ég veit að þið eruð fullir tortryggni og það þýðir kannski ekki mikið að segja ykkur að þetta sé ekki illa meint.
En þetta er ekki illa meint.
Ég hef fylgst með íslenskum stjórnmálum frá því að ég var krakki. Jónatan frændi kom öðru hverju í heimsókn á laugardögum og spjallaði um daginn og veginn, þjóðmálin og Framsóknarflokkinn, sem hann kaus samviskusamlega í hverjum kosningum.
Ég hef reyndar aldrei verið stuðningsmaður Framsóknarflokksins, verið ósammála stefnu flokksins í mörgum lykilatriðum – en þarna hafa verið margir í forystu sem ég hef borið virðingu fyrir. Ég held að ímyndin sem ég hef haft sé best lýst með að þarna hafi verið flokkur sem ég er hjartanlega ósammála í mörgum málum en er samt heill í sínum skoðunum og því sem þeir standa fyrir.
Ég var svo ekki spenntur fyrir kosningaloforðum flokksins fyrir síðustu kosningar.. en ég hafði ekki svo miklar áhyggjur, þarna voru nokkrir einstaklingar sem ég kannaðist mismikið (eða mislítið) við og treysti til að halda haus.
En ég hef áhyggjur af því hvert flokkurinn stefnir..
Öll umræða, málefnaleg gagnrýni, spurningar og efasemdar verða til að hlaupið er upp til handa og fóta..
- það eru allir, meira að segja Rúv, í samsæri gegn flokknum
- það er í einu orðinu viðurkennt að formaðurinn hafi brotið siðareglur en um leið fylgja upphrópanir um það sé lágkúra að ræða málið
- þeir sem biðja um skýringar eru uppnefndir
- þeir sem viðra skoðanir sem ekki er flokknum að skapi eru ómerkilegir
- fullyrt að búið sé að svara spurningum sem aldrei hefur verið svarað
- og til að kóróna vitleysuna er farið að bera á leiðtogadýrkun sem nær út fyrir öll mörk.
Fyrir alla muni hættið þessu.
- svarið spurningum málefnalega
- svarið að minnsta kosti spurningum án þess að hjóla í fyrirspyrjanda
- ekki uppnefna þá sem spyrja óþægilegra spurninga – aftur: svarið frekar spurningunum
- ekki sjá samsæri í hverju horni þó einhver sé ykkur ekki sammála, það kemur alveg fyrir besta fólk að einhver er því einfaldlega ósammála án þess að um einhverja illkvittni eða samsæri sé að ræða
- látið af þessum tilburðum til persónudýrkunar, þetta er einfaldlega hlægilegt, við erum ekki í Norður Kóreu…
Þetta er vel orðaður og hófstilltur pistill.
Takk fyrir þetta – er þetta ekki bara líka þörf áminning fyrir okkur öll 🙂