Að stela – tónlist eða öðru

Posted: mars 23, 2013 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:, ,

Umræðan um ólöglega dreifingu og afritun tónlistar dúkkar alltaf öðru hverju upp. Þetta á auðvitað við um sjónvarpsefni, kvikmyndir og hugbúnað, en höldum okkur við tónlistina.

Það er nefnilega alltaf verið að reyna að sannfæra okkur um þetta sé nú ekki svo slæmt. Tónlistarmenn græði nú bara á endanum á að það sé verið að stela frá þeim.

Mér er með öllu fyrirmunað að skilja hvers vegna heiðarlegt og skynsamt fólk leyfir sér að stela tónlist.

Þetta sama fólk stelur ekki hjóli nágrannans, labbar ekki út í næsta bakarí og grípur næsta kleinuhring eða tekur bók án endurgjalds, ekki einu sinni ljósrit.

En einhverra hluta vegna finnst mörgum allt í lagi að stela tónlist.

Og svo upphefst einhver sjálfsréttlætingarkór með hverja rökleysuna á fætur annarri.

Jú, það er auðvelt að afrita tónlist og nýtt eintak af tölvuskrá kostar (nánast) ekkert. En sömu hundalógík mætti færa yfirfæra á bakarann, „hann hendir hvort sem er svo miklu“ eða „ég skil tíkall eftir fyrir hráefninu“.

Nei, þarna virðir fólk það að framleiðslan kostar vinnu og gerir sér grein fyrir að það væru ekki margir bakarar í bænum ef það væri stolið jafnt grimmt frá þeim og tónlistarmönnum.

Það heyrist heldur ekki „ja, bakarinn verður nú svo vinsæll ef ég stel frá honum að þetta er allt í lagi“.

Athugasemdir
  1. matti skrifar:

    > „eða tekur bók án endurgjalds, ekki einu sinni ljósrit.“

    Slæmt dæmi. Bækur eru nefnilega lánaðar í stórum stíl, fólk kaupir bók, les hana og lánar öðrum án þess að hika. Það þykir bara allt í lagi og fólk er ekki þjófkennt fyrir það. Samt er ljóst að bókaútgefendur og höfundar verða af tekjum vegna þessa (glæpsamlega?) athæfis.

    Annars veit ég ekki hvaða fólk þú ert að tala um sem réttlætir þjófnað á tónlist. Ég var ekki að gera það í athugasemdum mínum við síðustu færslu þína.

  2. Ef þú lánar bók þá eru ekki báðir (eða fleiri þúsundir) að lesa hana samtímis, en gott og vel, ekki nákvæmlega sambærilegt.

    En, nei, þessu var alls ekki beint til þín – og skildi athugasemdir við fyrri færslu alls ekki þannig – svo það sé á hreinu.

    Ég hef einfaldlega átt – allt of margar – samræður við fólk sem finnst þetta í lagi.

  3. Kári Emil Helgason skrifar:

    Sem höfundur hugverka hef ég mikið pælt í þessu, en málið er að á endanum er höfundarréttur frekar asnalegur og gervilegur. Hann er aðskotahlutarkonsept í okkar samfélagi sem er mjög erfitt fyrir fólk að skilja á djúpstæðan hátt. Lagið ‘Copying is not theft’ https://vimeo.com/50481436 útskýrir þetta á einfaldan hátt. Þess vegna er ég sammála því að það þarf að breyta hvernig hugverk skapa tekjur. Höfundarréttur einn og sér einfaldlega virkar ekki lengur. Hann er úr sér genginn og var aldrei sérstaklega vel til fundinn til að byrja með.

  4. Höfundarréttur hefur þjónað ákveðnum tilgangi síðustu áratugi, en svo má fara lengra aftur og finna margt undarlegt…

    En ég er nú kannski aðeins að „hnippa í“ neytendur með þessari færslu. Klárlega þurfa höfundar að finna nýjar leiðir, einfalda aðgengi og auðvelda þeim sem vilja greiða fyrir.

    Hins vegar vil ég ekki að það gleymist að það liggur talsverð vinna á bak við að búa til efni og neytendur mega gjarnan hafa í huga að það er engan veginn sjálfgefið að sum vinna sé ókeypis en önnur ekki.

  5. Kári Emil mætti gjarnan lýsa upp leiðina fyrir okkur hina varðandi þessa fullyrðingu sína: “ það þarf að breyta hvernig hugverk skapa tekjur. Höfundarréttur einn og sér einfaldlega virkar ekki lengur. Hann er úr sér genginn og var aldrei sérstaklega vel til fundinn til að byrja með“. (!)
    Hvað hefur breyst?Hverjar eru hinar nýju leiðir til tekjuöflunar? Eru þær sumsé vaðandi í villu og svíma þessar 229 innheimtustofnanir höfundargjalda í heimingum sem innheimta árlega rúmlega 900 milljarða sem skilað er til tugþúsunda höfunda um allan heim? Þetta eru aldeilis stórtíðindi!