Við Fræbbblar gáfum út plötuna „Í hnotskurn“ í fyrra. Platan fékk afbragðs umsagnir, einhverja spilun í stuttan tíma á Rás2, aðrar útvarpsstöðvar voru ekki heima, streymið alveg þokkalegt en plötusala hverfandi. Okkur grunaði það svo sem fyrirfram og ekki höfðum við gert ráð fyrir að geta hætt í vinnunni.
Við spiluðum nokkrum sinnum til að kynna plötuna, á Akureyri, tvisvar í Hafnarfirði, á Bifröst og að lokum í Reykjavík. Ég veit ekki betur en að það hafi tekist nokkuð vel til, kannski skemmtilegast að sjá ánægða óvænta gesti.. ungt fólk, innlent sem erlent, sem datt inn fyrir tilviljun.
Þannig að við erum að loka þessum kafla á ferlinum. Einhver laganna af plötunni lifa eflaust áfram en önnur detta „í salt“. Sama gildir um megnið af lögunum sem við höfðum æft upp fyrir „punk“ kvöldin, þeas. annarra manna efni frá árdögum „punksins“, við leggjum þau til hliðar.
Og næsta verkefni er löngu tímabært.. Sem er að fara að semja nýtt efni, efni á næstu plötu. Á meðan gamla efnið var óafgreitt þá var einhverra hluta vegna vonlaust að vera að bæta við safnið, ég kom mér amk. ekki að verki.
En það er fullt af hugmyndum og ég get ekki beðið eftir að fara að vinna úr þeim.
Þetta þýðir auðvitað minni spilamennsku næstu mánuði – en það gerir svo sem ekki mikið til, það er ekki eins og við höfum verið að spila mjög reglulega. Við getum auðvitað mætt ef sérstakt tilefni er til og við myndum eins og alltaf taka jákvætt í að vera með í að styrkja góð málefni. En við látum stærri hljómleika og eigin hljómleika liggja á milli hluta.
Þá tekur Arnór, gítarleikari, sér frí seinni hluta ársins.. flytur til Noregs í allt of marga mánuði.
Steini, sem hefur verið svona annar bassaleikari, ætlar líka að segja þetta gott í bili.. líklega kemur Ellert, sem var með okkur til 2000, til með að taka það hlutverk.