Hvað skal kjósa? Önnur hugsun…

Posted: febrúar 9, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég setti inn færslu fyrir nokkrum dögum þar sem ég velti fyrir mér hvað ég ætli að kjósa í næstu kosningum. Kannski er þetta ótímabært þegar ekki er ljóst hvaða valkostir verða í framboði…

Fyrir utan það sem ég nefndi fyrst, þeas. að vinnubrögðin skipta miklu máli, þá eru nokkur mál sem eru frágangssök. Ég veit að ég finn ekkert draumaframboð og engan lista eða flokk sem ég verð sammála í einu og öllu. Og auðvitað er ég tilbúinn til að skoða öll mál og skipta um skoðun ef nýjar upplýsingar koma fram eða ef ég heyri góð rök.

En, að því óbreyttu, gef ég ekki afslátt af eftirfarandi atriðum (röðin skiptir ekki máli):

  • Fullan aðskilnað ríkis og kirkju, ég segi fullan til að losna við hártoganir og útúrsnúninga um núverandi fyrirkomulag.
  • Nýja stjórnarskrá á þessu ári, helst þá sem nú liggur fyrir, en það má auðvitað rökræða minni háttar breytingar. Framboð sem heldur því fram að núverandi stjórnarskrá sé bara nógu góð eða bíða megi með breytingar fær ekki atkvæði frá mér.
  • Afnám núverandi kvótakerfis, það má finna málamiðlun og gefa aðlögunartíma, en óbreytt kerfi með „eignarhaldi“ einstaklinga eða fyrirtækja á sameiginlegum auðlindum kemur ekki til greina.
  • Mannréttindi og málfrelsi verði færð til þess horfs sem þau eru í Evrópu og í fullri alvöru verði tekið á því að koma í veg fyrir frekari rassskellingar Mannréttindadómsstóls Evrópu.
  • Já og allt tal um afnám verðtryggingar er tóm tjara, amk. eitt og sér.
Athugasemdir
  1. Mér sýnist þú eiga fullkomna samleið með Pírötum:)

  2. Guðrún Ægisdóttir skrifar:

    En mætti verðtryggja laun- aftur?

  3. Einar skrifar:

    Ég kýs ekki Samfylkinguna með Árnapálslögin sem formann, Árna Pál meina ég fyrirgefðu.

    Hvað þá hrunaflokkarnir Sjálfstæðisflokkur eða Framsókn.

    Engan áhuga á Hægri grænum og matarpokunum úr fjölskylduhjálp…

    þetta er erfitt val og það er annaðhvort Píratar eða skila auðu svona miðað við það sem ég hef séð hingað til.

  4. Þór Saari skrifar:

    Hann á fullkomna samleið með Dögun, eins og Píratarnir =).

    • Einar skrifar:

      Ja nú ert þú hættur Þór og Hreyfingin búin að dreyfa sér.

      Þetta verður bara að koma í ljós á kjördag. 😉

  5. Anna skrifar:

    Hann á ekki fullkomna samleið með Dögun, þar sem Dögun vill afnema verðtryggingu.

  6. Ég er eiginlega ekki tilbúinn til þess að taka afstöðu strax, bæði eru fleiri þættir sem skipta máli, þó það séu ekki úrslitaatriði. Svo er ekki útilokað að flokkar skipti um skoðun fyrir kosningar, á málum eins og verðtryggingu. Fyrir utan nú það að við vitum ekki enn hvernig framboð þróast fram að kosningum, það kæmi mér ekki á óvart þó einhverjir samrunar / samstarf verði komið fyrir kosningar.