Mýta og ekki mýta, spurningar…

Posted: mars 11, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Greinin Mýtan um skaðleysi frjálsrar sölu áfengis er á „upplyst.org“. Ég ætlaði að senda inn nokkrar spurningar, en þetta varð eiginlega full langt.

Smá inngangur samt.

Svo það fari ekkert á milli mála þá ber ég mikla virðingu fyrir greinarhöfundi og er sannfærður um að hann tekur spurningunum vel, getur kannski leiðrétt mig að einhverju (nú eða öllu) leyti eða svarað mér.. eða ef ekki, þá er ég viss um að hann tekur mark á þeim punktum sem ég nefni.

Þá er líka rétt að taka fram að ég mjög ánægður með síðuna „upplyst.org“, það er alveg til fyrirmyndar að halda úti síðu með gagnrýna hugsun að leiðarljósi og þar sem leitast er við að hafa réttar upplýsingar aðgengilegar.

En einmitt með gagnrýna hugsun að leiðarljósi langar mig að velta upp nokkrum spurningum.

Smá útúrdúr. Það er rétt að taka fram að ég styð núverandi frumvarp og myndi styðja þó allar upplýsingar og fullyrðingar í greininni væru réttar.. en það er önnur saga og önnur umræða.

Þá er líka rétt að hafa á hreinu að mér finnst þetta ekkert stórmál til eða frá og skiptir mig ekki miklu.

Ég hef hins vegar mikinn áhuga á upplýstri umræðu og að rétt sé farið með gögn og tölur. Ekki gef ég mig út fyrir að vera sérfræðing á heilbrigðissviði, en ég þykist hafa þokkalega reynslu af því að greina gögn og tölur.

Algengasta villan við meðferð upplýsinga er að gefa sér að tölfræðileg fylgni þýði orsakasamhengi. Auðvitað getur fylgni bent til þess en oft kemur upp í hugann dæmisagan um borgarstjórann sem vildi banna sölu á rjómaís til að minnka dauðsföll af völdum drukknunar! Það þarf nefnilega að skoða hvað er á bak við tölurnar og sérstaklega þarf að varast að draga ályktanir út frá meðaltölum, það þarf að skoða undantekningarnar og frávik. Undantekningar geta átt sér sínar eðlilegu skýringar, en þær eru einmitt oft vísbending um annað og / eða flóknara orsakasamhengi en virðist þegar skautað er yfir gögnin.

Ég hef ekki skoðað öll skjöl og skýrslur sem eru í boði enda talsvert mikið í boði [og þetta er ekki aðalatriðið], en ég skoðaði gagnagrunn WHO, WHO Data Repository, fyrir nokkru og staldraði við..

Þannig, svo ég komi mér að efninu, þá eru hér nokkrar spurningar:

  1. Áfengisneysla jókst vissulega hér á landi í kjölfar þess að bjórinn var leyfður, en dróst svo saman og var orðin minni en áður en bjórinn var leyfður (án þess að hann væri bannaður aftur) og jókst svo aftur (án þess að vörutegundum væri fjölgað) – getur hugsast að fleiri þættir en það að leyfa bjór hafi áhrif á heildarneyslu?
  2. Einhverjar helstu áhyggjur andstæðinga bjórsins var að unglingadrykkja myndi aukast, hún hefur hins vegar dregist saman (amk. svo langt sem ég veit, en mögulega eru tölur þarna ekki óyggjandi) – getur verið að aðrir þættir eins og fræðsla og forvarnir hafi mun meiri áhrif?
  3. Áfengisneysla jókst jafnt og þétt eftir aldamót, en dróst saman eftir hrun og hefur aukist aftur.. getur verið að almennt efnahagsástand skipti mestu?
  4. Áfengisneysla virðist haldast nokkuð vel í hendur við almenn kjör og nokkur fylgni virðist vera á milli bíla, sjónvarpstækja (flatskjáa) og áfengisneyslu – getur verið að sameiginleg orsök sé meiri eftirspurn vegna betri kjara?
  5. Getur hugsast að útsölustaðir, sérstaklega í formi veitingastaða, séu til að mynda háðir eftirspurn (betri lífsskjör, fjölgun ferðamanna), ekki löggjöf eða ákvörðunum ríkisins?
  6. Skaðsemi (hlutfallsleg dauðsföll) sem rakin er til áfengisneyslu er minni á Ítalíu (1,6) en á Íslandi (2,1) þrátt fyrir að áfengi sé selt í matvöruverslunum – getur verið að aðgengi að áfengi og skaðsemi haldist bara ekkert endilega í hendur?
  7. Ef við skoðum sömu greiningu á skaðsemi þá eru tölurnar eiginlega út og suður, til dæmis má benda á skaðsemi í Bretlandi (3,4) en í Sloveníu (7,9) þrátt fyrir að neysla sé eins – er mögulegt að aðrir þættir en heildarneysla skipti máli?
  8. Áfengisneysla á Möltu er minni (5,4l) en í Finnlandi, (12,5l), þrátt fyrir að (amk. eftir því sem ég best veit) vín sé selt í matvöruverslunum á Möltu en aðeins í ríkisreknum verslunum í Finnlandi – getur verið að það sé einfaldlega ekki einhlítt samhengi á milli fyrirkomulags áfengissölu og áfengisneyslu og málið miklu flóknara?
  9. Það birtast oft rannsóknir sem benda til að hóflega neysla áfengis vinni gegn margs konar sjúkdómum, ég játa að ég þekki ekki hversu vandaðar þær rannsóknir eru – en getur hugsast að þrátt fyrir ákveðna skaðsemi af völdum óhóflegrar drykkju þá séu aðrir kostir sem vega þungt á móti? Ef rétt er, er varlegt að horfa eingöngu á neikvæðu hliðarnar?
Athugasemdir
  1. upplysandi skrifar:

    Takk fyrir gagnrýnina Valgarður. Það kemur fram í grein minni að efnahagsástand hafi áhrif á neysluna og að aðrir þættir en framboð eru ekki útilokaðir. Það er erfitt að segja til um orsakasamhengi þessara hluta og líkast til er um flókið samspil ýmissa þátta að ræða. Menningaráhrif skipta eflaust máli eins og dæmin um Ítalíu og Möltu sem þú nefnir. Vínmenning, þ.e. neyslumynstur okkar Íslendinga hefur eflaust eitthvað breyst frá því að bjórinn var leyfður árið 1989 því að mikil uppfræðsla varð á margbreytileika léttra vína.

    Lýðheilsurannsóknir eru flestar á þá lund að aukið aðgengi auki drykkju og færi neysluna einnig niður í aldri. Í frumvarpinu er þetta „óvart“ viðurkennt því að áfengið á að vera á afviknum stað í búðunum og lúta ákveðnum reglum. Ef að við horfum til mismunandi frelsis innan hverrar búðar þá má spyrja sig um það hvað fólki þætti um það að áfengi yrði einnig selt í handhægum flöskum við kassana, innan um súkkulaðið. Það er vel þekkt í sálfræði markaðsins að staðsetningar vara í verslun skipta talsverðu máli og „freistingar“ eru jafnan settar við kassana þannig að það sé erfitt að horfa fram hjá þeim. Sama gildir um áfengi.

    Hin hóflega neysla áfengis sem er 1-2 eining áfengis fyrir karla og hálf-ein eining áfengis fyrir konur, virðist vera heilsusamleg fyrir hjarta- og æðakerfið. Það er gott og blessað en hjálpar ekki við að leysa vanda óhóflegrar drykkju. Þar gildir að hafa félagsmótandi áhrif og eitt besta úrræðið sem við höfum þar er að takmarka aðgengi. Allir aðilar úr heilbrigðiskerfinu sem skiluðu inn umsögn um frumvarpið eru þessarar skoðunar. Skýrsla WHO er þessu sammála og mælir með félagslegum temprunaraðgerðum. Það mælir enginn með einhlítum bönnum enda reynt að það veldur stórfeldum svartamarkaðsvanda og elur glæpi, fyrir utan óréttmætu frelsisskerðinguna.

    Bk – Svanur

  2. Takk fyrir,

    Ég á við hvort ekki megi færa rök fyrir að efnahagsástand sé miklu stærri þáttur en þú virðist gera ráð fyrir, sé jafnvel ráðandi þáttur að öðru óbreyttu.

    Kannski er punkturinn hjá mér að þetta er flókið samspil og ekkert sem einangrar breyturnar nægilega til að gefa sér að sala áfengis í matvöruverslunum hefði veruleg áhrif til lengdar.

    Mér finnst greinin einfalda meira en gögn og rannsóknir gefa tilefni til og sé ekki að gögnin leyfi svona fullyrðingu eins og birtist í fyrirsögninni.

    Ég sé reyndar ekki að það sé neitt óvart við að áfengi eins og sígarettur séu háð ákveðnum reglum eða að það tengist aldri á nokkurn hátt.

    Vínmenning hefur breyst gríðarlega á 30-40 árum, ef ég má leyfa mér að dæma út frá eigin umhverfi 🙂 – og ég vil meina að bjórinn og fræðsla hafi átt talsverðan þátt í því.

    Ég deili ekki um skaðsemi óhóflegrar neyslu eða mikilvægi þess að vinna gegn henni. Fræðsla, forvarnir og aðstoð virðast hins vegar mun mikilvægari þættir en takmarkað aðgengi. Ef ég lít til reynslu þá hef ég ekki séð að takmarkaður opnunartími eða færri staðir hafi áhrif hjá þeim sem eru í vandræðum vegna óhóflegrar drykkju, þetta eru fyrst og fremst óþægindi fyrir okkur hin. Gott og vel, það telur ekki mikið að miða við eigin reynslu.. sú reynsla varð hins vegar til að ég fór að efast og skoða gögn og tölur. Og þegar ég skoða tölur sem WHO byggir sínar fullyrðingar á (að því mér sýnist að mestu leyti) og sem heilbrigðistéttir vísa aftur gjarnan til.. þá er eiginlega ekki innistæða fyrir fullyrðingunum.

    Það telur sem sagt afskaplega lítið þó allir í heilbrigðiskerfinu hafi einhverja skoðun – ef sú skoðun stenst ekki „skoðun“, þá er það ekki mikils virði.

    Svo ég rifji nú upp sögu af Einstein [veit ekki hvort hún er sönn, en hún er góð] þar sem hann var spurður um hvað honum fyndist um grein 100 eðlisfræðinga gegn afstæðiskenningun Einsteins.. svarið var, „Hundrað? Ef ég hefði rangt fyrir mér þá þyrfti bara einn“!

  3. svo hefur þú væntanlega séð http://www.dn.se/nyheter/sverige/mer-alkohol-gav-inte-mer-vald/

    „Stuttur“ úrdráttur:

    Við aðild að ESB hélt Svíþjóð eftir systembolaget en þurfti að afnema einokun á heildsölu og innflutningi áfengis, sem þýddi að framboð á bjór og víni jókst mjög verulega. Á milli 1985 og 2010 fimmfaldaðist fjöldi pöbba og annarra staða með vínveitingaleyfi, ríkið þar í landi fór að opna á laugardögum og opnunartími skemmtistaða í stórborgum var rýmkaður. Neysla áfengis jókst frá 8-10 lítrum á mann á ári milli 1996-2004 en minnkaði í kjölfarið og er nú 9,3 lítrar. Meðaltalið í ESB er 12-13 lítrar Hlutfall Svía sem kom með áfengi frá útlöndum féll úr 64% í 46% á árunum 2001-2009. Hlutfall fólks sem smyglaði áfengi heim jókst í 4,5% árið 2005 en hefur síðan minnkað í 2%. Tíðni áfengistengdra sjúkdóma og dauðdagar jókst verulega á 8. áratugnum en minnkaði í kjölfarið og hefur síðan haldist stöðugt. Sumar tegundir slysfara hafa aukist síðan á miðjum 10. áratugnum, aðrar tegundir hafa dregist saman. Fjöldi lífshættulegra ofbeldisverka hefur dregist smám saman saman undanfarna áratugi í Svíþjóð, sú þróun hefur haldið áfram með auknu frjálsræði í áfengissölu, hlutfall tilvika þar sem ofbeldismaður var ölvaður var 45% á árunum 2002-2008, talsvert minna en á 10. áratugnum. Hlutfall morða sem eru framin með hnífum í tengslum við skyndileg áflog minnkaði frá 20% í 14%.

    „One theory is that our drinking culture is becoming more continental, and that the generation that grew up in the 1940s and 1950s, who were socially marginalized (sic) and drinking liquor in the home, is dying out. Although we drink more per capita now we drink in a way that may not be as violence-inducing, „says criminologist Sven Granath.