Posts Tagged ‘ólöglegt niðurhal’

Umræðan um ólöglega dreifingu og afritun tónlistar dúkkar alltaf öðru hverju upp. Þetta á auðvitað við um sjónvarpsefni, kvikmyndir og hugbúnað, en höldum okkur við tónlistina.

Það er nefnilega alltaf verið að reyna að sannfæra okkur um þetta sé nú ekki svo slæmt. Tónlistarmenn græði nú bara á endanum á að það sé verið að stela frá þeim.

Mér er með öllu fyrirmunað að skilja hvers vegna heiðarlegt og skynsamt fólk leyfir sér að stela tónlist.

Þetta sama fólk stelur ekki hjóli nágrannans, labbar ekki út í næsta bakarí og grípur næsta kleinuhring eða tekur bók án endurgjalds, ekki einu sinni ljósrit.

En einhverra hluta vegna finnst mörgum allt í lagi að stela tónlist.

Og svo upphefst einhver sjálfsréttlætingarkór með hverja rökleysuna á fætur annarri.

Jú, það er auðvelt að afrita tónlist og nýtt eintak af tölvuskrá kostar (nánast) ekkert. En sömu hundalógík mætti færa yfirfæra á bakarann, „hann hendir hvort sem er svo miklu“ eða „ég skil tíkall eftir fyrir hráefninu“.

Nei, þarna virðir fólk það að framleiðslan kostar vinnu og gerir sér grein fyrir að það væru ekki margir bakarar í bænum ef það væri stolið jafnt grimmt frá þeim og tónlistarmönnum.

Það heyrist heldur ekki „ja, bakarinn verður nú svo vinsæll ef ég stel frá honum að þetta er allt í lagi“.

Ég sé í dag frétt hjá Rúv um rannsókn sem bendi til að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu á tónlist, sjá http://www.scribd.com/doc/131005609/JRC79605

Ef „rannsóknin“ er skoðuð nánar kemur fram að lítið sem ekkert styður þessar fullyrðingar. Meira að segja er tekið skýrt fram að tekjur af sölu tónlistar hafi minnkað verulega („revenues decrease drastically“). Þá kemur fram að hegðun notenda er mjög mismunandi eftir löndum. 

Þeir segjast reyndar ekki finna nein merki þess að ólöglegt niðurhal hafi áhrif á sölu tónlistar, en það gefur ekki leyfi til að álykta að það sé ekki til staðar. Enda er aðferðin sem þeir beita til að gefa sér að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu beinlínis fráleit.

Í rauninni er þetta frekar einfalt.

Það er engin leið að gefa sér að fólk sem sækir tónlist án þess að greiða fyrir myndi ekki kaupa ef ekki væri hægt að sækja hana ólöglega. Það eru fleiri milljónir eða milljónatugir sem sækja sér tónlist ólöglega. Að gefa sér að enginn þeirra myndi í nokkru tilfelli kaupa þá tónlist sem viðkomandi hefur sótt er eiginlega fráleitt.

Að horfa á lækkandi sölutölur á sama tíma og ólöglegt niðurhal fer sívaxandi og halda því fram að engin tengsl séu þarna á milli er galið.

Ef eitthvað er þá fer „neysla“ á afþreyingarefni vaxandi og því ættu tekjur af tónlist að hafa vaxið gríðarlega ef eitthvað er.

Ég geri ekki lítið úr því að netið hefur opnað dyrnar fyrir óteljandi tónlistarmenn. En það er með þeirra vilja og samþykki.

Þá er líka rétt að hafa í huga að sú aðferð að dreifa tónlist á vefnum, td. í gegnum YouTube, hentar ekki öllum tónlistarmönnum og alls ekki allri tegund af tónlist. Mér sýnist (og hef ég engar rannsóknir til að styðja, heldur er þetta órökstudd tilfinning) að tónlist sé sífellt að verða einhæfari og einsleitari.

Jú, og svo enginn misskilningur sé á ferð… ég vil gjarnan sjá breyttar reglur um höfundarrétt og breytt umhverfi. En ekki bulla í mér með forsendurnar…