Að ólögmætt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu

Posted: mars 22, 2013 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég sé í dag frétt hjá Rúv um rannsókn sem bendi til að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu á tónlist, sjá http://www.scribd.com/doc/131005609/JRC79605

Ef „rannsóknin“ er skoðuð nánar kemur fram að lítið sem ekkert styður þessar fullyrðingar. Meira að segja er tekið skýrt fram að tekjur af sölu tónlistar hafi minnkað verulega („revenues decrease drastically“). Þá kemur fram að hegðun notenda er mjög mismunandi eftir löndum. 

Þeir segjast reyndar ekki finna nein merki þess að ólöglegt niðurhal hafi áhrif á sölu tónlistar, en það gefur ekki leyfi til að álykta að það sé ekki til staðar. Enda er aðferðin sem þeir beita til að gefa sér að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu beinlínis fráleit.

Í rauninni er þetta frekar einfalt.

Það er engin leið að gefa sér að fólk sem sækir tónlist án þess að greiða fyrir myndi ekki kaupa ef ekki væri hægt að sækja hana ólöglega. Það eru fleiri milljónir eða milljónatugir sem sækja sér tónlist ólöglega. Að gefa sér að enginn þeirra myndi í nokkru tilfelli kaupa þá tónlist sem viðkomandi hefur sótt er eiginlega fráleitt.

Að horfa á lækkandi sölutölur á sama tíma og ólöglegt niðurhal fer sívaxandi og halda því fram að engin tengsl séu þarna á milli er galið.

Ef eitthvað er þá fer „neysla“ á afþreyingarefni vaxandi og því ættu tekjur af tónlist að hafa vaxið gríðarlega ef eitthvað er.

Ég geri ekki lítið úr því að netið hefur opnað dyrnar fyrir óteljandi tónlistarmenn. En það er með þeirra vilja og samþykki.

Þá er líka rétt að hafa í huga að sú aðferð að dreifa tónlist á vefnum, td. í gegnum YouTube, hentar ekki öllum tónlistarmönnum og alls ekki allri tegund af tónlist. Mér sýnist (og hef ég engar rannsóknir til að styðja, heldur er þetta órökstudd tilfinning) að tónlist sé sífellt að verða einhæfari og einsleitari.

Jú, og svo enginn misskilningur sé á ferð… ég vil gjarnan sjá breyttar reglur um höfundarrétt og breytt umhverfi. En ekki bulla í mér með forsendurnar…

Athugasemdir
 1. Matti skrifar:

  Það eru fleiri fletir á þessu.

  Rannsóknir sýna að þeir sem hala niður tónlist kaupa meiri tónlist en þeir sem ekki sækja tónlist á netinu. Sjá t.d. það fyrst sem kemur við leit á google (http://www.guardian.co.uk/music/2009/apr/21/study-finds-pirates-buy-more-music)

  Sala á tónlist hefur breyst, fólk kaupir síður heilar plötur en meira af stökum lögum.

  Er stafræn sala á tónlist inni í tölunum um minnkandi sölu á tónlist eða er bara verið að tala um plötur/dvd? Með stafrænni sölu er ég bæði að tala um sölusíður eins og iTunes en einnig stafrænt streymi á áskriftarsíðum.

  Hvaða sala hefur minnkað? Eru það mest seldu plöturnar sem seljast minna eða er þessi minnkun á plötusölu yfir línuna?

 2. Það eru alls kyns rannsóknir sem gefa misvísandi niðurstöður / vísbendingar. Meira að segja í þessari rannsókn sem RÚV vísar til er skýrt tekið fram að tekjur af sölu tónlistar hafa hrapað rosalega („revenues reduced drastically“).. og þá er átt við heildartekjur. Þarna er líka vísað í margar rannsóknir, sem sýna mismunandi niðurstöður, eða vísbendingar.

  Það er svo augljós rökvilla í báðum greinunum, Guardian og TechDirt. Jú, þeir sem sækja, þeir kaupa líka – auðvitað, þetta er áhugafólk um tónlist. Það segir ekkert um hvort viðkomandi myndu kaupa sama magn eða meira ef aðgangur að ólöglegu niðurhali væri ekki til staðar.

  Sala á tónlist hefur breyst hér á landi, en erlendis, td. í Bretlandi, hefur alltaf verið risastór markaður fyrir stök lög, þeas. litlar plötur.

  Ef við gefum okkur að áhugi á tónlist hafi ekki minnkað sem þessu nemur þá er augljóst að ólöglegt niðurhal hefur skert tekjur tónlistarmanna.

  Því miður eru afleiðingarnar ekki svo sýnilegar, fullt af tónlistarmönnum hefur gefist upp – einfaldlega vegna þess að YouTube er ekki þeirra vettvangur.

 3. Kári Emil skrifar:

  Það er mikill munur á hegðun eftir löndum. Ég sé mun á eigin hegðun eftir því hvort ég er á Íslandi eða í Bandaríkjunum. Nú nota ég Spotify, Soundcloud, Gogoyoko og YouTube til að hlusta á tónlist. Ég á enn helling af plötum sem ég geymi á iTunes, en þar sem ég get haft þær allar á Spotify líka (og þar með skilað listamönnunum auknum tekjum) hef ég hætt að nota iTunes og iPod appið á símanum mínum. Ég er hins vegar alveg hættur að kaupa tónlist nema hjá allra mest uppáhöldunum mínum. Ég borga mig hins vegar inn á tónleika að minnsta kosti einu sinni í mánuði.

  Á Íslandi hins vegar virkar Spotify ekki og YouTube oft ekki. Þannig að þar skipti ég yfir í iTunes. Ef það er eitthvað sem mig dauðlangar í og get ekki beðið eftir að koma aftur til Bandaríkjanna eftir þá kaupi ég það stundum (eða læt mömmu kaupa á geisladiski og rippa hann frá henni).

  Ég er alveg hættur að sækja torrenta enda engin þörf með þeim internetþjónustum sem til eru núna. En infrastrúktúrinn er flókinn og ekkert sérstaklega vinsamlegur neytendum. Það að ákveðnar þjónustur virki ekki í mismunandi löndum er mjög þreytandi. Og þegar torrentar eru auðveldari en allar löglegar leiðir sækir fólk torrent. Og þangað til löglegu leiðirnar verða jafnauðveldar eða auðveldari að nota og þær ólöglegu verða þær ólöglegu til staðar.

 4. Já, ég er sammála því að þetta sé lykillinn, þeas. að hafa löglegu leiðirnar jafn auðveldar og aðgengilegar og þær ólöglegu. Og afnema landamærin í þessu. Alveg eins og er að verða reglan í td. kaupum á Android „öppum“ eða bókum fyrir Kindle. Um leið og þetta er ódýrt, þægilegt og fljótlegt þá held ég að nægilega margir séu tilbúnir til að borga.

  Vandamálið liggur klárlega að hluta til í tónlistarheiminum – og það er hans að finna lausn.

  En það breytir því ekki að allt tal um að ólöglegt niðurhal hafi ekki haft áhrif á sölu er eitthvað sem er- ja, ef ekki þvæla – þá að minnsta kosti eitthvað sem ekki hefur verið sýnt fram á.

  Hitt er að þú borgar þig reglulega inn á tónleika, sem er mjög gott, en mér finnst ég sífellt verða meira og meira var við kröfuna um að það sé ókeypis á tónleika. Stundum finnst mér að þeir sem sækja tónlist í leyfisleysi án þess að borga séu að „kafna úr frekju“, vilja líka frítt inn á hljómleika.

 5. Matti skrifar:

  Ég las loks greinina, sem þú hefðir alveg mátt vísa á, og verð að segja að ég skil ekki alveg af hverju þú segir aðferð þeirra fráleita.

  > „…þá er augljóst að ólöglegt niðurhal hefur skert tekjur tónlistarmanna.

  Er það? Er til eitthvað yfirlit yfir tekjur tónlistarmanna síðustu áratugi – jafnvel borið saman við aðra hópa?

  > „Það er svo augljós rökvilla í báðum greinunum, Guardian og TechDirt. Jú, þeir sem sækja, þeir kaupa líka – auðvitað, þetta er áhugafólk um tónlist. Það segir ekkert um hvort viðkomandi myndu kaupa sama magn eða meira ef aðgangur að ólöglegu niðurhali væri ekki til staðar.“

  En það er einmitt það sem greinin sem RÚV fjallaði um er einmitt að reyna að skoða.

  Það er alveg jafn fráleitt að gefa sér að sá sem stelur tónlist hefði ellegar keypt hana og það að gefa sér að enginn sem stelur tónlist hefði keypt hana ef hann hefði ekki getað stolið henni.

  Í þessari tilteknu grein eru færð ágæt rök fyrir því að þeir sem fara á síður þar sem hægt er að stela tónlist séu líka duglegri við að sækja síður þar sem hægt er að kaupa tónlist löglega.

  En svo er það önnur spurning. Má ekki vel vera að áhugi á tónlist hafi minnkað þegar framboð á annarri afþreyingu hefur aukist mjög mikið. Og að sá áhugi hafi jafnvel breyst mjög mikið, þörfin til að eiga tónlist hafi minnkað þegar aðgengi að streymi hefur aukist.

  Það má ekki alveg gefa sér að það sé lögmál að tónlist seljist í efnislegu formi og samdráttur á þeim markaði sé merki um eitthvað óeðlilegt.

 6. Ég segi aðferðina fráleita vegna þess að hún mælir ekki – og getur ekki mælt – hversu mikið af tónlist hefði selst ef ekki væri þetta mikið framboð af tónlist til ólöglegs niðurhals.

  Það hefði verið réttara að segja tekjur tónlistariðnaðarins í heild – þær tölur eru til – frekar en tónlistarmanna, en klárlega minnka tekjur tónlistarmanna með minnkandi sölu.

  Greinin sem Rúv vísar til er að reyna að skoða þetta, en þetta nær engri átt að draga þessar ályktanir.

  Ég gef mér ekki – og held hvergi fram – að allir þeir sem stela hefðu annars keypt [enda báðar fullyrðingar fráleitar]. En ég reikna með að einhverjir hefðu gert það. Og þá stendur eftir að það er eitthvert tap vegna ólöglegs niðurhals.

  Það eru færð rök fyrir því að þeir sem hafa áhuga á tónlist sæki bæði ólöglegar og löglegar útgáfur. Það eru samt engar forsendur til að halda því fram að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu, það er ekkert beint samhengi þarna á milli. Það eina sem þetta sýnir fram á er að þeir sem hafa áhuga á tónlist hafa áhuga á tónlist!

  Jú, auðvitað getur mögulega verið að áhugi á tónlist hafi minnkað, en óneitanlega finnst mér það ekki líklegt í ljósi þess hversu gríðarlega mikið er sótt bæði af löglegu og ólöglegu efni. Það ber ekki vott um áhugaleysi. Og breytir því ekki að fullyrðingin um að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu er ekki studd neinum staðreyndum, og þess vegna út í bláinn.

 7. Og, já, ég hefði auðvitað átt að láta tilvísun fylgja, http://www.scribd.com/doc/131005609/JRC79605

 8. Kristján Friðjónsson skrifar:

  Það er eitt sem oft vill gleymast í þessum umræðum og það er eitthvað sem hefur verið rannsakað og er staðreynd. Það er að það er bara ákveðið hlutfall af innkomu fólks sem það setur í afþreyingu. Það er reyndar alveg augljós staðreynd ef maður á annað borð vill sjá það. Og merkilegt nokk þá hefur það hlutfall haldið sér nokkuð lengi og lítið stækkað. En á sama tíma þá hafur valmöguleikum fólks til afþreyingar fjölgað gífurlega. Þegar þetta er sett í samhengi þá er alls ekkert skrítið að fólk eyði minni peningum í bíóferðir og að kaupa sér tónlist. Það hefur einfaldlega ekki peninga til þess, því það þarf að borga fyrir leikjatölvurnar, sjónvörpin, tölvurnar, paintball ferðirnar, íþróttirnar, tölvuleikina, utanlandsferðirnar, spjaldtölvurnar, smartsímana, internetið, vod-ið, mp3 spilarana… Meira, meira, MEIRA, NÚNA!!! STRAX, MÉR LIGGUR Á! ÞAÐ ER AÐ KOMA NÝR SÍMI!!!

 9. Ég skal játa að ég efast um þessa fullyrðingu – og mynd biðja um tilvísanir í rannsóknir áður en ég samþykki sem staðreynd, ef þetta skipti máli í þessu samhengi – þeas. að þetta sé ákveðið hlutfall af innkomu fólks. Ég myndi halda að þetta stýrðist af því hversu mikið fólk hefur afgangs eftir nauðsynjar.

  Þá er ég ekki sannfærður um að tónlistin ein finni fyrir aukinni samkeppni. Ef við horfum 50 ár aftur í tímann þá hefur framboð á afþreyingu aukist jafnt og þétt án þess að tónlistin finni fyrir. Höggið sem tónlistin fær er um aldamótin þegar ólögleg drefing hefst í stórum stíl.

  En þetta skiptir auðvitað ekki máli í þessu samhengi..

  Færslan mín fjallar um að þessi rannsókn sýnir ekki eitt né neitt, annað en að það er fylgni á milli áhuga fólks á tónlist og áhuga fólks á tónlist. Hún gefur ekkert tilefni til þeirra fullyrðinga sem settar eru fram í fréttum.

 10. Þetta er nokkuð góð rannsókn. Hún skoðar notkun á löglegum og ólöglegum vefsíðum. Ástæður þess að tekjur tónlistariðnaðarins hafa minnkað svona mikið er aðallega að finna í að þeir voru seinir að tileinka sér stafræna dreifingu (ólögleg stafræn dreifing var lööööngu á undan þeim). Hlutur löglegrar stafrænnar dreifingar hefur vaxið gríðarlega undanfarið og því hafa tekjur (þar) aukist mjög mikið. Það má skilja þetta sem svo að raunrit séu að úreldast rétt eins og videospólur.

  Rannsóknin finnur jákvæð tengsl á milli notkunar ólöglegra vefsíðna og notkun löglegra. Þeir sem nota ólöglegu síðurnar eru virkari notendur löglegra vefsíðna.

  Aðeins varðandi: „Ég segi aðferðina fráleita vegna þess að hún mælir ekki – og getur ekki mælt – hversu mikið af tónlist hefði selst ef ekki væri þetta mikið framboð af tónlist til ólöglegs niðurhals.“ — þetta eru algeng rök en gölluð. Hvers margir keyptu tónlistina af því að þeir kynntust henni í gegnum ólöglega dreifingu? Þú ert hér því að deila um mismuninn á þeim notendum sem hefðu keypt tónlistina ef þeir hefðu ekki fengið hana ólöglega og þeim notendum sem hefðu ekki keypt hana ef þeir hefðu ekki fengið að prófa.

  Samkvæmt ýmsum rannsóknum er munurinn á þessum hópum jákvæður í hag framleiðenda tónlistar en ekki þeirra sem ‘sleppa’ við að borga.

  Eins og ég nefndi, ‘höggið’ sem tónlistariðnaðurinn fékk í kringum aldamótin var einfaldlega af því að þeir voru ekki með stafræna verslun sem möguleika fyrir neytendur. Þegar iTunes kom inn á markaðinn fór allt á fleygiferð aftur.

  • Það er rétt að tónlistariðnaðurinn hefur ekki brugðist rétt eða fljótt við – og í rauninni eina svarið að taka þessu fagnandi og auðvelda löglegar leiðir – þær eru enn allt of klunnalegar, seinlegar og allt of mikið af takmörkunum.

   En það er kannski önnur umræða, eins og ég hef sagt áður í svörum þá sýnir þessi rannsókn ekkert. Hún sýnir ekkert um hverjir keyptu tónlist eftir að kynnast í gegnum ólöglega dreifingu. Hún sýnir aðeins tengingu sem var augljós áður en hún var gerð. Það kemur ekkert fram um hversu margir keyptu í framhaldi af ólöglegu niðurhali, þess vegna eru engar forsendur til að gefa sér niðurstöður eða fullyrðingar.

   Það er hægt að „prófa“ langmest efni áður en það er keypt, þess vegna finnst mér ólíklegt að ólöglegt niðurhal örvi sölu vegna kynningar.

   Það væri gaman að sjá þessar „ýmsu rannsóknir“ sem þú vísar til, eru þær eitthvað haldbærari en þessi?

   Ég er ekki að fullyrða að það geti ekki verið rétt að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu. Mér finnst það hins vegar mjög ólíklegt. Og þessi rannsókn hefur ekkert gildi.

   • Hvernig útskýrir þú þá að þeir komist að rangri niðurstöðu? Er eitthvað að aðferðunum þeirra? Vantar gögn? Er fólk að misskilja niðurstöðurnar kannski?

    Hvernig stendur á því að þú ert ósammála þeim, þú hefur ekki hrakið rökin þeirra … og því verður maður að álykta að, enn sem komið er, þá hafi þeir rétt fyrir sér.

    • Ég er kannski ekki að tala nægilega skýrt, ég er ekki að segja að niðurstaðan sé röng, ég er að segja – eins og ég hef nokkrum sinnum nefnt í svörunum – að gögnin gefi ekki tilefni til að komast að þessari niðurstöðu.

     Þeir sýna aðeins fram á að þeir sem hlaða tónlist niður ólöglega kaupi líka tónlist. Þetta er ekkert fréttnæmt eða merkilegt, Þeir sem hafa áhuga á tónlist hafa áhuga á tónlist! Það er ekki hægt að gefa sér út frá því að þeir hinir sömu myndu ekki kaupa meiri tónlist ef ólöglegt niðurhal væri ekki í boði. Svarið er einfaldlega ekki þekkt.

     Eina leiðin til að gera einhverja rannsókn sem gæti sýnt marktæka niðurstöðu á annan hvorn veginn, er að taka tvo risastóra hópa sem hafa sótt ólöglega tónlist og keypt löglega þannig að það sé sambærilegt á milli hópa. Síðan þarf að taka ólöglegt niðurhal af öðrum og mæla.Hvernig þú ætlar svo að fara að þessu veit ég ekki, þetta er jú ólöglegt. Og hóparnir mega auðvitað ekki vitað að verið sé að fylgjast með.

 11. „gögnin gefi ekki tilefni til að komast að þessari niðurstöðu“

  segir þú og þeir segja

  „a 10% increase in clicks on illegal downloading websites leads to a 0.2% increase in clicks on legal purchases websites. Online music streaming services are found to have a somewhat larger (but still small) effect on the purchases of digital sound recordings, suggesting complementarities between these two modes of music consumption. According to our results, a 10% increase in clicks on legal streaming websites lead to up to a 0.7% increase in clicks on legal digital purchases websites.“

  TVÖ gagnasett, annað með 5000 einstaklingum og hitt með 25 þúsund. Notendur frá mismunandi löndum, með mismunandi innkomu, …

  Það er talað um tölfræðilegt samband, þarna er tölfræðilegt samband. Já, það er ekki endilega orsakasamhengi enda MJÖG erfitt að sanna slíkt. Gögnin eru góð og rannsóknin eru hins vegar mjög vel gerð. Hvernig væri hægt að túlka þessa tengingu öðruvísi … ef þú vildir vera svo vænn?

 12. Þarna er vissulega tölfræðilegt samband, en ekkert sem segir til um orsakasamhengi.

  Ég held að ég hafi útskýrt fjórum til fimm sinnum hvernig er hægt að túlka þessa tengingu, ef þú vildir vera svo vænn… að lesa.

  Þeir sem leyfa sér að sækja ólöglegt tónlistarefni eru þeir sem hafa áhuga á tónlist. Þeir kaupa líka tónlist, að hluta til vegna þess að erfitt er að nálgast sumt efni, að hluta til (vonandi) vegna þess að þeir vilja styðja viðkomandi tónlistarmenn. Það er samt mjög stór hluti sem sækir eingöngu ólöglegt efni og margir sem kaupa einungis hluta af því sem þeir sækja. Og ekki gleyma að heimsókn á löglegar síður segir nákvæmlega ekki neitt til um hvort fólk verslar eða ekki.

  Ekkert í þessari rannsókn gefur leyfi til að túlka gögin þannig að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu. Hún segir ekkert um hegðun viðkomandi ef ekki væri aðgangur að ólöglegri tónlist.

  Hún sýnir aðeins að þeir sem hafa áhuga á tónlist hafa áhuga á tónlist. Ég þurfti ekki að sjá niðurstöður úr viðamikilli rannsókn til að vita þetta.

  • „Ekkert í þessari rannsókn gefur leyfi til að túlka gögin þannig að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu.“
   Tvöföld neitun, leyfi mér að reyna að endurorða. Það er hægt að lesa úr gögnunum að ólöglegt niðurhal hafi áhrif á sölu (rannsóknin sýnir jákvætt samhengi).

   „Hún segir ekkert um hegðun viðkomandi ef ekki væri aðgangur að ólöglegri tónlist.“
   Enda líka ómögulegt og óþarfi að pæla í svoleiðis aðstæðum því það er einfaldlega ekki hægt að koma í veg fyrir það (ath, það er hópur í gögnunum sem stundar ekki ólöglegt niðurhal þó það sé aðgangur að slíku)

   „Hún sýnir aðeins að þeir sem hafa áhuga á tónlist hafa áhuga á tónlist. Ég þurfti ekki að sjá niðurstöður úr viðamikilli rannsókn til að vita þetta.“
   Gögnin sýna meira en það, þau sýna að þeir sem hafa áhuga á tónlist og stunda ólöglegt niðurhal „kaupa“ meira (meiri virkni á löglegum síðum) en hinn hópurinn sem stundar ekki ólöglegt niðurhal. Það er ekki hægt að ætla að það sé nokkur munur á þessum tveimur hópum varðandi tónlistaráhuga.

   … þar af leiðandi, frekar augljós niðurstaða … sem er rakin í greininni. Nema þú getir útskýrt gögnin einhvern vegin öðruvísi (aftur).

   • Gott og vel, ég hefði mátt orða þetta skýrar [með tvöföldu neitunina].

    En nei, það eru engar upplýsingar í gögnum sem staðfesta að ólöglegt niðurhal hafi jákvætt áhrif á sölu. Og engar forsendur til að draga þessar ályktanir.

    Það er rétt að það er (nánast) ómögulegt að kanna raunverulega hvort þetta hefur áhrif. En það er ástæðulaust að láta óskhyggju ráða við að túlka gögn – og láta eins og þau segi eitthvað sem þau segja ekki.

    Þú virðist gleyma að það er fullt af fólki sem kaupir tónlist löglega og stundar ekki að sækja ólöglegt efni.

    Og þú skautar yfir að það eru engar upplýsingar um að viðkomandi kaupi tónlist þó hann fari á síður með löglegu efni, ein skýring sem mér dettur í hug eru þar betri leitarmöguleikar, fólk fari þangað að leita að upplýsingum um efni og sæki svo áfram ólöglega. Ég veit þetta auðvitað ekki, en þú veist þetta ekki heldur og það eru engar forsendur til að gefa sér eitthvað.

    Annars er ég búinn að útskýra þetta svo oft og læt nægja að vísa í fyrri svör, þú verður svo að ráða hvort þú tekur mark á þeim..

    Látum þetta nægja.