Ég er nokkuð viss um að Útvarp Saga hefur aldrei spilað eitt einasta lag sem ég hef samið, eða yfirleitt flutt. Reyndar ekki alveg viss, því ég hef ekki hlustað í þó nokkurn tíma. Og mér þykir afskaplega langsótt að þeim detti í hug að spila nokkuð sem ég hef sent frá mér.
Fyrir utan það að ég er engan veginn viss um að ég hafi beinlínis lagalegan rétt til að banna ákveðnum stöðvum að spila efni sem ég hef gefið út, þó ég geti vissulega sent vinsamleg tilmæli og höfundarréttarlögin vísi í að höfundar megi takmarka í hvernig samhengi lög (og annað) eru notuð.
Aðalatriðið er… að ef Útvarp Saga hefur áhuga á að spila eitthvað sem ég hef gefið út, þá vil ég endilega að þau einmitt spili sem mest. Og ég mæli sérstaklega með lögum eins og Litir, Ó Fræbbblar vors lands, Þúsund ár, Í hnotskurn, Hengdum í eigin heimsku, Skeyti, Judge A Pope Just By The Cover, Brains, Dauði, Og upp rísa iðjagrænir Fræbbblar, 20. september 1997, For God – jafnvel Ótrúleg jól þegar þar að kemur.