Tónlist, er þetta þá ekki ný kynslóð af „afætum“?

Posted: mars 16, 2016 in Tónlist, Umræða

Ég er löngu búinn að fá mig fullsaddan af kjaftæðinu um að það sé allt í lagi að stela tónlist, tónlistarmenn eigi bara að sætta sig við að öllum finnist í lagi hirða það sem þeir framleiða, þeir verða svo voðalega frægir af þessu að þeir geta bara sætt sig við að fá ekki krónu fyrir sinn snúð.

Það er rétt að tæknilega er erfitt að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal. Siðferðilega er þetta hins vegar ekki svo flókið, eiginlega sáraeinfalt. Það sem verra er, fólk sem telur sig boðbera réttlætis og siðferðis hefur hæst þegar kemur að því að hunsa siðferðið þegar kemur að tónlist.

Ein rök fyrir að stela tónlist hafa verið þau að tekjurnar hafi gegnum tíðina farið til einhvers konar „afætna“ í tónlistarheiminum – þeas. útgefenda og þeirra sem hafa keypt höfundarrétt. Það eru (stundum réttilega) tekin dæmi um að tónlistarmenn hafi verið hlunnfarnir. En þetta er mikil einföldun, útgefendur sinntu oft þörfu hlutverki, þetta var einfaldlega sérhæfð vinna, oft veðjuðu þeir á óþekkta listamenn sem annars hefðu aldrei náð athygli en náðu að lifa af tónlistinni. Og það gleymist líka að oftar en ekki veðjuðu útgefendur á tónlistarmenn sem engu skiluðu – og töpuðu.

En útgefendur voru ljótu-kallarnir og allt í lagi að stela tónlist þess vegna, að minnsta kosta ef marka má málflutningi þeirra sem verja þjófnaðinn.

Svo eru komnar veitur sem lifa af því að leyfa neytendum að streyma tónlist og jafnvel kaupa rafrænt. Í sjálfu sér ekki slæmt, en greiðslurnar eru út úr korti (kannski ekki heppilegt að tala um „kort“). Það sem verra er, það er ekki lengur svo sjálfgefið að setja tónlist í sölu.. það hafa sprottið upp alls kyns þjónustufyrirtæki til að hjálpa tónlistarmönnum að gefa tónlistina eða selja fyrir smáaura. Þeirra þjónusta kostar auðvitað sitt. Og hverjir borga?

Nú eru það ekki mín orð að kalla þetta „afætur“. Þvert á móti. Þetta er einfaldlega fólk / fyrirtæki sem leggur fram þjónustu og vinnur vinnu sem eftirspurn er eftir. Eins og útgefendur gerðu hér áður fyrr. Sumir gera þetta af hugsjón, eins og sumir útgefendur gerðu hér áður fyrr.. aðrir þurfa að lifa af vinnunni sinni, eins og (já, einmitt).

En þeir sem hafa notað afæturökin og halda að við búum í Doddabókunum í dag, þar sem tónlistarmenn lifa á loftinu og enginn annar fái tekjur af tónlistinni – þeir eru eiginlega mát.

Lokað er á athugasemdir.