Hiksti hjá Blikum

Posted: maí 12, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Blikarnir gerðu ekki beinlínis góða ferð til Eyja í Pepsí deild karla í dag.. en ekki hægt að segja að úrslitin gefi rétta mynd af leiknum.

Ég ákvað að kíkja á leikinn á næsta íþróttabar… en þegar ég mætti voru menn uppteknir af bikarafhendingu til Manchester United, mér var sagt að þeir myndu bíð eftir bikarnum, sem tók 10 mínútur… og svo liðu aðrar 25 á meðan einhverjar seremóníur og viðtöl voru í gangi. Hvernig má það vera að menn hafi frekar áhuga á syngjandi og spjallandi köllum, fjölskyldumyndum og einhverri dómsdags væmni.. en alvöru fótbolta í beinni útsendingu – á bar sem gefur sig út fyrir að vera íþróttabar.

En, að leiknum. Þetta gekk ekki.. og án þess að taka nokkuð af Eyjamönnum, sem börðust vel og voru markvissir í sínum sóknum – og greinilega mikil stemming í liðinu – þá fannst Blikahjartanu nú einhvern veginn úrslitin ekkert sérstaklega sanngjörn. Það er kannski ekki spurt að því, en ég lét aðeins fara í taugarnar á mér síendurtekið tal þulanna um að Eyjamenn vildu þetta meira. Þann rétt rúma hálfleik sem ég sá, áttu Blikar 4 skot í stöng eða slá, sennilega 15 hornspyrnur í seinni hálfleik og sóttu án afláts. Hvernig er hægt að líta á þetta sem viljaleysi.

Nú, það var svo eitt og annað að… tvö mörk í uppbótartíma sem bæð skrifast á kæruleysi er aldrei boðlegt. En verra fannst mér að sjá allt of margar háar sendingar, þess vegna upp í vindinn, hjá liði sem er best þegar það lætur boltann ganga með jörðinni. Og svo munar auðvitað um að lykilmenn voru kannski ekki að ná sér á strik.

En, kom ekki mark ársins hjá Kristni?

Lokað er á athugasemdir.