Snjóhengjutregi, nr. 2

Posted: maí 11, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég las einhverju sinni smásögu um mann sem var haldið föngnum í þorpi árum saman vegna þess að þorpsbúar þurftu á honum að halda. Hann átti sér þá ósk heitasta að sleppa, en þegar hann var leystur úr haldi komst hann að því að hann vildi hvergi annars staðar vera.

Ég var að velta snjóhengjunni fyrir mér í færslu um daginn, ég fékk svo sem ekki miklar skýringar á því hvernig samningar við kröfuhafa snjóhengju eigenda eigi að skila okkur fúlgum, Einar Karl og Rósa Björg sendu inn ágætis ábendingar, líkast til var ég að einfalda þetta of mikið, en sé ekki að það breyti niðurstöðunni.

Hinn hlutinn af snjóhengju vandanum er – og aftur með fyrirvara að ég sé að skilja rétt – að eigendur þessara krafna eru að stórum hluta erlendir fjárfestar sem vilja fyrir alla muni koma eigum sínum úr landi. Ef það á að ganga eftir þurfa þeir að kaupa mikið af gjaldeyri sem aftur verður til þess að gengi krónunnar myndi lækka. Það virðist reyndar gleymast í þessu samhengi að þegar peningum var dælt inn í landið var gengi krónunnar allt of hátt og öllum var sama.

Burtséð frá því, þetta eru fjárfestar sem vilja ávaxta sitt pund – látum liggja á milli hluta hvað okkur finnst um það – og kannski ekki eins einsleitur hópur og margir vilja láta, látum það líka liggja á milli hluta.

En hvers vegna vilja þessir fjárfestar endilega fara með peningana úr landi? Nú eru væntanlega betri tækifæri hér en víða annars staðar til fjárfestinga, við erum eitthvað á undan mörgum öðrum þjóðum að vinna okkur út úr efnahagsvandanum og tækifærin virðast liggja víða.

Getur verið að ástæða þess að þeir vilja komast með eignirnar séu einfaldlega hömlur á viðskiptaumhverfi? Er mögulegt að sú aðgerð að takmarka flutning á fjármagni úr landi sé aðal ástæða þess að kröfuhafarnir vilji flytji fé úr landi?

Getur verið að sagan sem ég vísaði til í upphafi eigi við um snjóhengjuna? Ef svo er… þá efast ég um að hugmyndir um að berja manninn með kylfu og kasta honum út séu endilega ráðlegasta leiðin?

Eins og fyrri færslan þá er þetta skrifað með fyrirvara, kannski er ég einfaldlega of tregur til að skilja málið, en það væri þá vel þegið að fá svör.

Athugasemdir
 1. Sigríður Ólafsdóttir skrifar:

  Í pistli í febrúar s.l. varpaði Sigrún Davíðsdóttir nokkru ljósi á ástæður þess að útlendingar vilja ekki fjárfesta á Íslandi. Meginástæðurnar eru lág framleiðni og óstöðugt hagkerfi, m.a. sveiflur í gengi krónunnar. http://ruv.is/pistlar/sigrun-davidsdottir/ovilji-utlendinga-til-ad-fjarfesta-a-islandi

 2. Takk, .en er ekki framleiðni einmitt með þeim betri… og óstöðugt hagkerfi og sveiflur á gengi að einhverju leyti afleiðing handstýringa? Væri með öðrum orðum, ekki betri leið að gera umhverfið meira aðlaðandi fyrir fjárfesta en að berja á þeim og neyða þá til samninga.

 3. Sævar Finnbogason skrifar:

  Sæll, þetta eru áhugaverðar pælingar
  Það er vel þekkt að framleiðni er með lægsta móti og vinnudagur langur á Íslandi miðað við Vesturlönd. Það sérkennileg kenning að hægt sé að halda genginu stöðugu hagkerfinu til lengri tíma með krónuna sem gjaldmiðil ef við ætlum að vera hér með opið hagkerfi. Þá á ég við opið fyrir fjárfestingu og alþjóðaviðskiptum. Fólk verður að taka með í reikninginn þann gríðarlega beina kostnað sem liggur í því að verja gengið og óbeina kostnað sem fylgir höftum. Slíkt var miklu raunhæfara á 7. 8. og framan af 9. áratugnum.
  Nú er umhverfið allt annað og kröfur aðrar. Til að halda uppi þeim lífsgæðum sem við væntum verðum við að vera þátttakendur í alþjóðavæðingu viðskiptalífsins.

  Manni virðist þannig að það að skipta um gjaldmiðil þannig að hægt verði að gera áætlanir fram í tíman, bæði fyrir fólk og fyrirtæki gæti skapað aðstæður til þess að hvetja til fjárfestingar. Auðvitað má segja að við seum fá og landið stórt en þar fyrir utan er óstöðugleikinn og krónan eru í raun gunndvallarástæða þess hversu lág framleiðni er hérlendis. Því eilífar gengis „leiðréttingar“ minnka þörf á hagræðingu.

  • Gott og vel, en er þá ekki svarið að skipta um gjaldmiðil frekar en að berja á fjárfestum? Er ekki, til lengri tíma litið, betri leið að gera umhverfið aðlaðandi, ekki bara fyrir erlenda fjárfesta heldur líka okkur sjálf?

   • Sigríður Ólafsdóttir skrifar:

    Mér skilst að mikilvægast sé að festa gjaldmiðilinn við einhvern traustan gjaldmiðil (amk meðan ekki er pólitískur vilji til að skipta um) og hafa s.k. fastgengi fremur en fljótandi. Ég held það sé afleitt hugmynd að berja á fjárfestum ef á sama tíma er ætlunin að örva fjárfestingar innanlands. Stundum tala pólitíkusar eins og hugmyndin sé að svipta erlenda fjárfesta („hrægammasjóði“) eignum sínum, og að eignarréttur gildi ekki ef hægt er að nota nógu ljót orð um fjárfestana. Slík réttindabrot yrðu ekki vænleg til að örva erlendar fjárfestingar.

    Fróðir menn hafa reiknað út að verulegur kostnaður fylgir því að hafa krónuna og þjónar hún því ekki hagsmunum almennings (þótt hún þjóni stundum atvinnugreinum sem fá tekjur í erlendri mynt). Það myndi auka mest hag almennings ef upp yrði tekinn alvöru gjaldmiðill.

    En ekki virðast allir pólitikusar hafa mikinn áhuga á hag almennings.

 4. Ómar Harðarson skrifar:

  Mér sýnist það fremur langsótt að sækja hér líkingar í húsfélög og trampólín.

  Málið er tiltölulega einfalt við fyrstu sýn:
  Erlendir aðilar eiga 400 milljarða á íslenskum bankainnistæðum eða í skuldabréfum, sem íslenskir aðilar hafa samþykkt að greiða og eru borgunarmenn fyrir. Seðlabankinn býður eigendum þessara eigna (bankainnistæður og skuldabréf) að kaupa þær á hrakvirði (með afföllum ef maður er ekki hrægammasjóður!). Því óþolinmóðari sem erlendu aðilarnir eru að losna við eignir sínar, því hagstæðara verður hrakvirðið fyrir Seðlabankann. Þess vegna mun ríkisstjórn sem á sama tíma lýsir yfir áformum um að afnema gjaldeyrishöftin eins fljótt og hægt er – hvað þá ef hún nefnir dagsetningar – afar ólíkleg til að ná miklum árangri í slíkum viðræðum.

  Setjum þó sem svo að samningar náist við einhverja eða flesta erlendu eigendurna þá er sagan ekki öll sögð og málið flóknara:
  1. Seðlabankinn þarf að eiga gjaldeyri í handraðanum til að borga þeim út.
  2. Útstreymi gjaldeyrisins má ekki setja fjármálakerfið á hliðina.
  3. Seðlabankinn situr eftir með skuldabréf, sem hann þarf að koma í verð.
  4. Bankainnistæður eru lausar strax, en því óþolinmóðari sem stjórnvöld eru að fá peninga strax í hendurnar (t.d. til að uppfylla kosningaloforð), því lægra verð fæst fyrir eignirnar, þ.e. þær verða seldar áfram innanlands til íslenskra „hrægammasjóða“ og ávinningurinn minnkar að sama skapi.
  5. Íslenskir hrægammasjóðir er jafn líklegir og erlendir til vilja koma íslenskum krónum til útlanda, þannig að ný (minni) snjóhengja myndast við það eitt að það liggur á að efna kosningaloforð.
  6. Snjóhengjan er hluti af peningamagninu, en hefur vegna gjaldeyrishafta að mestu verið óvirk. Verði ávinningnum af því að þvinga (erlenda?) eigendur dælt til baka í mestu tilfærslum veraldarsögunnar (300 milljarðar = 1,5 milljón á hvern þeirra 193.792 sem greiddu atkvæði í síðustu kosningum), jafngildir það þvi að 300 milljarðar verði prentaðir og komið í umferð í einni svipan. Væntanlega hefur það áhrif á verðlag í landinu (einkum þar sem ráðgert er að dreifingin verði ójöfn og ekki fái allir að njóta). Mig brestur hins vegar þekkingu á viðeigandi formmúlum til að geta spáð nákvæmlega fyrir um þær afleiðingar.

  Það sem er framundan er afar áhugavert frá sjónarhóli hagfræðinnar. Ég er hins vegar sjálfur lítt spenntur fyrir því að verða tilraunadýr séríslenskra hagfræðikenninga. Ég veit að ég mun ekki fá neitt að 300 milljörðunum (átti ekki íbúð þegar hrunið skall á). Ég mun hins vegar sjá afleiðingar af slíkum stórkarlalegum tilfærslum í kaupmættinum og skuldunumm sem ég hef stofnað til eftir hrun.

  • Þetta er klárlega einfaldanir hjá mér, kannski full miklar, en ég sé ekki í fljótu bragði að nánari skýringar breyti eðli málsins.

   Annars vegar er ég að benda á að við erum ekki að fá peninga í vasann. Og hins vegar að kannski er betra til lengri tíma litið að bjóða hér upp á vænlegt umhverfi fyrir fjárfestingar.