Það er mikið rætt um áfengi og lýðheilsu þessa dagana. Sumt stenst líkast til skoðun, annað er vægast sagt vafasamt og ansi finnst mér mikið um einfaldanir á (að því er virðist) flóknu samspili. Og ekki er ég sammála þeim ályktunum sem flestir virðast draga um orsakir og afleiðingar.
Margir telja víst að lýðheilsu hraki umtalsvert ef minni háttar breyting verður á fyrirkomulagi á sölu á áfengi. Skorpulifur er eitt dæmið sem er gjarnan tekið og líkast til er fylgni á milli dagdrykkju og hennar. Ekki veit ég hvort heildarneyslan hefur áhrif og ekki get ég sagt að ég sé sannfærður um að þær breytingar sem eru til umræðu leiði beint til aukinnar dagdrykkju.
Látum það aðeins liggja á milli hluta, því..
Hvað með aðra heilsuþætti? Nú þykist ég hafa séð ansi margar rannsóknir sem benda til að hófleg neysla áfengis vinni gegn mörgum sjúkdómum, gott ef ekki hjartasjúkdómum, jafnvel krabbameini, kannski ekki skalla [enda ekki sjúkdómur]. Svo er „hófleg neysla“ áfengis eitthvað sem ekki er vel skilgreint, amk. ekki enn.
Þannig að hvers vegna eru lýðheilsufræðingar að einblína á neikvæðu þættina, sem virðast jafnvel takmarkaðir við eitt neyslumynstur áfengis, en hunsa um leið alla mögulega jákvæða þætti?
PS. já, nei, ég veit ekki hvað þetta kallast, þeas. að halda áfram að röfla um eitthver smáatriði sem skipta mig litlu, bara vegna þess að umræðan fer í skapið á mér – en það hlýtur að vera til eitthvert læknisfræðilegt heiti.