Fræbbblar í fjörutíu ár

Posted: nóvember 23, 2018 in Tónlist
Efnisorð:

Úff!

Það er víst liðin fjörutíu ár frá því að við Fræbbblar spiluðum í fyrsta skipti, á Myrkramessu Menntaskólans í Kópavogi, 25. nóvember 1978.

Við Stebbi höfðum fylgst með spennandi hreyfingu á tónlist, aðallega á Bretlandi, en eitthvað í Bandaríkjum Norður Ameríku og jafnvel víðar. Vinirnir gáfu nú ekki mikið fyrir þetta og voru mest að hlusta á Genesis, Yes, ELP, Pink Floyd og hvað þær hétu allar…

En svo kom tilefni til að láta heyra í okkur, við vorum ósáttir við skólameistara MK, Ingólf Þorkelsson, fannst hann látið einn félaganna sitja eftir að óþörfu. Þá var um að gera að fá að spila á Myrkramessu skólans og láta meistara heyra hvað okkur fannst.

Við Stebbi vorum sjálfkjörnir, Barði – sem var ósáttur við skólameistara – þurfti nauðsynlega að vera með. Haddi vinur okkar Barða var nauðsynlegur svona tónlistarinnar vegna. Og einhvern veginn kynntumst við Steina, að sama skapi nauðsynlegur á bassa. Stebbi var fljótur að læra á trommur og við Barði skiptum söngnum á milli okkar. Með Steina kynntumst við Assa og Rikka sem aðstoðuðu okkur við græjur og æfingar, Ísberg bræðurnir Árni og Jóhann lánuðu okkur græjur.

Það var nú ekki hlaupið að því að fá að spila. Nefndin sem sá um að halda hátíðina var engan veginn sannfærð um að við ættum erindi á svona hátíð, kannski réttilega, en við áttum einhverja hauka í horni í nefndinni, ma. Kristján Gíslason, sem á rúman hálftíma sem trommari í Klúbbnum.

Það hafðist nú samt að fá að spila og ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að „betri borgurum“ bæjarins hafi brugði nokkuð við djöfulganginn. Skólameistari var nú ekki beinlínis sáttur en við Bjarni, ljósamaðurinn okkar, var ljósamaður á hátíðinni og slökkti ljósin þegar skólameistari hélt sína ræðu!

Ég var svo sem kallaður á fund skólameistara eftir þetta og hann var engan veginn sáttur, en eftirmálar innan skólans urðu svo sem ekki meiri.

Við hittumst auðvitað seinna og vorum sáttir, er nokkuð viss um að hann var eiginlega nokkuð stoltur af því að upphaf punksins á Íslandi hafi verið í MK.

Þetta átti svo sem bara að vera eins dags fyrirbæri, gott ef við spiluðum samt ekki á Myrkramessuballinu um kvöldið.

En þarna voru líka ungir menn að leita að efni í sjónvarpsþætti um félagslíf í menntaskólum landsins, þeir Eiríkur og Jakob. Þeim fannst þetta smellpassa í þættina. Þá var ekki annað í boði en að halda okkur gangandi með spilamennsku þar til kæmi að upptökum. Atriðið var tekið upp í sjónvarpssal í byrjun febrúar (muni ég rétt) 1979, en aldrei sýnt, ég held að ekkert hafi orðið úr gerð þáttanna yfirleitt. Og á endanum var tekið yfir þetta, enda spólur rándýrt hráefni á þessum árum.

Því miður.

Eiríkur og Jakob bera þannig talsverða ábyrgð á að hljómsveitin hélt áfram.

Helgi Briem á einnig nokkra sök á þessu…

Á meðan við vorum að halda okkur gangandi sá hann okkur spila, skrifaði lesandabréf í DV og hrósaði okkur í hástert.

Við áttum sem sagt aðdáanda. Það var næsta afsökun fyrir að halda áfram.

En það var einhver neisti kveiktur og þetta var einfaldlega of gaman til að hætta.

Eflaust hefðu leiðir okkar legið í hljómsveitir hvort sem er, svona á endanum, en sú saga orðið allt öðru vísi.

Ég, Assi og Rikki erum enn meðlimir, Steini er enn með, en svona meira sem vara bassaleikari. Gummi er kominn á trommur, Helgi á bassa og Iðunn hefur sungið með okkur.

Ekki má samt gleyma Tryggva og Steinþóri, sem ásamt okkur Stebba mynduðu kjarnann sem þegar við unnum stóru plöturnar fyrstu árin. Dagný, Óskar, Kiddi, Hjörtur, Ellert, Brynja og Kristín komu öll þó nokkuð við sögu, Ari æfði með okkur og samdi lög en spilaði aldrei, Sigurgrímur æfði en spilaði ekki, Siggi og Snorri komu inn í hljómsveitina á lokametrunum fyrir hlé 1983. Jú og Mikki Pollock spilaði stundum með okkur og samdi lög fyrir okkur. Bjarni var meðlimur 1980 sem ljósamaður og Gunnþór sem rótari.

En, já, úff. Fjörutíu ár.

Við ætlum að halda upp á þetta á Gauknum, laugardagskvöldið 24. nóvember, opið hús, frítt inn, nýr bjór, Bjór! kynntur til sögunnar, einhver dagskrá, en aðallega gamaldags „partý“.

Athugasemdir
  1. Kristján Pétur Sigurðsson skrifar:

    40 ár eru langur tími á mannsævimælikvarðanum. Frábært hjá ykkur að hafa haft gaman að þessu allan þennan tíma. Til hamingju og rokkjú