Það varð óneitanlega smá hvellur í vikunni í umræðu um skattatilfæringar hjá nokkrum fyrirtækjum.
Erlendis hefur þetta verið umræða almennt um aðferðir stórfyrirtækja til að flytja hagnað á milli landa þannig að hann sé sem minnst skattlagður – Starbucks og Google hafa verið tekin sem dæmi.
Hér varð þetta strax að „álfyrirtækjagrýlu“. Jú eitt álfyrirtæki hafði ekki borgað tekjuskatt á meðan uppbygging var í gangi en greiðir nú þokkalegar upphæðir í tekjuskatt.
Annað hefur greitt tekjuskatt árum ef ekki áratugum saman. En það var enginn að nefna þetta. Enda ekkert fréttnæmt.
Auðvitað eru góð og gild rök fyrir að þjóðfélag þar sem hagnaður myndast njóti þess að einhverju, eða miklu, leyti. En það verða að vera almennar reglur sem gilda um alla, ekki bara veiðileyfi á eina tegund fyrirtækja.
Svo er önnur hugmynd og önnur umræða – en kannski tímabær.
Er ekki kominn tími til að leggja tekjuskattinn niður? Muni ég rétt nefndi Gylfi Þ. Gíslason þessa hugmynd fyrir um 30 árum.
Ég hef alltaf hallast að einföldu gagnsæu skattkerfi. Flókið kerfi með mörgum póstum (skattstofnum) og fjölmörgum undantekningum er bæði dýrt í rekstri og býður upp á misnotkun og undanskot.
Er það alvitlaus hugmynd að leggja af tekjuskatt, eignaskatt, erfðafjárskatt og láta neysluskatta nægja?
PS. OK, ég er sjálfur ekki 100% sannfærður, en mér finnst vel þess virði að taka þessa umræðu
Stór hluti af tekjuskatti rennur til sveitarfélaga (útsvar) og hefur sá hluti forgang fram yfir þann hluta tekjuskatts sem rennur til ríkis. Útsvar er stór hluti af tekjustofni sveitarfélaga. Ef sveitarfélög missa útsvarið, eiga þau þá að hækka fasteignaskatt, eða að taka upp t.d. skólagjöld í grunnskóla og hækka leikskólagjöld? Kannski vegatolla á götum innan sveitarfélaga sem eru ekki þjóðvegir? Eða fá hlutdeild í virðiskaukaskatti?
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1995004.html
Þessi færsla var nú meira vangaveltur, einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að svindla á því sem ekki er.. og flækjurnar eru allt of miklar í núverandi skattkerfi.
En klárlega þyrftu sveitarfélög að fá hluta af neyslusköttum. Það eru eiginlega ekki góð rök gegn hugmynd að benda á eitthvað eins og náttúrulögmál sem má einfaldlega breyta.
Ef taka ætti allar tekjur sem hið opinbera þarfnast í gegnum neysluskatta (m.v. núverandi þjóðfélagsgerð) þá leggst mun meiri þungi á verðlagið í landinu en nú er. Við höfum lengi verið í hópi þjóða sem eru með hæstu neysluskatta í heimi og búið að auki við meiri verðbólguþrýsting og hærra verðlag en flestar vestrænar þjóðir.
Annað sem mælir gegn ofnotkun neysluskatta er að þeir tekjulægri borga stærri hluta tekna sinna í neysluskatta. Sú leið felur þannig í sér að leggja hlutfallslega léttustu byrðarnar á þá sem breiðu bökin hafa.
Þetta er auðvitað breyting sem hefði gríðarleg áhrif á allt hagkerfið… ég er ekki sannfærður um að þetta hefði þau áhrif að verðbólga yrði meiri, þeas. eftir að breytingin væri gengin í gegn. Verðbólgan stýrist af peningamagni í umferð og eftir fyrsta skotið sem breytingin hefði í för með sér sé ég engin sérstök rök fyrir því að verðbólguþrýstingur yrði meiri.
Muni ég rétt þá voru rökin fyrir þessu meðal annars þau að í rauninni bera þeir sem hafa meðaltekjur lang stærstan hluta byrðanna, hinir virðast finna götin í flóknu kerfi.
Það mætti hugsa sér að hafa tvö þrep, lítinn sem engan skatt á nauðsynjum en háan á öðrum.
Sú aðgerð að breyta yfir í svona kerfi er væntanlega snúin, þyrfti jafnvel að gerast í áföngum.
Önnur rök voru að þetta hefði mjög góð og örvandi áhrif á hagkerfið…
Sennilega veit enginn hvernig þetta kæmi út í rauninni, verst að það er ekki hægt að prófa.
Sanngjarnt eða ekki – ég er að minnsta kosti ekki sannfærður um að núverandi skattkerfi sé mjög sanngjarnt.
En, ég sé í rauninni ekki að það skipti öllu hvort skatturinn er lagður á launþega á leiðinni „inn“ eða „út“. Eini munurinn er að þeir sem hafa há laun geta komist hjá því að borga skatta með því að geyma í banka eða „undir kodda“. Ef peningar safnast upp í banka þá verður væntanlega mikið af lánsfé í boði, vextir lækka, og ríkið fær sinn hlut þegar peningarnir komast þannig aftur í umferð. En það væri vissulega vandamál ef fólk tekur út og geymir seðla heima hjá sér. En það hlýtur að vera ólíklegt að þeir sem eiga mikið af peningum geyma þá vaxtalausa heima hjá sér. En, hvað veit ég…