Túkall fyrir tónlist

Posted: desember 5, 2015 in Tónlist
Efnisorð:

Við Fræbbblar gáfum út plötu í sumar, Í hnotskurn, og ákváðum að hafa nokkur eintök í boði í formi geisladisks en láta að öðru leyti reyna á sölu á rafrænum síðum. Við vildum ekki gefa eða hafa ókeypis streymi, þó það hafi óvart farið í loftið þannig fyrstu helgina.

Ekki svo að skilja að við höfum gert okkur nokkrar vonir um að fá upp í svo mikið sem brot af kostnaði, en ég var óneitanlega forvitinn að sjá hvernig þetta færi.

Nú vorum við að fá fyrsta uppgjörið frá einni „veitunni“. Ég geri mér grein fyrir að þetta eru greiðslur fyrir hlustun en ekki kaup. En gerum ráð fyrir einhvers konar jafnri dreifingu á því hversu oft kaupendur hlusta að jafnaði á keyptar plötur. Auðvitað er þetta alltaf umdeildanlegt, enda rosalega mismunandi, bæði eftir einstaklingum og eftir hvort viðkomandi líkar platan. En ég held að þetta sé ekki fjarri lagi.

Niðurstaðan er að við fáum 18 krónur fyrir hverja selda plötu, eða tæplega túkall á lag.

Ég hef eytt nokkrum tíma í að ræða við fólk um sölu, þjófnað, óleyfilega dreifingu á tónlist.. þeir sem aldrei hafa staðið í að gefa út tónlist hafa mjög ákveðnar skoðanir á því hvað nýtt umhverfi sé nú frábært fyrir tónlistarmenn á þessum síðustu og bestu tímum.

Best að fara að bóka tíma í stúdíói fyrir næstu plötu. Eða ekki.

Athugasemdir
  1. Hallur skrifar:

    Finna bara gamalt kassettutæki, taka næstu plötu upp á það og bjóða þeim sem telja þetta svo gott umhverfi að eiga eintak. Helst hafa kassettutækið staðsett á mjög vondum stað, t.d. við trommusett.