Nú þegar við Fræbbblar vorum að hefja upptökur, reyndar í þriðja skipti, á nýrri plötu þá er óneitanlega snúið að ákveða hvernig best er að gefa þetta út.. þeas. þannig að allir sem vilja vita, viti af, geti nálgast efnið og jafnvel stutt okkur þannig að við látum kannski verða af því að gefa út meira í framtíðinni.
Sennilega er einfaldast að setja þetta í vefsölu. Eða einfaldlega láta efnið liggja á einhverjum vefþjóni sem allir geta nálgast. Ekkert nafn á plötunni, ekkert umslag, engar upplýsingar og engir textar. Það er ekkert rosalega spennandi, en kannski er það raunveruleikinn.
Það mætti reyndar pakka lögunum saman í plötu með helstu upplýsingum þó hún verði í sölu á vefsíðu.
Og það mætti örugglega koma þessu vel á framfæri í samvinnu við net-tónlistar-útgáfur.
Svo má búa til eitthvað af geisladiskum og setja í sölu. Þá myndi platan örugglega heita eitthvað og helstu upplýsingar yrðu aðgengilegar. En, okkur skilst að geisladiskasala fari minnkandi, geisladiskaspilarar séu jafnvel ekki til lengur á heimilum. Þá borgar sig ekki að framleiða diska nema fyrir ákveðið lágmark.
Minnislykill er tilbrigði við þetta, sennilega ekkert eða lítið lágmark.
Svo eru nokkrir félagar búnir að óska eftir að fá gripinn á vinyl. Þetta skilst okkur aftur að sé enn stærri pakki, þeas. dýrara og meiri vinna – og eftirspurnin jafnvel enn minni, en kannski þeir sem mestan áhuga hafa.
En, allar hugmyndir vel þegnar.. við ákveðum ekki endanlega fyrr en efnið er tilbúið.