Upptaka og útgáfa nýrrar Fræbbblaplötu tók góðan hluta af seinni hluta ársins 2015 hjá okkur. Eftir að hafa verið að basla við upptökur í nokkur ár og látið eitt og eitt lag „leka“ í útgáfu þá ákváðum við að fara í gott stúdíó með topp hljóðmanni og gera loka tilraun til að taka upp. Fyrir valinu varð Sýrland og Sveinn Kjartansson, topp aðstaða, topp maður og átti lausan tíma sem okkur hentaði.
Við vildum hafa plötuna „lifandi“ að mestu leyti, ekki dauðhreinsaða, en láta samt ekki slæm mistök fylgja, mistök sem hreinlega skemma fyrir lögum. Grunnar og gítarar runnu inn á nokkrum klukkutímum. Ríkharður, gítarleikari, tók svo að sér að for-hljóðblanda, spila inn nokkra aukagítara og taka upp söng í eigin stúdíói. Hann notaði óhemju tíma í að fá réttan hljóm í hvert lag og að lokum fórum við aftur til Sveins í Sýrland til að ganga frá.
Það gekk hratt og vel, mikilvægt að fá fersk eyru, góðar ábendingar og fullkomnari tækni. Við Rikki sátum yfir þessum frágangi með Sveini og tókst að klára í 2-3 atrennum.
Eftir miklar vangaveltur og hátt á annað hundrað tillögur varð nafnið „Í hnotskurn“ fyrir valinu.
Okkur grunaði að ekki væri nægileg eftirspurn eftir vinyl en ákváðum að framleiða nokkur eintök af geisladiskum. Við áttum ekki von á sérstaklega mikilli eftirspurn og fórum þá leið að hanna umslag sjálf, Iðunn teiknaði mynd og ég hannaði að öðru leyti. Leturprent prentaði vasa fyrir diskana og Sýrland sá um að skrifa diska.
Það var svo ánægjulegt að platan fékk strax stórfínar móttökur, nánast allar umsagnir um plötuna voru frá því að vera mjög jákvæðar upp í hæstu hæðir, „ein af plötum ársins“, „plata ársins“, „framúrskarandi“, „skemmtilegasta plata Fræbbblanna“, „besta plata Fræbbblanna frá ‘Viltu nammi væna?'“ svo ég nefni nú eitthvað.
Rás 2 var svo aftur eina útvarpsstöðin sem gaf plötunni tækifæri, enda hafa Óli Palli og félagar alltaf stutt vel við íslenska tónlist. „Í hnotskurn“ var plata vikunnar og var kynnt vel og vandlega þá viku, eitt lag datt inn á vinsældalista í 2 vikur og Óli Palli bauð okkur að spila í beinni á föstudegi. En þar við sat og hún datt strax úr spilun.
Við buðum dagblöðunum (og hálf-dagblöðum) eintök, enginn þáði og enginn fjallaði um plötuna (mér vitanlega). En Halldór Ingi og Arnar Eggert voru báðir mjög jákvæðir á vefsíðum sínum eins og Grapevine – og gott ef greinar Halldórs Inga birtast ekki líka í tímaritum sem fylgja flugi.
Kannski þurftum við að vera duglegri að koma okkur á framfæri, en gerð plötunnar hafði tekið toll í vinnu og sem áhugamál var á mörkunum að það væri réttlætanlegt að leggja meiri vinnu (og þess vegna kostnað) í kynningu sem óvíst var að myndi skila nokkru. Það litla sem við reyndum nú samt til að koma okkur á framfæri var pent afþakkað og ekki beinlínis hvatning til að reyna meira.
Halldór Ingi valdi hana bestu plötu ársins, hjá Dr. Gunna var hún í fimmta sæti og hún sást á nokkrum öðrum samantektum þó ekki eins hátt skrifuð – og auðvitað gæti ég hafa misst af einhverju.
Nú fórum við af stað vitandi það að þetta myndi aldrei standa undir sér fjárhagslega, vorum sátt við að borga með okkur og vildum einfaldlega gera góða plötu. Fólk eyðir væntanlega öðru eins í áhugamál eins og að gera eina svona plötu á nokkurra ára fresti. Ætli beinn útlagður kostnaður hafi ekki verið um 600.000, kannski er rangt að reikna okkur laun fyrir vinnuna, en á lágmarkstaxta hefðu þau laun varla verið undir 400.000 – og eitthvað meira ef við hefðum verið á okkar launum.
Við þurftum að gefa nokkuð af eintökum en ætli plötusala skili ekki í kringum 100.000 á endanum, sennilega eitthvað minna. Tónlistarveitur hafa skilað 66 krónum!
Auðvitað hefði verið gaman að fleiri gæfu henni tækifæri. Ég er enn sannfærður um að mikill fjöldi fólks hefði haft mjög gaman af þessu efni, ef það hefði einfaldlega vitað af plötunni og gefið henni tækifæri. Einhver sagði við mig að þetta væri sú plata ársins sem fæstir vissu af sem myndu hafa gaman af (eða eitthvað í þá áttina). Mögulega er „punk“ stimpillinn að fæla einhverja frá, mögulega hefur fólk enga trú á að við getum enn gert góða plötu en líklega eru hreinlega of fáir sem vita af henni.
Þannig hefði verið gaman að fá þau skilaboð í verki að einhverjir vildu fá aðra plötu frá okkur. En við skiluðum verki sem erum stolt af, verki við höfðum gaman af að vinna. Og við vissum fullvel að við myndum seint fá upp í kostnað.
Á hinn bóginn hef ég verulegar áhyggjur af framtíð tónlistar og þykist sjá þróun sem er varhugaverð, þó hún birtist okkur í mýflugumynd. Jú, ég veit að allir eiga að vera voðalega þakklátir fyrir að vera voðalega vinsælir þegar tónlistinni þeirra er dreift og stolið án þess að þeir fái túkall fyrir viðvikið. En þetta er grundvallar misskilningur, það eru bara örfáir sem ná í gegn á þeim forsendum, fjölbreytnin fer smátt og smátt hverfandi og flestir virðast elta sömu kerruna. Við getum leyft okkur að gefa út og tapa á því, en mér finnst sorglegt að hugsa til þess að ungt og efnilegt tónlistarfólk geti ekki lifað af því að semja og gefa út tónlist.