Posts Tagged ‘Blikar’

… til Blika

Posted: október 28, 2022 in Íþróttir, Fótbolti, Umræða
Efnisorð:, ,

Mig langar rétt að nefna eitt atriði við Blika í kjölfar yfirburðasigurs á Íslandsmótinu í fótbolta karla. Og rétt að taka fram strax að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þetta verði í lagi.

Það er gott, alveg frábært, að vera stoltur af sínu liði og njóta þess að horfa á liðið spila frábæran fótbolta og ná árangri þannig.

En fyrir alla muni ekki byrja að gera lítið úr leikmönnum eða stuðningsmönnum annarra liða.

Takið frekar þjálfara síðustu Íslandsmeistara, og auðvitað þjálfara og leikmenn Blika til fyrirmyndar, berið virðingu fyrir andstæðingum og sleppið einhverjum hallærilegum skotum og tækifærum til að gera lítið úr árangri eða sögu andstæðinganna.

Ég veit að einhverjum þykir þetta “sniðugt” og finnst þetta hluti af leiknum, en þetta er auðvitað yfirgengilega hallærislegt – svona einhver arfur frá fótboltabullum, sem hafa verið áberandi í Evrópu – kannski er þetta á einhverju stigi sprottið af sömu rótum og einelti [þó ég ætli nú auðvitað ekki að fara að bera það saman].

Blikinn Konni kvaddur

Posted: ágúst 15, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, , ,

Konráð Kristinsson er í margra hugum ímynd Blikans, þeas. stuðningsmanns Breiðabliks.

Konni, eins og hann var kallaður, lést fyrir nokkrum dögum 93 ára að aldri, og náði því að sjá félagið tryggja sér langþráða bikarmeistara- og Íslandsmeistaratitla í karlaflokki. Ég fer varla á völlinn án þess að verða hugsað til Konna, nú síðast þegar ég fylgdist með frábærri frammistöðu liðsins í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Ég kynntist Konna þegar ég vann fyrir meistaraflokk fyrir um tuttugu árum. Þá var hann liðsstjóri hjá meistaraflokknum, sá um búninga og að hafa alla hluti klára í leikjum og á æfingum. Mikilvægt starf en nánast ósýnilegt öðrum en leikmönnum, þjálfurum og þeim sem unnu fyrir liðið. Konni var alltaf með allt sitt á hreinu, lagði á sig ómælda vinnu við að hafa allt klárt og til staðar þegar á þurfti að halda.

Ég man samt best eftir Konna þegar við fórum með liðinu í æfingaferð til Danmerkur 1994, við deildum þá litlum kofa og það var bæði gaman og fróðlegt að spjalla við Konna eftir æfingar.

 

Hiksti hjá Blikum

Posted: maí 12, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Blikarnir gerðu ekki beinlínis góða ferð til Eyja í Pepsí deild karla í dag.. en ekki hægt að segja að úrslitin gefi rétta mynd af leiknum.

Ég ákvað að kíkja á leikinn á næsta íþróttabar… en þegar ég mætti voru menn uppteknir af bikarafhendingu til Manchester United, mér var sagt að þeir myndu bíð eftir bikarnum, sem tók 10 mínútur… og svo liðu aðrar 25 á meðan einhverjar seremóníur og viðtöl voru í gangi. Hvernig má það vera að menn hafi frekar áhuga á syngjandi og spjallandi köllum, fjölskyldumyndum og einhverri dómsdags væmni.. en alvöru fótbolta í beinni útsendingu – á bar sem gefur sig út fyrir að vera íþróttabar.

En, að leiknum. Þetta gekk ekki.. og án þess að taka nokkuð af Eyjamönnum, sem börðust vel og voru markvissir í sínum sóknum – og greinilega mikil stemming í liðinu – þá fannst Blikahjartanu nú einhvern veginn úrslitin ekkert sérstaklega sanngjörn. Það er kannski ekki spurt að því, en ég lét aðeins fara í taugarnar á mér síendurtekið tal þulanna um að Eyjamenn vildu þetta meira. Þann rétt rúma hálfleik sem ég sá, áttu Blikar 4 skot í stöng eða slá, sennilega 15 hornspyrnur í seinni hálfleik og sóttu án afláts. Hvernig er hægt að líta á þetta sem viljaleysi.

Nú, það var svo eitt og annað að… tvö mörk í uppbótartíma sem bæð skrifast á kæruleysi er aldrei boðlegt. En verra fannst mér að sjá allt of margar háar sendingar, þess vegna upp í vindinn, hjá liði sem er best þegar það lætur boltann ganga með jörðinni. Og svo munar auðvitað um að lykilmenn voru kannski ekki að ná sér á strik.

En, kom ekki mark ársins hjá Kristni?