Archive for the ‘Tónlist’ Category

Útvarp Saga og lögin mín…

Posted: september 23, 2015 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég er nokkuð viss um að Útvarp Saga hefur aldrei spilað eitt einasta lag sem ég hef samið, eða yfirleitt flutt. Reyndar ekki alveg viss, því ég hef ekki hlustað í þó nokkurn tíma. Og mér þykir afskaplega langsótt að þeim detti í hug að spila nokkuð sem ég hef sent frá mér.

Fyrir utan það að ég er engan veginn viss um að ég hafi beinlínis lagalegan rétt til að banna ákveðnum stöðvum að spila efni sem ég hef gefið út, þó ég geti vissulega sent vinsamleg tilmæli og höfundarréttarlögin vísi í að höfundar megi takmarka í hvernig samhengi lög (og annað) eru notuð.

Aðalatriðið er… að ef Útvarp Saga hefur áhuga á að spila eitthvað sem ég hef gefið út, þá vil ég endilega að þau einmitt spili sem mest. Og ég mæli sérstaklega með lögum eins og Litir, Ó Fræbbblar vors lands, Þúsund ár, Í hnotskurn, Hengdum í eigin heimsku, SkeytiJudge A Pope Just By The Cover, Brains, Dauði, Og upp rísa iðjagrænir Fræbbblar, 20. september 1997, For God – jafnvel Ótrúleg jól þegar þar að kemur.

Við Fræbbblar gefum út nýja plötu í dag, Í hnotskurn. Fyrsta platan sem við gefum út síðan 2004. Einhver stök lög hafa reyndar dottið í sölu á vefsíðum og eitt á safnplötu Dr. Gunna.. Snarl IV.

Við áttum eitt lag, „Bugging Leo“ frá upptökum 2011 sem Friðrik Helgason tók upp að grunni, Arnór Sigurðsson tók upp söng og hljóðblandaði með Jens Hanssyni. Lagið kom út á Snarl plötu Dr. Gunna í fyrra.

Í raunninni var þetta þriðja tilraun til að taka plötuna upp. Við fórum í Stúdíó Friðriks og Jóhanns 2011 og tókum upp slatta af grunnum, um 15 lög. Vorum ekki alveg sátt, eflaust spilaði eitthvað inn í að Helgi tók upp á að fótbrjóta sig rétt fyrir upptökur. Við reyndum aftur um ári seinna, en aftur vorum við ekki sátt. Nokkur lög fóru þó í vefsölu, ýmist kláruð þarna eða í Stúdíó Baron hjá Rikka.

Svo er þetta búið að hanga yfir okkur í þrjú ár, komum ekki í verk að semja neitt nýtt, fannst við þurfa að klára þetta áður en við færum að bæta við. Við ákváðum svo í vor að gera eina tilraun enn, fækka lögunum og vera kannski betru æfð. Við létum „Bugging Leo“ vera og notuðum óbreytt. Friðrik var hættur með stúdíóið og við ákváðum að fara topp stúdíó..Sýrland varð fyrri valinu og Sveinn Kjartansson sá um upptökur.

Við tókum flesta grunnana á nokkrum tímum, bættum 3 grunnum við daginn eftir og spiluðum nokkra gítara. Sveinn Kjartansson sá um þessar upptökur í Sýrlandi. Ríkharður (gítarleikari) tók svo lögin til frekari skoðunar, upptöku á söng og einstaka gítar sem hafði misfarist. Ríkhaður sat svo dögum saman og gerði grunn hljóðblöndun áður en við mættum aftur til Svenna í Stúdíó Sýrland að ganga frá hljóðblöndun og endanlegu hljóði („masteringu“). Sýrland framleiddi svo nokkra geisladiska fyrir okkur, Palli sá um það verkefni.

Platan kemur í búðir seinni part dags, amk. í plötubúðunum Lucky RecordsSmekkleysu og 12 tónum og á vefsíðunum tonlist.is og Synthadelia. Vonandi bætast fleiri við fljótlega.

Til þess að gera fáir geisladiskar voru framleiddir og verða til sölu í bestu plötubúðunum.

En tólf lög, öll frumsamin.

Forsíða

datt inn um bréfalúguna hjá mér um daginn, svona til kynningar, heitir „Controlling the world from my bed“.

Alltaf gaman að fá nýja tónlist, ég geri reyndar allt of lítið af því að bera mig eftir nýjunum þessa dagana. Eins og gengur er efni sem dettur inn mis gott – og jafnvel þó það sé gott, mis mikið fyrir minn (stórskrýtna) smekk.

En Casio Fatso komu ánægjulega á óvart.. skemmtilegt „sánd“, kannski sérstaklega gítararnir, flott lög og fínn „character“ (hvað sem ég svo aftur meina með því).

En, enn sem komið er einn af bestu diskum ársins og á eftir að vera á spilunarlistunum („playlistum“) mínum.

Tónlist, hvernig skal gefa út???

Posted: júlí 17, 2015 in Tónlist
Efnisorð:

Nú þegar við Fræbbblar vorum að hefja upptökur, reyndar í þriðja skipti, á nýrri plötu þá er óneitanlega snúið að ákveða hvernig best er að gefa þetta út.. þeas. þannig að allir sem vilja vita, viti af, geti nálgast efnið og jafnvel stutt okkur þannig að við látum kannski verða af því að gefa út meira í framtíðinni.

Sennilega er einfaldast að setja þetta í vefsölu. Eða einfaldlega láta efnið liggja á einhverjum vefþjóni sem allir geta nálgast. Ekkert nafn á plötunni, ekkert umslag, engar upplýsingar og engir textar. Það er ekkert rosalega spennandi, en kannski er það raunveruleikinn.

Það mætti reyndar pakka lögunum saman í plötu með helstu upplýsingum þó hún verði í sölu á vefsíðu.

Og það mætti örugglega koma þessu vel á framfæri í samvinnu við net-tónlistar-útgáfur.

Svo má búa til eitthvað af geisladiskum og setja í sölu. Þá myndi platan örugglega heita eitthvað og helstu upplýsingar yrðu aðgengilegar. En, okkur skilst að geisladiskasala fari minnkandi, geisladiskaspilarar séu jafnvel ekki til lengur á heimilum. Þá borgar sig ekki að framleiða diska nema fyrir ákveðið lágmark.

Minnislykill er tilbrigði við þetta, sennilega ekkert eða lítið lágmark.

Svo eru nokkrir félagar búnir að óska eftir að fá gripinn á vinyl. Þetta skilst okkur aftur að sé enn stærri pakki, þeas. dýrara og meiri vinna – og eftirspurnin jafnvel enn minni, en kannski þeir sem mestan áhuga hafa.

En, allar hugmyndir vel þegnar.. við ákveðum ekki endanlega fyrr en efnið er tilbúið.

Sex á tíu

Posted: júlí 15, 2015 in Tónlist
Efnisorð:, , ,

Við Fræbbblar spiluðum í Hörpunni, 28. febrúar 2013, til stuðnings Ingólfi Júlíussyni.

Viktor Orri tók okkur upp á videó og við fengum hljóðið frá starfsmönnum Hörpunnar.

Annar gítarleikari okkar Fræbbbla, Ríkharður H. Friðriksson, hefur nú hljóðblandað þetta og við settum hljóðið við myndirnar sem Viktor tók.

Árangurinn má sjá á Fræbbblarnir í Hörpu – Sex á tíu.

Þetta eru hráar upptökur, engu er bætt við, ekkert er tekið út og engin hlé eru falin.

Sex lög á rétt rúmlega tíu mínútum.

Við erum að minnsta kosti nokkuð sátt. Auðvitað eru einhverjir minni háttar hnökrar í spilamennsku og söng. Og hljóðið var auðvitað ekki tekið upp með útgáfu í huga.

Lögin eru:

 • CBGB’s
 • Ljóð
 • Bjór
 • Judge a pope just by the cover
 • Hippar
 • Æskuminning

Þarna spiluðu:

 • Guðmundur Gunnarsson – trommur
 • Helgi Briem – bassi
 • Arnór Snorrason – gítar, söngur
 • Ríkharður H. Friðriksson – gítar
 • Valgarður Guðjónsson – söngur, gítar
 • Iðunn Magnúsdóttir – söngur
 • Brynjar Arnardóttir – söngur
 • Kristín Reynisdóttir – söngur

Og eins og einhver sagði við okkur eftir hljómleikana, „Þetta var fínt hjá ykkur, en þurfið þið að gaufa svona mikið á milli laga?“

En fínt að birta þetta nú þegar upptökur á nýju plötunni okkar fara af stað í þriðja sinn.

Svei mér þá ef TV Smith er ekki að koma að spila í bænum næstu helgi.

Fyrir þá sem ekki vita hver TV Smith er.. þá var hann „forsprakki“ hljómsveitarinnar The Adverts.

The Adverts áttu nokkur skemmtileg lög þegar punkið stóð sem hæst á Englandi. Ég held að það sé varla gefin út safnplata með lögum frá upphafsárum punksins sem ekki er með Gary Gilmore’s Eyes, sem meira að segja fór nokkuð hátt á vinsældalista.

The Adverts notuðu „One Chord Wonders“ (eins hljóms undur) sem einhvers konar slagorð eftir fyrsta laginu sem þau gáfu út. Fyrsta stóra plata hjómsveitarinner, Crossing The Red Sea, er yfirleitt talin með bestu plötum þessara ára.

Ég hef ekki heyrt í TV Smith einum og sér, séð nokkur skemmtileg videó, en Júlíus nokkur Ólafsson hefur nokkrum sinnum séð hann spila á StrummerCamp tónlistarhátíðinni í Manchester… og rauk til og bauð honum til Íslands.

Ég hef verið að kíkja á nokkrar upptökur með honum og hann er eiginlega helv.. góður.

TV Smith spilar á Gauknum næsta laugardagskvöld. Við Fræbbblar spilum með og sömuleiðis hljómsveitin Gímaldin.

Facebook viðburðurinn er hér.. https://www.facebook.com/events/880074648724650/ og þar eru nokkrar tilvísanir í lög.

Við Fræbbblar eigum lag á nýrri safnplötu, Snarl 4 – Skært lúðrar hljóma.

Kominn tími til að við Fræbbblar eigum lag á Snarli og eiginlega bara nokkuð skemmtileg samsetning hjá Doktor Gunna.

En ítarlegri upplýsingar má finna hjá Dr. Gunna.

Auðvitað er rétt að loka síðum eins og „deildu“. Það má vera að það sé ekki erfitt að fara fram hjá svona lokunum og væntanlega finna þeir sem reka þetta sér aðrar leiðir.

Og auðvitað eru til betri leiðir til að berjast gegn ólögmætri dreifingu efnis, þeas. þjófnaði.

En það eru kostir við svona lokanir.

Þetta truflar fyrir og tefur rekstur á svona síðum.

Þetta sendir ákveðin skilaboð og áminningu um að þetta er ekki í lagi. Ef þjófnaður er látinn óátalinn (svona almennt séð) þá eru það skilaboð til þeirra sem vilja stela að þetta sé í rauninni í góðu lagi.

Mögulega fara einhverjir þeirra sem hafa notað síðurnar að hugsa sinn gang.

Og kannski verður það til þess að færri missa vinnuna, td. við framleiðslu á efni, útgáfu tónlistar. Jú það eru staðfest dæmi þess að hætt hefur verið við framleiðslu á sjónvarpsefni vegna þess að fyrri hlutar voru „í boði“ á deildu. Er það ekki hið besta mál?

Tommy Ramone – Erdélyi

Posted: júlí 12, 2014 in Tónlist
Efnisorð:, ,

Tommy Ramone er látinn, síðastur af upprunalegum meðlimum The Ramones.

Ég held að flestir sem hafa áhuga á tónlist og sérstaklega þeir sem fylgdust með seinni hluta síðustu aldri viti hverjir Ramones voru og hvaða áhrif þeir höfðu. En ég er ekki viss um að margir hafi keypt plöturnar þeirra eða hlustað mikið á þá. Ég efast satt að segja um að margir þekki mörg lög frá þeim.

Það var kannski einkennandi fyrir þá að þeir spiluðu fyrir tugi þúsunda á íþróttaleikvangi í Brasilíu, komu heim til Bandaríkjanna og það mættu nokkrir tugir.

Ég náði aldrei að sjá Ramones, þetta var eitthvað sem ég var alltaf á leiðinni að fara að gera, en kom aldrei í verk, voru einhvern veginn aldrei að spila þar sem ég var á ferðinni… það næsta sem ég komst var þegar Steinþór heitinn hringdi í mig úr tíkallasíma frá Kaupmannahöfn, var á hljómleikum og vildi leyfa mér að heyra.

Tommy var upphaflegur trommuleikari Rarmones en spilaði ekki lengi með hljómsveitinni. Muni ég söguna rétt þá var þetta nokkurs konar neyðarúrræði vegna þess að þeir fundu ekki trommara. Um leið og hann fannst sneri Tommy sér að því sem hann hafði mestan áhuga á, upptökum, og stjórnaði upptökum á fyrstu plötum hljómsveitarinnar.

Punk (pönk) og ekki pönk

Posted: maí 25, 2014 in Tónlist
Efnisorð:, , , ,

Á fyrstu árum okkar Fræbbbla vorum við ansi mikið skammaðir, þóttum ekki par fínir og ég man eftir nokkuð mörgum tilefnislausum skotum frá fólki sem ég þekkti nákvæmlega ekki neitt.

Þarna er ég ekki að tala um fólk sem hafði engan áhuga á tónlist yfirleitt – og heldur ekki um fólk sem hafði engan áhuga á þeirri gerjun og/eða nálgun sem var í kringum 1980.

Ég er að tala um þá sem fylgdust með, mættu á hljómleika, keyptu plötur og fannst sú breyting frábær sem þarna varð á íslensku tónlistarlífi.

Við vorum einfaldlega ekki nógu „fínir“.

Fyrir það fyrsta þótti ég afskaplega vondur söngvari. Eflaust var eitthvað til í því enda hef mér aldrei dottið í hug að ég væri sérstaklega góður söngvari.. ég var að ekki að þessu vegna þess að ég héldi að ég væri næsti Björgvin Halldórsson eða Kristján Jóhannssonn – eða yfirleitt hefði eitthvað fram að færa sem hefðbundinn söngvari. Eflaust var þetta oft verra en það hefði þurft að vera, einfaldlega vegna þess að við vorum með litlar og lélegar græjur og heyrðum kannski lítið sem ekkert hvað við vorum að gera. Ég vildi hins vegar meina – og vil enn – að enginn annar hefði virkað sem söngvari Fræbbblanna, þeir hefður einfaldlega aldrei orðið neitt líkt því sem þeir voru annars.. og læt svo öðrum að meta hvort það er kostur eða ókostur. Nægilega margir gengu með það í maganum að taka við af mér en Stebbi, Steinþór og Tryggvi og Arnór blésu á allt svoleiðis.

En aðallega þóttum við ekki nógu sannir punkarar („gervipönk“ var frasi sem ég heyrði oft), ekki nógu pólitískir, ekki koma nægilega mikið úr verkalýðsstétt, ekki fylgja fatatískunni nógu vel og lífsstíllinn var ekki eins og gerð vara krafa um.

Mögulegt var að ákveðin lista-elíta (ef ég má nota svo vondan frasa) hafi engan veginn skilið hvað var í gangi, við áttum að vera ný hippakynslóð, hafa okkur eins og hipparnir, fara sem sömu frasana og hipparnir – og hvað sem tautaði og raulaði máttum við alls ekki stuða eða trufla þá sem voru heilagir í listasamfélaginu.

Ég man til að mynda eftir (ekkert sérstaklega diplómatískum) ummælum í Helgarpóstinum rétt fyrir komu The Clash á Listahátíð. Ég sagði eitthvað á þeim nótum að þeir væru sniðugir að græða á Marxistum. Hefði væntanlega betur haldið kjafti, en þetta var þá.. Það var búið að segja okkur að við myndum, ásamt Utangarðsmönnum, spila með Clash. Það var snögglega dregið til baka og látið vita að menn sem létu svona út úr sér ættu ekki heima þarna.

Einhverra hluta vegna voru sömu mælikvarðar ekki settir á aðrar hljómsveitir þessa tíma – sem betur fer – og enginn gerði rellu yfir fatnaði, uppruna, sönghæfileikum eða stjórnmálaskoðunum annarra en okkar. Gott mál.

En það var sérstaklega gaman að hitta Glen Matlock, stofnanda, lagahöfund, upphafsmann og bassaleikara The Sex Pistols í góðu tómi.