar og þess vegna yfirnáttúru. Vel rannsakaðar tilraunir til lækninga sem aldrei hafa staðist skoðun. Viðurkenndar vísindalegar lækningar sem íslendingar hafa ekki aðgang að eru ekki óhefðbundnar lækningar í nokkrum skilningi. Þarna eruð þið að tala bókstaflega út úr kú…
Ég kalla það ekki bull að takmarkarnir á frelsi á internetinu séu í nafni höfundarréttar. Ég kalla það „rugl“ (ekki „bull“) að allar takmarkanir séu undantekningarlítið í nafni höfundarréttar.
Ég tala heldur hvergi um að ég vilji að lögregla geti safnað upplýsingum í einhvers konar „forvörnum“.. ef þið vilduð vera svo vænir að sleppa því að gera mér upp skoðanir.
Þið í þrígang haft rangt eftir mér, það væri fín hugmynd að lesa færsluna áður en þið svarið. Og þið svarið öðrum tveimur eiginlega út í hött.
Ég þekki ágætlega til höfundarréttar og hef rætt við marga hjá ykkur, ég er fullkomlega ósammála forsendunum ykkar, en mér sýnist við geta verið nokkuð sammála um lausn. Ég veit að það hafa opnast mörg tækifæri, en þau henta ekki öllum – og þessi breyting á tekjumöguleikum hefur orðið til að margir gefast upp.
En ég varð sem sagt fyrir talsverðurm vonbrigðum með svar ykkar. Ég var mjög ánægður með það sem Björn Leví, Jón Þór, Tómas og fleiri skrifuðu og að mestu það sem Helgi skrfaði, þó hann skuldi mér nú eitt svar.
Þessi svör ykkar minnka hins vegar aftur líkurnar á að ég vilji kjósa Pírata. Þess vegna verð ég nú eiginlega að spyrja, eruð þið að tala í nafni Pírata? Eða verð að fá að spyrja aðra Pírata hvort þeir séu sáttir..
Að lokum, þetta skýrir að hluta hvers vegna ég er ekki hrifinn af videóbloggi, ég hefði verið talsvert fljótari að lesa innihaldið – og þið væntanlega talsvert fljótari að skrifa. Og það er seinlegt að svara nema vera sífellt að hlaupa fram og til baka.
Þannig að, verið velkomnir að senda inn skriflegar athugasemdir, en ég er ekki til í að eyða tíma í fleiri video.
[…] Pírata Stefán Vignir og Arnaldur svara pistli Valgarðs Guðjónssonar með vídeóbloggi […]
Það er rosalega, tjah, falleg pæling að gagnsæi, upplýsingaflæði og bein þátttaka muni leiða til þess að persónulegar skoðanir þingmanna hætti að skipta máli. Mér finnst reyndar mjög ólíklegt að það gerist en það er svosem alveg góð hugsun á bakvið þetta.
Vandamálið við þetta kristallast samt í stefnu Pírata varðandi óhefðbundnar lækningar. Hún er einfaldlega óttaleg þvæla, alveg óháð því hvernig hún var samin.
Já, og það sem verra er, margir frambjóðendur virðast annað hvort ekki skilja setninguna eða rembast við að túlka hana þannig að hún þýði eitthvað allt annað en hún segir. Tveir héldu því meira að segja fram að hún þýddi að það ætti að bjóða íslendingum upp á (hefðbundnar) lækningar erlendis sem ekki væru í boði hér á landi 🙂
„You can’t make this sutt up“, eins og skáldið sagði…